18.11.1986
Sameinað þing: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í B-deild Alþingistíðinda. (831)

21. mál, áhrif markaðshyggju

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég sé mikla ástæðu til að taka undir þann tillöguflutning sem hér á sér stað. Ég hefði að vísu viljað kalla þetta till. til þál. um rannsókn á áhrifum óheftrar markaðshyggju. Markaðshyggja er í eðli sínu ekki slæm en þegar hún verður óheft verður hún alvarleg og hún verður hættuleg hverju þjóðfélagi þar sem hún er tekin upp.

Ég hef gagnrýnt mjög harkalega þá óheftu markaðshyggju sem hefur átt sér stað undir stjórn núverandi stjórnarflokka og hefur verið nefnd öðru nafni „nýfrjálshyggja“. Þessi nýfrjálshyggja hefur tröllriðið ýmsum þjóðum Vesturlanda á undanförnum árum og áratugum og með skelfilegum afleiðingum víða. Við skulum líta til Bretlands og athuga hvernig nýfrjálshyggja frú Thatcher hefur leikið þá þjóð á undanförnum árum. Sannleikurinn er sá að nýfrjálshyggjupostular Sjálfstfl. hafa komið ár sinni svo rækilega fyrir borð í þessu þjóðfélagi að það er hreint með ólíkindum. Ég held að það hljóti að vera sárt fyrir þá sem ég oft kalla hefðbundna sjálfstæðismenn að horfa upp á þessa ungu nýfrjálshyggjupostula Sjálfstfl. æða fram, ná tökum á efnahagslífinu, eins og þeir hafa gert á undanförnum árum, og breyta þessari þjóð, eins og fyrri ræðumaður talaði um, í þjóð sem í góðæri verður vitni að því að hjá henni verður stórfelldur landflótti.

Það vildi svo til að ég reiknaði með annarri utandagskrárumræðu í dag um vanda íslenskra húsbyggjenda. Ég gerði það þess vegna að gamni mínu og til upplýsingar fyrir þingheim að taka saman fjölda nauðungaruppboða, sem hafa átt sér stað hjá borgarfógetaembættinu í Reykjavík á þessu ári, og bera saman síðustu árin. Þá kemur í ljós að það sem af er þessu ári eru nauðungaruppboð á eignum í Reykjavík, íbúðarhúsnæði fólks, 43 það sem af er árinu og árið er ekki liðið. (Gripið fram í: Út október.) Út október. Árið 1985 voru 28 eignir seldar á nauðungaruppboðum og er þá átt við íbúðarhúsnæði. Árið 1984 er talan 13. Árið 1983 er talan 6. Árið 1982 7. Árið 1981 6. Það hefur verið látlaus stígandi í nauðungaruppboðum á þessum árum og menn geta getið sér til um hvers vegna.

Fjármagnstilfærslan, sem hefur átt sér stað í þessu þjóðfélagi frá launafólkinu til fjármagnseigenda, er með slíkum ólíkindum að menn hafa talað um að hér í landinu lifi nú tvær þjóðir og að hér hafi því miður átt sér stað stéttaskipting í efnalegu tilliti - í því þjóðfélagi sem hefur státað af því undanfarna áratugi að vera stéttlaust!

Ég spurðist líka fyrir um gjaldþrotaskipti og þar verða tölurnar enn þá skelfilegri. Skiptaráðandinn í Reykjavík hefur fengið fram til 17. þ.m., til dagsins í dag, samtals 797 beiðnir um gjaldþrotaskipti. Hann reiknar með því að þessar beiðnir verði um eða yfir 1000 á þessu ári.

Við skulum aðeins líta aftur í tímann. Árið 1985, allt árið, voru þær 762. 1984 voru þær 527. 1983 dettur talan niður í 246. 1982 210 og 1981 195. Miðað við að beiðnirnar verði 1000 á þessu ári hafa þær fimmfaldast frá árinu 1982, beiðnir um gjaldþrotaskipti. Þetta segir mér í raun og veru miklu meiri sögu en flest annað sem er að gerast í kringum okkur í dag um það hvernig hið eiginlega ástand er. Þetta segir mér þá sögu fyrst og fremst að almenningur í þessu landi, launafólkið, fólkið sem er að berjast fyrir því að halda íbúðarhúsnæðinu sínu, sé orðið svo hart keyrt að við vitum ekki hálfan sannleikann í því máli.

Það er af þessum ástæðum og mörgum, mörgum öðrum að ég tek eindregið undir þessa tillögu. Það er vegna þess að ég tel að hér hafi verið gerð þvílík atlaga að velferðarkerfi sem hefur tekið verkalýðshreyfingu og alþýðu þessa lands áratugi að byggja upp að annað eins hafi ekki gerst frá því að ég fór að fylgjast með pólitík fyrir u.þ.b. 30 árum.

Ég vil minna á hvað er að gerast í heilbrigðiskerfinu. Hvað er að gerast á barnadeild Landspítalans þar sem foreldrar verða að fara heim með börn sín á kvöldin vegna þess að það er ekki til fólk til að fylgjast með þeim á næturnar? Það fæst ekki. Launin eru svo lág. Þar standa sjúkrarúmin auð vegna þess að læknar eru ekki nægilega margir til þess að fylgjast með og hjúkrunarfólkið ekki heldur.

Eigum við að líta á öldrunarmálin, hvernig er staðan þar? Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar er með 1100 manns á biðlista um aðstoð af ýmsu tagi.

Eigum við að hyggja dálítið að menntakerfinu og athuga hvernig hefur verið ráðist á það? Ég hjó eftir því í ræðu hæstv. fjmrh., formanns Sjálfstfl., á flokksráðsfundi Sjálfstfl. á dögunum að hann talaði um og taldi það flokki sínum og ríkisstjórninni til ágætis að það hefði verið aukið dálítið fjármagnið í Kvikmyndasjóð. Það var þáttur í eflingu menningar á Íslandi. Ég get tekið undir það. Það var þáttur í eflingu menningar á Íslandi, enda skrifuðu nokkrir af helstu kvikmyndaframleiðendum landsins upp á beiðni til kjósenda Sjálfstfl. að styðja aðstoðarfjármálaráðherrann í prófkjöri í Reykjavík.

Annað sem hefur gerst á menningarsviði kem ég ekki auga á nema að það væri um að ræða frjálst útvarp sem hæstv. fjmrh. og formaður Sjálfstfl. státaði af.

Þetta eru nokkur dæmi um hvernig komið er fyrir okkur undir þessari ríkisstjórn. Þessi ríkisstjórn státar jafnframt af því að hafa gert þessa hluti nokkurn veginn fyrir sína eigin peninga að manni skilst, þ.e. að ástandið hafi verið bætt fyrir tilverknað ríkisstjórnarinnar. En það er allt annað sem hefur gerst. Það eru náttúruöflin sem hafa gripið í taumana plús verkalýðshreyfingin sem tók völdin af stjórninni við gerð síðustu kjarasamninga. En þessari ríkisstjórn hefur tekist að ráðast meir og betur gegn íslensku velferðarkerfi en nokkurri annarri ríkisstjórn sem ég man eftir.

Það er hægt að styðja þetta mörgum, mörgum fleiri rökum og það er í rauninni skelfilegt að í jafnlitlu landi, þar sem samhjálp, samhygð, félagshyggja þarf að vera jafnsterk og hér til þess að við komumst af, að hin óhefta markaðshyggja skuli fá að brjóta niður það velferðarkerfi, það velferðarsamfélag sem við höfum búið til, í eins ríkum mæli og núverandi ríkisstjórn hefur gert. Þessi ríkisstjórn þarf að fara frá.

Herra forseti. Ég styð eindregið þessa till.