19.11.1986
Efri deild: 13. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (856)

141. mál, kosningar til Alþingis

Skúli Alexandersson (frh.):

Virðulegi forseti. Ætli sé ekki rétt hjá mér að byrja á því að leiðrétta smámissögn í Alþýðublaðinu? Það er kannske ekki nema eðlilegt að þar komi einhverjar missagnir vegna þess að annir ritstjórans eru miklar, sjálfsagt - en frétt um málið sem við erum að ræða er á fyrstu síðu Alþýðublaðsins. Þar segir í fyrsta lagi að ég hafi lýst mig alveg mótfallinn tillögunni eða lagafrv. sem ég gerði ekki þó að ég lýsti ekki neinni hrifningu yfir því. Í öðru lagi er mér gerð upp skoðun hv. þm. Helga Seljans-(HS: Það er hálfu verra.) Nei, ekki segi ég það - og þar með gefið til kynna að fyrir nokkrum árum hafi ég verið stuðningsmaður svipaðs frv. og hér er verið að ræða. Það er haft eftir hv. 5. landsk. þm. að svona hafi umræðan verið í þinginu. Ég vil aðeins koma leiðréttingu fram í sambandi við þetta. (Gripið fram í.) Ja, það getur verið að blaðið hafi tekið þetta vitlaust upp eftir hv. þm., ég tel það trúlegra.

Fyrst ég er farinn að leiðrétta Alþýðublaðið langar mig að gera svolítið meira að því þó að það tilheyri kannske frekar hv. Nd. en að það sé gert í Ed. Það er um atkvæðagreiðslu í þeirri hv. deild fyrir tveimur árum síðan. Í Alþýðublaðinu segir, og er haft eftir hv. þm. Karvel Pálmasyni, að formaður Alþb. hafi greitt atkvæði gegn breytingartillögum í sambandi við heimild til aukinna línuveiða, sem er ekki rétt, og einnig að hann hafi greitt atkvæði gegn breytingartillögu hv. þm. Karvels Pálmasonar um sérstaka breytingu á kvóta vegna uppbyggingar atvinnuvega á hverju svæði. Þar sat hv. þm. Svavar Gestsson, formaður Alþb., hjá en greiddi ekki atkvæði á móti.

Ég var kominn þar í umræðu um frv. að ég var að ræða um flokkana og benti á það að oftast nær, þegar verið er að tala um prófkjör og verið að tala um aukið lýðræði, fylgir einhver neikvæð umræða um flokkana, þessa félagseiningu sem við byggjum okkar stjórnkerfi á. Og að vissu leyti hefur þetta tengst þeirri umræðu sem fer fram um það að röðun skuli eiga sér stað á lista eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, það sé verið að flýja frá valdi flokkanna til þess að gefa hinum almenna kjósanda betra tækifæri til þess að ráða við flokksvaldið. Ég held að þessi umræða sé röng og það sem frekar eigi að stefna að, þegar umræða fer fram á þennan hátt, sé að þá verði leitað einhverra ráða og tillagna um það að auka lýðræði og betrumbæta stjórnmálaflokkana og kannske undir mörgum kringumstæðum benda á ágæti þeirra.

Í sambandi við það að raða mönnum á lista bendi ég á að ég tel að við slíka uppstillingu sé mjög hætt við því að málefnaleg pólitísk umræða hverfi eða minnki og að það verði fram á síðasta dag fyrst og fremst rætt um manninn en ekki málefnin. Við getum kannske lent í svipaðri stöðu og við höfum séð myndir af í okkar ágæta sjónvarpi, hvernig kosningabarátta átti sér stað fyrir skömmu vestur í Bandaríkjunum. Þar var fyrst og fremst verið að ræða um persónur þeirra sem voru í framboði, ekki þau málefni eða þann málefnagrundvöll sem þessi eða hinn barðist fyrir. Ég tel mjög vafasamt hvort í eðli sínu sé verið að auka lýðræði með þessari aðferð sem hér er lagt til að tekin verði upp.

Að vissu leyti má segja að hinum almenna kjósanda er boðið upp á meiri möguleika, en er hann nokkuð betur upplýstur eða hefur hann raunverulega meiri möguleika tit að velja þarna heldur en að velja beinlínis á flokksvettvangi og starfa innan flokks þeirrar félagseiningar sem við byggjum stjórnkerfið á? Ég held að innan flokksins verði maðurinn betur upplýstur en að ákvörðunartaka við þær aðstæður sem hér er lagt til að verði verði ansi yfirborðskennd.

Yrði það nú ekki frekar til þess að auka lýðræðið að leita þeirra ráða að leggja stjórnmálaflokkunum einhverjar ákveðnar skyldur á herðar gagnvart sínum félögum og þeim sem ætla að styðja þá? Ég hef þá tilfinningu að það sé sú besta leið sem við getum farið. En hér eru ekki neinar reglur um starfsemi flokka. Þeir geta sett sínar reglur hver fyrir sig og annar verið lýðræðislegur, hinn einræðislegur, og þeir sem eru valdir á vegum flokka til ýmissa trúnaðarstarfa hafa mjög frjálst val eins og við þekkjum héðan frá hv. Alþingi. Hvað skeði hér? Heill þingflokkur lagði sjálfan sig niður og gekk inn í tvo aðra flokka. Það var engin skylda gagnvart þeim flokki og gagnvart þeim kjósendum sem höfðu kosið þessa menn. Það hefði ekki breytt einu eða neinu þó að þessir hv. þm. hefðu verið kjörnir og valdir eftir þeirri aðferð sem hér er lögð til.

Það eru ýmsir þættir sem þarf að leita að til þess að auka lýðræðið og auka ábyrgð þeirra sem taka að sér það að vera valinn fulltrúi til þessa eða hins starfsins. Ég lýsi ekki andstöðu minni gegn þessu frv. en vil ekki lýsa stuðningi mínum á þann veg að ég telji að þetta sé sú leið sem sé heppilegust til þess að auka lýðræðið og að það verði gert á þann máta sem við erum öll að leita eftir, að það skapi ekki og skilji ekki eftir vandræði eftir ákvörðunartökuna eins og hér var lýst í sambandi við prófkjörið í fyrri hluta þessarar umræðu.