18.11.1986
Sameinað þing: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í B-deild Alþingistíðinda. (816)

Hrun rækjustofnsins í Húnaflóa

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Í októbermánuði fór rannsóknaskipið Dröfn í árlegan rækjuleitarleiðangur innan fjarða. Dagana 11.-15. okt. var Húnaflói kannaður. Niðurstaða þessarar könnunar var sú að ástand rækjustofnsins virðist óvenjulélegt. Þó fannst talsvert af smárækju á Miðfirði og stórri rækju í Ófeigsfjarðarflóa.

Þessi slæmu tíðindi bárust strax til rækjusjómanna og vinnsluaðila við Húnaflóa. Töldu þeir könnunina ófullnægjandi og óskuðu eftir að hún yrði endurtekin. Ráðuneytið beitti sér fyrir því að rannsóknaskipið Dröfn hæfi athuganir að nýju ásamt fimm bátum, einum frá hverri verstöð við Húnaflóa.

Þann 25. og 26. okt. var Húnaflói athugaður að nýju, en skemmst er frá því að segja að ekki fannst meiri rækja en í fyrri athuguninni. Þó varð vart meiri rækju í vestanverðum Hrútafirði en í fyrri athugun. Meiri þorskgengd virðist í Húnaflóa en oftast áður. Niðurstöður leiðangranna benda til að margfalt minna rækjumagn sé í Húnaflóa en undanfarin ár.

Í framhaldi af þessum athugunum lagði Hafrannsóknastofnun til að leyfðar yrðu veiðar á 500 lestum af rækju á Húnaflóa og þar af yrðu veiddar 70 lestir í Ófeigsfjarðarflóa en veiðar bannaðar í Miðfirði vegna smárækju. Að fenginni þessari niðurstöðu héldu starfsmenn ráðuneytisins fund með rækjuveiðimönnum og forráðamönnum rækjuvinnslustöðva við Húnaflóa. Á þessum fundum voru ræddar niðurstöður leiðangranna og hvernig skyldi bregðast við þessum vanda. Helst var rætt um hvort einhverjar aðrar veiðar og aukinn botnfiskkvóti gætu bætt hlut rækjuveiðimanna.

Niðurstöður þessara viðræðna voru í stuttu máli að þar sem veiðar voru hafnar og þessar 500 lestir nægðu til veiða fram eftir hausti væri vandamálið meira næsta ars.

Ráðuneytið lofaði að beita sér fyrir því að miðin yrðu athuguð að nýju. Í framhaldi af þeim athugunum, sem væntanlega geta orðið í næstu viku, a.m.k. í þessum mánuði, lægi væntanlega fyrir betri vitneskja um ástand miðanna. Kæmi ekki í ljós betra ástand yrði að endurskoða botnfiskkvóta bátanna um áramót og fella niður skerðingu með tilliti til minni rækjuafla.

Að því er varðar þorskveiðarnar hefur það komið fram í athugun Hafrannsóknastofnunar að óvenjumikil þorskgengd er í Húnaflóa. Á fundum með ráðuneytinu komu fram spurningar frá rækjuveiðimönnum eins og stundum áður um hvort opna megi sérstök togveiðihólf innan núverandi togveiðimarka. Á slíkum svæðum væri aðeins mögulegt að veiða þorsk en ekki vannýttar tegundir. Þar af leiðandi þyrfti að breyta lögum til að auka veiðiheimildir togbáta á þessu svæði sem lítil eða engin fordæmi eru um eftir því sem ég best veit. M.a. hefur það verið rætt varðandi Ísafjarðardjúp. Ýmislegt mælir þess vegna á móti slíkum heimildum. Vissulega mundi það laga stöðu stærri rækjubátanna sem geta stundað veiðar með fiskitrolli. Aftur á móti er þetta smáfisksslóð og skyndilokunum oft beitt í Reykjafjarðarál sem kunnugt er. Fiskur sem veiddist í rækjuleiðangri rannsóknaskipsins Drafnar var að mestu leyti undirmálsfiskur.

Vænti ég að þetta svari þeim spurningum sem fram voru bornar.