18.11.1986
Sameinað þing: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í B-deild Alþingistíðinda. (854)

154. mál, afnám einokunar ríkisins á innflutningi áfengis

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að færa hv. 2. þm. Reykv. þakkir fyrir gætilega umræðu um þessi mál. Ég tel það eftir atvikum nokkuð vel ráðið að þessari till. verði vísað til allshn. og mun að sjálfsögðu vinna að því að það verði fjallað um hana með eðlilegum hætti.

Ég get tekið undir það með grg. að það eru sérstæð vinnubrögð að fara út í útsölu á áfengi eins og gert hefur verið. Vissulega er umhugsunarefni hvernig ríkið eigi að komast hjá því að bera kostnaðinn af birgðahaldi við áfengi í Áfengisverslun ríkisins. Það er hugsanlegt í því sambandi að ríkið taki upp þá reglu að selja áfengið í umboðssölu, eins og venjulegur bóksali gerir. Þá yrðu þeir aðilar sem í dag hafa umboðslaunin á hreinu að vera eigendur birgðanna í öruggri vörslu ríkisins undir þeim kringumstæðum. Mér sýnist að það væri ekki óeðlilegt.

Sú hugmynd sem hér er sett fram er að sjálfsögðu hlutur sem ber að skoða án sérstakra fordóma í þeim efnum. En ég játa að í mínum huga eru vissir hlutir e.t.v. í meiri hættu ef þetta yrði gert. Það er m.a. hvort það takist að koma í veg fyrir að aðilar undir lögaldri keyptu áfengi. Við vitum að það á sér stað að þeir gera það í dag með því að fá aðra til að fara inn í verslunina fyrir sig og kaupa áfengið og taka svo við því fyrir utan dyrnar. Spurningin er hvort það yrði auðveldara hjá þeim sem vildu ná sér í áfengi undir lögaldri að ná í það ef þetta yrði tekið upp. Þetta er ein af þeim spurningum sem mundu vakna.

Vissulega er ég sammála því sjónarmiði, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Reykv., að stærsta málið í þessu með áfengið er spurningin um verðlagninguna á því. En því hefur einnig verið haldið fram að fjöldi útsölustaða hafi þar einhver áhrif.

Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri, en að sjálfsögðu er hér hreyft mjög stóru máli í skipulagi þessara mála.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.