18.11.1986
Sameinað þing: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (850)

154. mál, afnám einokunar ríkisins á innflutningi áfengis

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að vera margorður um till. sem hér liggur fyrir til umræðu, en ég tel vera fyllstu ástæðu til að kanna rækilega efni hennar og tel reyndar að hæstv. fjmrh. eigi að gera það sem allra fyrst. Það er auðvitað hægt að spyrja að því, eins og reyndar kom fram í máli hv. 10. þm. Reykv., hvort þetta sé hægt. Ég held að svarið hljóti að liggja í því, sem hefur gerst víða annars staðar, að það er farið öðruvísi með verslun á áfengi en gerist hér á landi og hægt að ná meiri fjármunum út úr þessari verslun en hingað til hefur tekist. En eins og allir vita er litið á áfengisverslun sem hluta af skattheimtu ríkisins. Auðvitað þarf eftirlit að vera til staðar, eins og kom réttilega fram hjá hv. flm., en það er annað sem við þurfum að gæta að. Það er að á undanförnum árum hefur það gerst í atkvæðagreiðslum hjá vissum sveitarfélögum að samþykkt hefur verið að leyfa opnun á áfengisútsölum, en síðan gerist það að fjmrn. treystir sér ekki til að standa að opnun nema kannske einnar verslunar og menn bíða eftir þessari þjónustu sem ríkið býður upp á. Með því að breyta fyrirkomulaginu þyrfti ríkisvaldið ekki að leggja fjármuni í verulegar fjárfestingar og hefði heldur ekki þau áhrif sem ríkið hefur í dag á hvar heppilegast er að versla bæði hér í borg og annars staðar. Nýlegt dæmi um ágreining, sem hefur komið upp, er að Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis hefur gert kröfu til þess að áfengisútsala verði sett sem fyrst niður í Mjóddinni þar sem kaupfélagið nýlega keypti verslun af einkafyrirtæki. Þetta er dæmi um hvernig opinber aðgerð getur haft áhrif á stöðu og gengi almennra verslana í bænum, svo að ég taki Reykjavík sem dæmi, og hefur auðvitað óheppileg áhrif.

Að mínu áliti kæmi fremur til greina að það yrðu opnaðar sérverslanir með áfengi. Það er þægilegra að hafa eftirlit með slíkum verslunum og ugglaust einnig þægilegra fyrir þá sem telja, með rétti að mínu viti, að það verði a.m.k. að fara hægt í sakirnar og það sé ekki ástæða til þess í einu vetfangi að færa verslun með áfengi, sem er bölvaldur eins og við þekkjum, inn í hvaða verslun sem er í landinu. Það er að vísu gert víða, þar á meðal í okkar nágrannalöndum, en ég er hræddur um að hér verði að fara hægar í sakirnar.

Að öllu samanlögðu tel ég að það sé lofsvert að fá þessa till. hér fram og mér finnst fyllsta ástæða til þess að hæstv. fjmrh. láti kanna þetta mál á grundvelli till. sem hér liggur fyrir og hvet til þess að hv. allshn. láti þá athugun fara fram og óski eftir upplýsingum frá fjmrn. um þetta mál þegar hún tekur þetta mál til meðferðar í nefndarstörfum sínum.