20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

62. mál, samfélagsþjónusta

Helgi Seljan:

Herra forseti. Hér er hreyft viðkvæmu og vandmeðförnu máli, máli sem hefur ekki komið oft til umræðu hér á Alþingi á mínum þingtíma. Ég held að þetta sé í annað skiptið sem það kemur til verulegrar umræðu hér. Það var í tilefni till. okkar hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar sem þessi mál komust hér á dagskrá í heild sinni á sínum tíma fyrir líklega einum þremur eða fjórum árum síðan, eins og hv. 7. þm. Reykv. minntist á áðan. Þar fórum við yfir þessi mál og ég sé enga ástæðu til þess að vera að endurtaka það sem þar var sagt. Ég man eftir að þessi umræða vakti mikla athygli einmitt sakir þeirrar þrumuræðu sem hv. 7. þm. Reykv. flutti við það tækifæri og þeirrar ádeilu sem í þeirri ræðu fólst á ýmsa aðila í kerfinu, hvernig þeir meðhöndluðu mál, þannig að úr varð hinn mesti hvellur.Trúlega hefur sú umræða öll orðið til þess að sú till. okkar, um heildarendurskoðun fangelsismála, þar sem tekið væri á öllum þáttum, þar sem allra úrræða væri leitað um úrbætur, fékkst samþykkt og í framhaldi af þeirri samþykkt var kosin hér nefnd á Alþingi sem átti að taka öll þessi mál til endurskoðunar eins og hv. 7. þm. Reykv. kom inn á áðan.

Í máli okkar þá kom fram að við yrðum þarna að gæta hins vandmeðfarna meðalhófs, ekki láta refsigleðina ráða um of, og auðvitað ekki heldur að láta lögbrot vaða yfir. Hér er vissulega um vandmeðfarið mál að ræða og ekki drógum við neitt úr því. Hér er komið inn á hugmynd allrar athygli verða, sem skylt er að skoða, um einn möguleika út úr þessum vanda, út úr þeim vítahring vil ég segja sem margir lenda í sem verða, oft á unga aldri, fyrir því að fremja jafnvel minni háttar afbrot í upphafi en enda sína ógæfubraut svo oft með enn alvarlegri afbrotum. Inn í þetta fléttast svo spurningin um þessi ágætu hús okkar, sem við köllum oft fínu nafni betrunarhús, og hversu mikil betrun fylgir því að vera þar inni. Inn á það kom hv. síðasti ræðumaður og ég ætla ekki að fara nánar út í það. En ekki síður varðar það miklu hvert viðhorf samfélagsins er svo eftir á þegar viðkomandi hefur tekið út sína refsingu, er búinn að gjalda fyrir að fullu það sem hann hefur af sér brotið og á að vera jafnhlutgengur þjóðfélagsþegn á eftir. Spurningin er um það hvernig honum er þá tekið úti í samfélaginu. Mig grunar að þar sé kannske mest pottur brotinn í öllu þessu þrátt fyrir það slæma ástand sem enn þá ríkir um of í okkar fangelsismálum.

Aðalerindi mitt upp í þennan ræðustól var annars vegar að lýsa yfir stuðningi við þetta úrræði, sem hér er nefnt hjá hv. 1. landsk. þm. og meðflm. hennar, úrræði sem ég tel skylt að skoða, og hins vegar að spyrja hæstv. dómsmrh. um það hversu þessum málum reiðir af hjá hans ráðuneyti. Ég sé það á málaskrá hæstv. ríkisstjórnar nú að þar er ráðgert að leggja fram frv. um fangelsismál og reikna ég með því að það sé byggt á nál. því sem við höfum verið að bíða eftir og þar séu málin tekin öll í heild til endurskoðunar. Ég vil spyrja hæstv. dómsmrh.: Hvað um raunhæfa lausn á þessu máli á þann veg að hér verði lagt fyrir Alþingi heildstætt frv. um fangelsismál eins og reyndar er boðað? Ég hef nefnilega grun um að starfið sé ekki komið lengra en það enn þá að hér sé um hæpinn hlut að ræða á jafnstuttu þingi og við sjáum fyrir okkur nú, ekki síst eftir síðustu sviptingar í stjórnarflokkunum, þá veit náttúrlega enginn hvernig þau mál standa. En miðað við alla venjulega hluti og að þar komist aftur á sátt og samlyndi eins og venja er í þeim herbúðum þegar menn eru búnir að ræða málin „í botn“ eins og þar stendur, og að þing standi svona nokkuð eðlilegan tíma, þá spyr ég hæstv. dómsmrh.: Verður lagt fram frv. á þessu þingi um fangelsismál og í hverju verða þá höfuðatriði þess fólgin? Er þar tekið heildstætt á málum eða er þar aðeins um lítilvægar úrbætur að ræða?