16.10.1986
Sameinað þing: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

Stefnuræða forsætisráðherra

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Hv. þm. Haraldur Ólafsson hélt því fram áðan að kaupmáttur launa í dag væri einn sá mesti í sögu lýðveldisins.

Stjórnarherrarnir í Vinnuveitendasambandinu halda þessu líka fram og þeir sem hér tala lepja þetta upp hver á fætur öðrum. Þessa blekkingu er óhjákvæmilegt að afhjúpa. En stjórnarherrunum er greinilega sama hvaða þrældómur liggur á bak við launin, sama hvernig fólkið dregur fram lífið. Hvernig fá þeir þessar tölur um hin dásamlegu, fullkomnu lífskjör á Íslandi, þessir menn? Reikningsaðferðirnar eru þessar:

1. Þeir reikna aukinn vinnuþrældóm fjölskyldnanna inn í þessar tölur. Meðtalin er stóraukin vinna unglinga á framhaldsskólastigi og aukinn vinnuþrældómur fólks sem bætir við sig skúringum og vinnur á veitingahúsum eftir langan vinnudag í skrifstofu og skóla.

2. Inn í þessar tölur taka þeir líka auknar yfirborganir sem aftur þýðir að launamunur í þjóðfélaginu hefur aukist verulega.

3. Inni í þessum tölum er gert ráð fyrir því að þú, hlustandi góður, hafir auknar tekjur af vöxtum, að þú sækir vaxtatekjur af sparisjóðsbók reglulega til að borga með soðninguna, kartöflurnar og hitareikninginn. Þessar tölur eru því markleysa. En þær sýna gegndarlausa ósvífni í talnameðferð því fyrir liggur samkvæmt opinberum staðfestum tölum að kaupmáttur kauptaxta er enn 20% lægri en 1982 þó þjóðartekjur á mann hafi á sama tíma aukist um meira en 10%. Og enn eru þessir spekingar að þakka sér fyrir að þeir hafi keyrt verðbólguna niður. Verðbólgan stafaði fyrst og fremst af margföldun olíuverðs úr 5 dollurum í 35 dollara og lækkun verðbólgunnar stafar líka á sama hátt af lækkun olíuverðs. Þeir hafa þar engin afrek unnið. Hins vegar er ljóst að stefna þeirra getur margfaldað verðbólgu á næstunni. Þeir gera nú ráð fyrir stórfelldri hækkun rafmagnsverðs um áramót. Póstur og sími er rekinn með verulegum halla og heimtar hækkanir um áramótin. Þeir gera ráð fyrir orkuskatti sem mun auðvitað auka verðbólgu. Og síðast en ekki síst er ljóst um fiskvinnslufyrirtæki að staða þeirra er víða slæm þrátt fyrir verðhækkanir á afurðum okkar erlendis. Nei, ríkisstjórnin hefur engin afrek unnið í þessum efnum.

Og enn er klifað á því að Alþb. sýni ekki atvinnuvegunum og stöðu þeirra skilning, en mér er spurn: Hvenær hefur afkoma sjávarútvegsins verið betri en þegar Alþb. hefur farið með sjútvrn.? Og ég spyr: Hvaða fyrirtæki hafa verið sett af stað í tíð núverandi ríkisstjórnar? Engin innlend iðnfyrirtæki. En þeir hafa gefið einkaaðilum fjölda ríkisfyrirtækja. Í ár minnkar fjárfesting í almennum iðnaði um 10% en eykst í verslun um 10%. Og hvenær skyldi hafa verið tekin ákvörðun um útfærslu landhelginnar á sínum tíma, sem Haraldur Ólafsson var að guma af hér áðan, nema undir forustu Lúðvíks Jósepssonar fyrrv. sjútvrh.? Allt er þetta ljóst. En það er líka fróðlegt að taka eftir því að hér í kvöld hafa þeir ekki minnst á að ríkisstjórnin ætlar að stela 1100 millj. kr. í ríkissjóð af húsnæðislánakerfinu á næsta ári. Þannig eru efnd hin glæstu fyrirheit kjarasamninganna um nýtt húsnæðislánakerfi sem hæstv. forsrh. var að hæla sér af áðan.

Ekki gerðu þeir hér í kvöld heldur grein fyrir því að ríkisstjórnin ætlar að taka helminginn af tekjunum handa Þjóðarbókhlöðunni í ríkissjóð og ekki minntust þeir heldur á að hallinn á ríkissjóði í tíð þessarar ríkisstjórnar er 6100 millj. kr. Vextirnir einir á ári eru 400 millj. kr. eða tvöföld sú upphæð sem ríkisstjórnin ætlar að rausnast til að leggja til skólamála í landinu á næsta ári. Þetta liggur fyrir og þetta eru staðreyndir sem þjóðin þarf að hafa í huga.

Formaður Alþfl. kom hér í kvöld og veittist að Alþb. Ég ætla ekki að svara þeim árásum. Ég held hins vegar að hann sé síðasti maðurinn í þessum sal sem ætti að tala um dýrategundina hani. Ég tók a.m.k. eftir því, þegar hann sagði dæmisöguna í upphafi ræðu sinnar, að margir annars alvarlegir menn brustu í hlátur í þingsölunum.

Það er einnig athyglisvert hvernig formaður Alþfl. talar um kjósendur. Hann talar um kjósendur eins og sauðfé eða eign sem hann hefur gert lögtak í og hirt. Hann segir: Alþfl. á kjósendur. Ég á fylgi. Auðvitað er það ekki þannig. Enginn flokkur á kjósendur eða á fylgi. Kjósendur taka sjálfir ákvörðun í kjörklefanum um hvað þeir kjósa. Og menn hafa aldrei myndað ríkisstjórn í þessu landi á grundvelli skoðanakannana þó að nýlega hafi flokkur í þessu landi dáið á grundvelli skoðanakannana.

Góðir tilheyrendur, félagar og aðrir sem mál mitt heyrið. Alþb. hefur þegar byrjað kosningaundirbúninginn. Aðalfundir kjördæmisráðanna standa yfir. Aðalfundur miðstjórnar flokksins verður haldinn í næsta mánuði og aðalfundur verkalýðsmálaráðs Alþb. núna eftir tvær vikur. Við gerum ráð fyrir að ákvarðanir um efstu sæti framboðslista liggi fyrir nær alls staðar fyrir eða um áramótin. Ég skora á ykkur, góðir félagar, að starfa vel fram að kosningum. Kosningabaráttan vinnst ef við störfum vel saman af einlægni og dugnaði. Það er til mikils að vinna og ljóst að tvö meginmál munu setja svip sinn á kosningabaráttuna, annars vegar kröfur um góðærið til fólksins og hins vegar umræðan um utanríkismál sem hlýtur að setja svip sinn á veturinn nú fremur en löngum fyrr til margra ára. Aðstæður eru hagstæðar fyrir okkur til að vinna sigur. Nú er að láta hendur standa fram úr ermum og þá má gjarnan hafa yfir viðlag Einars Braga sem segir:

Meðan jörðin sefur

sveipuð hvítum feldi

fara glaðlynd vermsl

með vordrauminn um æðar henni.

Ég heyri ekki nið þeirra

en nem í blóðinu

þöglan grun

um græna nál í snjónum.

Ég þakka þeim sem hlýddu. Verið þið sæl.