18.11.1986
Sameinað þing: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 956 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

Hrun rækjustofnsins í Húnaflóa

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Það er þörf umræða sem hér hefur verið hafin, umræða um hvað blasir við í sambandi við rækjuveiðar, og ég tek undir það, sem hv. 6. landsk. þm. nefndi áðan, að að sjálfsögðu er þetta ekki staðbundið við Húnaflóa þó að vandamálin séu þar kannske skýrust í dag.

Það hefur komið í ljós í sambandi við umræður á fiskiþingi að nú eru tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar á þann veg að takmarka veiðar úr úthafsrækjustofninum, þær verði ekki á næsta ári meiri en þær verða í ár. Það eru upplýsingar um að það eru ákveðin svæði úthafsrækjunnar sem munu vera þegar fullnýtt. Þar er nefnt rækjuveiðisvæði norðanlands sem var í sumar allmikið stærra en áður hefur verið. Sumir þakka það fyrst og fremst því að hafísinn náði yfir ákveðna veiðislóð og ýtti flotanum austur eftir og sótti hann þar inn á ný rækjumið, en hvernig sem á því hefur staðið er það mat fiskifræðinga að þetta svæði sé þegar fullnýtt. Einnig er talað um að Héraðsdjúp og Kolluáll séu fullnýtt veiðisvæði.

Þetta er alvarlegt mál, en það er samt von hjá mörgum að það séu enn til ókönnuð svæði. Ég hef áhuga fyrir því í sambandi við þessa umræðu að spyrja hæstv. sjútvrh. um hvort ekki sé möguleiki til þess að kanna frekar og betur svæðin út af Breiðafirði. Rækjuveiðimenn við Breiðafjörð halda því fram að svæðið út af Breiðafirði sé ekki nærri því nógu vel rannsakað og hafa jafnvel haft uppi þau orð að það þyrfti að koma hafís yfir þau veiðisvæði sem eru nú stunduð til þess að það yrði farið að kanna frekar þau svæði út af Breiðafirði sem líkur eru fyrir að rækja geti verið á. Þegar að þessum mörkum er komið, að það skuli þurfa að takmarka sóknina, er mjög nauðsynlegt að öll þau svæði sem sjómenn telja að séu nýtanleg sem veiðisvæði séu frekar rannsökuð.

Í tengslum við þetta kemur vitaskuld upp sú umræða sem var hafin á fiskiþingi um að framlag til Hafrannsóknastofnunar sé svo skert að hún geti ekki sinnt því hlutverki að kanna þessa veiðislóð eða aðrar. Þegar það gerist í þjóðfélagi eins og okkar að stofnun eins og Hafrannsóknastofnun er meira skorin niður en önnur hliðstæð fyrirtæki í þjóðfélaginu, þá hljótum við að mótmæla því og ekki síst við þær aðstæður sem nú eru varðandi rækjustofninn.