18.11.1986
Sameinað þing: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

90. mál, umhverfismál og náttúruvernd

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál., sem er á þskj. 90, um úrbætur í umhverfismálum og náttúruvernd, en flm. með mér eru fjórir hv. þm. Alþb. Þessi till. er í tíu liðum og gerir ráð fyrir að ríkisstjórninni verði falið að undirbúa og framkvæma tiltekin atriði til úrbóta í umhverfismálum og náttúruvernd.

Tillaga þessi hefur verið flutt áður á hv. Alþingi og raunar tvívegis, en ekki náð lengra en til nefndar. Það er hins vegar ástæða til að flytja þetta mál enn einu sinni á þinginu því að hafi verið þörf á því fyrir tveimur árum er hún í raun mun brýnni í dag vegna þess aðgerðarleysis sem ríkt hefur í þessum málaflokki í tíð núv. ríkisstjórnar og er satt að segja hörmulegt. Ég rökstyð þetta með því að minna á helstu áherslur í þessari till.

Í 1. tölul. till. er gert ráð fyrir að í sambandi við endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands verði yfirstjórn helstu málaflokka á sviði umhverfisverndar sameinuð í einu ráðuneyti ekki síðar en í árslok 1987, en þess verði jafnframt gætt að fela heimaaðilum sem flest verkefni á sviði umhverfis- og skipulagsmála.

Þessu máli, sem fyrst var hreyft á náttúruverndarþingi fyrir 14 árum, 1972 og margoft hefur verið ítrekað í ræðu og riti og ályktunum hefur ekkert þokað áfram í reynd. Hér var flutt á síðasta Alþingi sérstakt frv. af hálfu ríkisstjórnarinnar um Stjórnarráð Íslands, en þar var ekki tekið í neinu á umhverfismálunum í sambandi við það rýra frv. sem dagaði uppi í nefnd, enda flestir þm. sem tjáðu sig um málið sammála um að afgreiðsla þess breytti litlu sem engu og skipti þannig ekki máli, enda hefur ríkisstjórnin ekki séð ástæðu til að endurflytja frv. á yfirstandandi þingi enn sem komið er a.m.k.

Í öðru lagi er í tillögunni gert ráð fyrir því að undirbúin verði löggjöf um umhverfismál sem sérstaklega taki til mengunarvarna á landi, í sjó og í lofti og gerð framkvæmdaáætlun um að draga úr mengun frá frárennsli og verksmiðjum, einnig að Ísland gerist aðili að alþjóðasamningum til varnar mengun og tryggðar verði aðgerðir og eftirlit í samræmi við þá. Einnig hér er um að ræða þátt sem margoft hefur verið ræddur hér á Alþingi og ítrekað hafa komið fram yfirlýsingar um að úr þessu skuli bætt af hálfu stjórnvalda og slík löggjöf verði undirbúin og færð inn í þingið. Mér skilst að það sé hæstv. félmrh. sem af hálfu ríkisstjórnarinnar hafi tekið að sér að vinna að þessum málum og hann hefur verið spurður trekk í trekk eftir því hvað liði undirbúningi þessa máls og það hefur alltaf verið að koma. Það eru tvö ár frá því að mál þetta var að koma inn í þingið, en það bólar ekkert á því enn, enda hef ég oft orðað það svo að almanakið hjá hæstv. félmrh. er mjög sérkennilegt og tímaskynið.

Varðandi alþjóðasamninga til varnar mengun vísa ég sérstaklega til fskj., sem er eitt af nokkrum sem fylgja þessari till., sem er lokafréttatilkynning eða ályktun frá alþjóðlegri ráðstefnu Norðurlandaráðs um loftmengun yfir landamæri frá 8.-10. sept. 1986. Það er fskj. XV með þessari till. Þar eru tilteknir og nánar í grg. nefndir þeir þættir sem hafa verið undirbúnir og þar sem alþjóðasamningar liggja fyrir, en Ísland hefur ekki tekið á þeim málum og ekki gerst aðili að þeim alþjóðasamningum, m.a. á sviði mengunarmála varðandi brennisteinsútstreymi. Í tengslum við þennan lið hljótum við að minna á stöðuna í sambandi við kjarnorkumálin og aðstöðu Geislavarna ríkisins til að fylgjast með kjarnorkumengun og geislun. Á það mál var auðvitað minnt með mjög óþyrmilegum hætti í tengslum við Chernobyl-slysið í Úkraínu s.l. vor. Hér hefur verið látið fylgja með þessari till. erindi frá Geislavörnum ríkisins sem sýnir í hversu slæmri stöðu sú stofnun er til að sinna nauðsynlegu eftirlitshlutverki í sambandi við geislamælingar, hvað þá í sambandi við viðbúnað varðandi óhöpp eða slys af þessu tagi.

Í þriðja lið tillögunnar er minnt á nauðsyn endurskoðunar laga nr. 109 frá 1984, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, en í þeim lögum, sem samþykkt voru hér á Alþingi á sínum tíma, er einmitt sérstakt ákvæði sem kveður a um að það verði reynt að samræma meðferð þessara mála milli ráðuneyta og lögin endurskoðuð með tilliti til þess innan þriggja ára frá samþykkt þeirra.

Í fjórða lagi er lögð áhersla á að fyrir yfirstandandi þing komi frv. til nýrra laga um náttúruvernd sem undirbúið hefur verið á vegum Náttúruverndarráðs og stjórnvalda. Saga þessa máls er ekki síður sérkennileg en margt annað sem kemur fram í þessari tillögu.

Í tíð fyrrv. ríkisstjórnar var undirbúin í samvinnu við Náttúruverndarráð ný löggjöf um náttúruvernd og um hana var fjallað á náttúruverndarþingi 1978 fyrst, síðan 1981 og enn 1984. Það er fyrst á seinni hluta þings 1984-1985 að þáv. hæstv. menntmrh. Ragnhildur Helgadóttir leggur fyrir þingið þetta frv. til laga sem verið hafði í burðarliðnum þetta lengi og lá í rauninni tilbúið þegar núv. ríkisstjórn var sett á stóla. En þetta frv. fór ekki lengra en til nefndar þetta vor og síðan hefur ekkert á því bólað. Síðan hefur málið legið afvelta hjá ríkisstjórninni og ekkert af því frést. Nú er kominn annar maður í stól menntmrh. Hann átti á sínum tíma, sá hæstv. ráðherra, sæti á stól iðnrh. og stóð þá í nokkuð sérkennilegum útistöðum við Náttúruverndarráð. Hann hefði átt þess kost með því að flytja hér inn nýja löggjöf, sem Náttúruverndarráð hefur undirbúið og ýmsir fleiri komið að því máh, að bæta ráð sitt með því að koma með þetta frv. inn í þingið. Það er einmitt hvatt til þess að það verði gert skv. 4. tölul. þessarar till.

Í 5. tölul. till. er lögð áhersla á að gripið verði til samræmdra aðgerða til verndar gróðri með friðun og hóflegri nýtingu, m.a. í tengslum við breytta búskaparhætti og stjórnun og eftirlit í þessu skyni verði bætt, einnig minnt á nýja landgræðsluáætlun, sem nú á að vera í mótun, að hún verði mótuð með hliðsjón af slíku endurmati og nýjum viðhorfum í þessum málum.

Ég hlýt, herra forseti, að minna á nauðsynina á að í sambandi við búháttabreytingar, sem æskilegar geta talist að vissu marki, verði einmitt tekið tillit til ástands gróðurlenda með allt óðrum hætti en gert hefur verið, því að það hefur nánast ekki verið gert. Þess hefur ekki gætt í stjórnun landbúnaðarmálanna. Ég ætla ekki að ræða það hér frekar undir þessum dagskrárlið, en þar er sannarlega úrbóta þörf.

Í sjötta lagi er vikið að nauðsyn rannsókna a dýrastofnum á landi og sjó við Ísland. Þar höfum við flm. í huga hafrannsóknirnar og fiskistofnana alveg sérstaklega. Það hefur verið rætt á þessum fundi, herra forseti, um það mál, reyndar utan dagskrár, nauðsyn þess, en einnig er þarna um að ræða aðra dýrastofna á landi og í sjó sem mjög hafa verið umtalaðir og mikið deilt um stjórnun þeirra mála. Þar eru t.d. hvalirnir, þar eru selastofnarnir, þar er hreindýrastofninn og svo má telja upp marga stofna þar sem ófullnægjandi rannsóknir liggja fyrir og öll stjórn mála er handahófskennd svo að ekki sé meira sagt.

Í sjöunda lagi er vikið að skipulagsmálunum þar sem brýn nauðsyn er lagabóta með langtímasjónarmið í huga og að þeim aðilum sem eiga að fjalla um þessi mál verði gert kleift að taka á þeim með eðlilegum hætti, t.d. með því að grunnþáttur eins og gerð korta yfir landið og einstaka þætti verði gerð möguleg, gerð slíkra undirstöðugagna, þannig að hægt sé að koma við nútímalegum vinnuaðferðum.

Þetta minnir á þá skýrslu sem er uppskera af starfi svokallaðrar landnýtingarnefndar, skýrslu sem kom út að ég hygg fyrri hluta síðasta sumars og talsvert mikil umræða varð um. Þar var aðeins um að ræða forsendur fyrir landnýtingaráætlun. Það hefur,ekkert frést um hvernig stjórnvöld hyggjast taka á því máli framhaldandi þannig að áherslur Alþingis í þáltill. varðandi landnýtingarskipulag nái fram að ganga.

Í áttunda lagi er vikið að áætlun um verndun vatnsfalla, jarðhitasvæða, fossa og hvera, slíkra náttúruverðmæta, og nauðsynina á að það verði undirbúin af hálfu Náttúruverndarráðs í samráði m.a. við yfirvöld orkumála slík áætlun sem lögð verði fyrir Alþingi til kynningar og staðfestingar. Þetta tengist m.a. nýtingu orkulindanna og að röðun framkvæmda á því sviði sem öðrum taki eðlilegt tillit til umhverfissjónarmiða og náttúruverndar.

Í níunda lagi er hér áhersla á mótun opinberrar stefnu í ferðamálum sem tæki tillit til verndar náttúru landsins og breyttra samgönguhátta og til mjög aukins ferðamannastraums. Á þetta hefur verið minnt undanfarin ár. Þarna ríkir í senn skipulagsleysi og fjárhagslegt svelti þeirra aðila sem eiga lögum samkvæmt að fjalla um þessi mál. Þar er Náttúruverndarráð vissulega einn aðilinn en Ferðamálaráð Íslands ekki síður, en þannig hattar að lög um Ferðamálaráð hafa í rauninni aldrei náð fram að ganga, þ.e. ákvæði þeirra sem varða tekjur Ferðamálaráðs til að sinna lögbundnum verkefnum.

Í tíunda lagi er fjallað um fræðslu um íslenska náttúru, umhverfisvernd og auðlindir landsins sem fyrirbyggjandi þátt og einn hinn þýðingarmesta á þessu málasviði og gert ráð fyrir að á því verði tekið með allt öðrum hætti en gert hefur verið til þessa og þeim aðilum sem var ættað að sinna slíkri fræðslu verði gert það kleift.

Niðurstaða till., herra forseti, er sú að ríkisstjórnin láti gera framkvæmda- og kostnaðaráætlun til næstu tíu ára um æskilegar úrbætur samkvæmt þeim þáttum sem hér liggja fyrir og taki auðvitað á þeim verkum sem liggja sumpart fyrir í skrifborðsskúffum ráðherranna, ég á ekki von á að þau liggi ofan á borðinu hjá þeim, það hefur a.m.k. ekki orðið vart við að þau bærust inn á Alþingi að undanförnu, þannig að eitthvað hreyfist á þessu geysilega þýðingarmikla sviði.

Ég vil svo áður en ég lýk máli mínu, herra forseti, vísa til greinargerðar og fylgigagna með þessari till. þar sem reynt hefur verið að draga upp stöðu þessara mála þannig að það geti verið öllum hv. þm. ljóst og þingnefnd, hv. allshn., sem ég legg til að enn fái þetta mál til meðferðar, hver er staðan á þessu sviði. Einnig hafa verið prentaðar í þessu þskj. umsagnir þeirra aðila sem veitt hafa umsagnir um málið á síðustu tveimur þingum. Ég vek athygli hv. þm. og sérstaklega þeirrar nefndar sem fær þetta mál til meðferðar á jákvæðum undirtektum, nánast undantekningarlaust, allra þeirra mörgu sem hafa sinnt kvaðningu hv. menntmn. og beðnir voru um álit á þessu máli. Það er mjög mikil áhersla lögð á það af mörgum þessum umsagnaraðilum, eins og hv. þm. geta kynnt sér, að till. fái jákvæða meðferð í þinginu og á þessum málum verði tekið.

Ég hef í blaðagreinum m.a. vakið athygli á því hvernig staða þessara mála er og hver hlutur hæstv. ríkisstjórnar er í þessu máli. Það er alveg brýnt, herra forseti, að þingið taki á þessu þar sem það er borin von að ríkisstjórnin, sem á ekki langt eftir ólifað, taki á þessum málum eins og ættast var til og eins og ástæða var til að ætla ef tekið var mark á orðum, yfirlýsingum og loforðum ráðherranna svo að ekki sé minnst á samþykktir stjórnmálaflokkanna sem að ríkisstjórninni standa, alveg sérstaklega Framsfl. sem hefur þóst leggja sérstaka áherslu á þennan málaflokk, en það er óhætt að segja að sá áhugi endurspeglast ekki í meðferð mála í hæstv. ríkisstjórn né heldur í tillöguflutningi framsóknarmanna hér á Alþingi, og vil ég þó ekki endilega taka þá sérstaklega út úr því að hlutur hins stjórnarflokksins er auðvitað ekki heldur góður í þessum málum.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.