18.11.1986
Sameinað þing: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í B-deild Alþingistíðinda. (805)

148. mál, hafnamál

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli hér. Ég vil bara minna á það, sem kom fram hjá hæstv. samgrh., að framlag til hafna hefur síðustu ár verið það lítið að ekki er hægt að una því miðað við ástand hafnanna. Það voru 74 milljónir á yfirstandandi ári. Nú eru áætlaðar 160 milljónir. Ef ætti að borga upp þann hala sem er á þessum málaflokki mundu ekki vera nema 40-45 milljónir til framkvæmda á næsta ári. Það er neyðarástand víða um land í þessum málum og er ekki nokkur leið að sætta sig við þá fjárveitingu sem er í fjárlagafrv.

Ég nota þetta tækifæri, fyrst þetta mál er á dagskrá, til að koma þessu á framfæri. Ég fyrir mitt leyti get með engu móti sætt mig við þessa fjárveitingu eins og ástandið er í mörgum hafna landsins.