18.11.1986
Sameinað þing: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (821)

Hrun rækjustofnsins í Húnaflóa

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Málshefjandi þessarar umræðu hreyfir hér miklu og alvarlegu máli fyrir sitt byggðarlag og byggðirnar við Húnaflóa. Ég þakka honum fyrir að gera það.

Eins og hér hefur verið vakið máls á geta áföll sem þessi snert fleiri því að líklegt er að hér sé um að ræða breytingar í lífkeðju hafsins sem taki til stærri svæða. Ég ætla ekki að ræða það hér frekar, herra forseti, en ég vísa til þess að ég ásamt öðrum þm. Alþb. hef lagt fyrir beiðni um skýrslu til sjútvrh. m.a. vegna rækjuveiða og þar á meðal um það hvaða ákvarðanir og áætlanir liggi fyrir varðandi fjárfestingu í þessum þáttum og mat á veiðiþoli rækjustofna á Íslandsmiðum og væntanlega ræðum við þau mál hér síðar.

Ég vil einnig vegna þess sem hér hefur komið fram í umræðunum vekja athygli á till. til þál., sem vísað hefur verið til atvmn. Sþ., um rannsóknir á botnlægum tegundum á grunnsævi. Þar er vakin athygli á því nauðsynjamáli að það fari fram skipulegar rannsóknir á grunnsævi við landið, á hagnýtingarmöguleikum ýmissa stofna sem bæði eru nú þegar nýttir en einnig á stofnum sem ekkert hafa verið nýttir eða sáralítið til þessa. Vandinn er m.a. að búa svo sem þarf af fiskveiðiþjóð að hafrannsóknum. Og við tökum eftir því hversu litlu fjármagni er varið til þessara má?a, allsendis ónógu. Fiskiþing hefur einmitt rætt þau mál í gær að ég hygg þar sem þingfulltrúar hafa lýst áhyggjum sínum yfir mjög knöppum og ónógum fjárveitingum til hafrannsókna.