18.11.1986
Sameinað þing: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í B-deild Alþingistíðinda. (819)

Hrun rækjustofnsins í Húnaflóa

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég fagna því að þessi umræða á sér stað þó að hún breyti að sjálfsögðu engu um þær fiskifræðilegu athuganir sem gerðar hafa verið og blasa við varðandi rækjuna. Ég hygg að það sé mjög tímabært að fram fari úttekt á því á Húnaflóanum hvaða skelfisktegundir aðrar megi nýta en þar eru nýttar nú. Ég tel að auðvitað sé sjálfsagt að farið verði í að athuga um auknar heimildir hjá þeim skipum sem nú fá ekki það sem gert var ráð fyrir að menn fengju varðandi rækjuna. En hitt hlýtur að vera ekki síður atriði að nú þegar verði gerð allsherjar úttekt á því hvaða möguleikar eru til að nýta aðra skelfiskstofna í Húnaflóa. Satt best að segja er það eitt af því sem Íslendingar hafa farið ákaflega rólega út í að mínu viti, þ.e. að kanna þá möguleika sem eru í nýtingu á skelfiski. Við höfum haldið okkur þar við fáar tegundir, en möguleikarnir eru að mínu viti miklu meiri.