18.11.1986
Sameinað þing: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

152. mál, afstaða Íslands til stöðvunar kjarnorkuvígbúnaðar

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Herra forseti. Hinn 11. nóv. s.l. voru greidd atkvæði í afvopnunarnefnd allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um till. þá sem kennd hefur verið við Svíþjóð og Mexíkó. Till. fjallar um tafarlausa stöðvun kjarnorkuvígbúnaðar, en með stöðvun er átt við allsherjarbann við tilraunum með, framleiðslu á og uppsetningu kjarnorkuvopna og- skotbúnaðar sem þeim fylgir.

Að þessi sinni féllu atkvæði þannig að 118 ríki greiddu till. atkvæði sitt, tólf voru á móti en fjögur sátu hjá. Í síðast talda hópnum var Ísland ásamt Kína, Hollandi og Spáni. Meðal þeirra ríkja sem greiddu till. atkvæði voru Svíþjóð, Danmörk, Noregur og Finnland. En þau ríki sem greiddu atkvæði á móti voru fyrst og fremst tíu NATO-ríki, ásamt Japan og Ísrael. Það er því ljóst að meginþorri þjóða heims, og þeim þjóðum fer fjölgandi, vill að framleiðsla kjarnorkuvopna verði stöðvuð þegar í stað.

Örfá ríki en valdamikil eru komin út í horn á veraldarheimilinu þar sem þau ríghalda í þá afstöðu að geta stigið næsta skrefið í vígbúnaðarkapphlaupinu upp úr hafinu, frá landi, út í himingeiminn þar sem hið alsjáandi auga á að taka við með geislum og speglum og „tryggja“ jarðarbúum u.þ.b. 99% öryggi að sögn spámanna stjörnustríðsáætlana. Verst að þetta 1% sem eftir er dugar til að eyða öllu lífi á stórum hluta jarðar og kalla yfir okkur kjarnorkuvetur.

Afstaðan til till. Svíþjóðar, Mexíkó og fleiri ríkja snýst því ekki aðeins um vilja þjóða heims til að stöðva framleiðslu þeirra kjarnorkuvopna sem við nú þekkjum heldur einnig um að stöðva tilraunir með ný vopnakerfi, þar á meðal stjörnustríðsáætlunina umdeildu, og reyna þar með að stöðva hrikalegt vígbúnaðarkapphlaup stórveldanna.

I ljósi atburða þess árs sem nú á skammt eftir í aldanna skaut, kjarnorkuslyssins í Chernobyl, kjarnorkukafbátaslyss suður í höfum, vaxandi mengunar frá kjarnorkuverum og ekki síst fundar þjóðarleiðtoganna í Reykjavík í síðasta mánuði, sem því miður færði heiminum engan áþreifanlegan árangur, verður æ brýnna að taka ákveðna afstöðu og leggja sitt af mörkum til að knýja stórveldin, og þá fyrst og fremst Bandaríkin, til breyttrar afstöðu og raunhæfra aðgerða. Þar geta Íslendingar lagt eitt lóð á vogarskálina. En því miður: íslenska ríkisstjórnin kaus að sitja hjá hinn 11. nóv. og tók enn einu sinni sæti í býsna hæpnum félagsskap í stað þess að fylkja liði með þjóðum Norðurlanda og þorra þjóða heims.

Því leyfi ég mér, herra forseti, á þskj. 162 að spyrja hæstv. utanrrh.: Hvaða rök liggja að baki þeirri ákvörðun íslensku ríkisstjórnarinnar að sitja hjá við afgreiðslu ályktunartillögu Svíþjóðar, Mexíkó og fleiri ríkja, á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 11. nóvember s.l. um stöðvun kjarnorkuvígbúnaðarstórveldanna?