18.11.1986
Sameinað þing: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 971 í B-deild Alþingistíðinda. (833)

21. mál, áhrif markaðshyggju

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka þær undirtektir sem þessi till. hefur fengið hjá hv. þm. Árna Gunnarssyni og hv. 4. þm. Reykv. Jóni Magnússyni, en ábendingar hans voru góðra gjalda verðar og eru í raun og veru til marks um að það er nauðsynlegt að þetta mál sé skoðað betur eins og hér er gerð tillaga um, að rannsóknir fari fram á áhrifum markaðshyggjunnar, eða óheftrar markaðshyggju ef menn vilja orða það þannig frekar, m.a. með því að fara yfir ástæður nauðungaruppboða og gjaldþrotabeiðna eins og þetta tvennt hefur þróast á undanförnum árum. Ég hygg að það sé hárrétt, sem hv. þm. Jón Magnússon sagði, að þetta þarfnast nákvæmari könnunar, en til þess er einmitt till. flutt þannig að það voru bersýnilega mistök að bjóða ekki einhverjum þm. Sjálfstfl. að flytja till. með mér.

Það er hins vegar rétt, sem hv. þm. Jón Magnússon segir, að þær fjárskuldbindingar sem valda nauðungaruppboðum eru yfirleitt tveggja ára gamlar a.m.k. eða svo, en kaupið sem fólk á að borga með nauðungaruppboðin og kröfurnar er yfirleitt ekki tveggja ára gamalt. Það er svona mánaðar gamalt eða svo. Og kaupið lækkaði. Þegar kaupið lækkar og vextirnir hækka er auðvitað erfiðara að borga en áður.

Um þessi mál og þróun þeirra eru til margar óyggjandi tölur, tölur sem þarf ekkert að deila um og tölur sem þarf ekki að velta fyrir sér af hverju hafa hlotist. Gleggsta heimild sem ég sé um þessi efni eru árlegar skýrslur Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar. Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar gefur út árlega skýrslur um fjölda þess fólks sem leitar til stofnunarinnar og samkvæmt þeim tölum sem komu fram í skýrslu Félagsmálastofnunar fyrir árið 1985 fjölgaði þeim sem leituðu til Félagsmálastofnunar og fengu þar fyrirgreiðslu úr um 1800 manns árið 1982 upp í 2240 manns árið 1985, fjölgaði sem sagt um 400 á þessum tíma því fólki sem leitar ekki til Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar nema til þrauta-, þrauta-, þrautavara. Á vegum þess fólks sem leitaði til Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar, en þið vitið hvaða upphæðir það eru sem skjólstæðingar Félagsmálastofnunar fá á mánuði, hv. þingheimur veit kannske að það eru innan við 15 þús. kr. á mánuði, - á vegum þessa fólks voru 1998 börn á árinu 1985. Ætli þurfi nokkuð frekari vitna við um það á hverju og hverjum þessi stefna er að bitna um þessar mundir? Það eru líka börn. 2000 börn eru á vegum einstaklinga sem leita til Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar.

Það er einnig fróðlegt í þessu sambandi, vegna þess að það eru engar tæknilegar tölur sem lög eða reglugerðir hafa haft áhrif á með svipuðum hætti og tölurnar um gjaldþrotin, að skoða tölurnar um málefni aldraðra í Reykjavík sem hafa t.d. birst í Alþýðublaðinu að undanförnu, ákaflega sláandi tölur. Það segir í Alþýðublaðinu 28. okt. s.l. að það eru 1100 Reykvíkingar á biðlista eftir plássum fyrir aldraða, 1100 manns. Þar af eru 300 sem sérfræðingar og starfslið borgarinnar kalla bráðatilfelli. 300 aldraðir! Samt er það þannig að dregið hefur verið verulega úr framkvæmdum í þágu aldraðra. B-álma Borgarspítalans hreyfist varla. Þetta eru afleiðingarnar af þeirri stefnu sem fylgt hefur verið. Það er rétt, sem hv. þm. Jón Magnússon sagði, að það þarf auðvitað að draga úr því með einhverjum ráðum að þessi stefna nái fram að ganga. Besta leiðin í þeim efnum er auðvitað að Sjálfstfl. fái sem minnst fylgi.

Þessi tvö dæmi, um nærri 2000 börn og gamla fólkið, 300 á biðlista, segja sína sögu. Aðeins þetta fólk, sem hér er talað um, annars vegar börnin um 2000, hins vegar skjólstæðingarnir um 2000, síðan aldraðir á biðlistum um 1100, samtals gerir þetta 5500 manns í þessu byggðarlagi. Þetta er álíka fjöldi og í heilum kjördæmum utan Reykjavíkur. Þetta fólk týnist kannske í manngrúanum hér í Reykjavík og það er sjaldan sem talað er fyrir þetta fólk af nægilegum krafti. Og það er sjaldan sem menn fást til að gefa sig að því verkefni, sem okkur ætti að vera skyldast af öllu, að sjá um að þetta fólk geti allt haldið sjálfsvirðingu sinni og staðið upprétt því að um það snýst það starf, ef við viljum taka mark á því, sem við erum hér á hv. Alþingi að reyna að vinna.

Ég held að þær umræður sem hér hafa farið fram hljóti að leiða menn í allan sannleika um að hér er þarft mál á ferðinni. Ég þakka undirtektir hv. þm. og vænti þess og vona að undirtektir hv. þingnefndar verði jafngóðar og hér hafa birst í dag.