18.11.1986
Sameinað þing: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í B-deild Alþingistíðinda. (815)

Hrun rækjustofnsins í Húnaflóa

Þórður Skúlason:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til að vekja athygli Alþingis og ríkisstjórnar á því sem ég kalla hrun rækjustofnsins í Húnaflóa. Jafnframt vil ég í því sambandi beina nokkrum spurningum til hæstv. sjútvrh.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að í Húnaflóa hafa nú í allmörg ár verið ein gjöfulustu rækjumið við landið. Fimm þéttbýlisstaðir við flóann hafa að verulegu leyti byggt afkomu sína á rækjuveiðum og vinnslu. Venjulega hefjast rækjuveiðarnar í október og standa fram í mars til apríl. Undanfarnar vertíðir hefur aflakvótinn verið 2500-2800 tonn.

Á síðustu vertíð var afbragðsgóð veiði alveg til vertíðarloka, en við rannsókn rækjumiðanna í haust brá hins vegar svo við að nánast ekkert fannst af rækju í flóanum en um meiri þorskgengd var þar að ræða en venja er til. Töluvert fannst þó af smárækju á Miðfirði er síðan var lokað fyrir veiðum. Að öðru leyti var minna af rækju en nokkru sinni fyrr síðan rækjuveiðar hófust í Húnaflóa og virðast veiðarnar síðan ætla að staðfesta það. Niðurstaðan varð þó sú að heimilað var að veiða 500 tonn.

Veiðar hófust mánuði seinna en vant er eða í byrjun nóvember og ef þær ganga eðlilega yrði kvótinn búinn um næstu mánaðamót. 1100 tonn voru hins vegar veidd á haustvertíð á árinu 1985.

Sjómenn telja að því hafi verið lofað að sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar fylgdust náið með veiðunum og ástandi rækjunnar á hinu lokaða svæði í Miðfirði og 500 tonna aflakvótinn endurskoðaður í framhaldi af því. Á þeirri rannsókn hefur ekkert bólað enn þá.

Þær upplýsingar bárust hins vegar frá Hafrannsóknastofnun í gær að engar líkur væru á að aflakvótinn yrði aukinn. Það sætir mikilli furðu meðal heimamanna að slík yfirlýsing skuli gefin án ítarlegrar rannsóknar. Yrði það niðurstaðan að kvótinn yrði ekki aukinn umfram þessi 500 tonn blasir við algert hrun í rækjuveiðum og vinnslu á svæðinu. Því vil ég beina nokkrum spurningum til hæstv. sjútvrh., en þessar spurningar eru allar byggðar á hugmyndum heimamanna um hvernig við þessu ástandi skuli brugðist.

1. Er ráðherra tilbúinn að hlutast til um það að sérfræðingar verði nú þegar sendir til að fylgjast náið með veiðunum og athuga ástand rækju á lokaða svæðinu í Miðfirði?

2. Er hann tilbúinn til að beita sér fyrir því að nú þegar fari einnig fram gagnger rannsókn á þorskstofni í flóanum með tilliti til sem bestrar nýtingar á svæðinu?

3. Er hann tilbúinn að taka til vinsamlegrar athugunar umsóknir útgerðarmanna um botnvörpuveiðar í flóanum til handa rækjuveiðibátunum?

4. Er hann tilbúinn til að auka botnfiskveiðikvóta rækjubátanna sem flestir eru með sóknarmark?