20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1026 í B-deild Alþingistíðinda. (882)

26. mál, útboð opinberra rekstrarverkefna

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að blanda mér í þessa umræðu en tillaga sem ég hef flutt hér á Alþingi í þrígang eða verið 1. flm. að hefur komið inn í þessar umræður og ég vildi þá vekja athygli á því út á hvað sú tillaga gengur og hvers vegna í ósköpunum þeir sem trúa á útboðsstefnuna hafa verið svo tregir til að samþykkja hana sem raun ber vitni.

Tillagan felur það nefnilega í sér að gera skuli heildarúttekt á hagkvæmni útboðanna, bæði þjóðhagslega og byggðalega. Þar er getið um það að ákveðinn aðlögunartími skuli gefinn nákvæmlega eins og hv. 2. þm. Reykv. var að tala um en var ekki gefinn, aðlögunartími fyrir heimaaðila til þess að laga sig að breyttum aðstæðum, að útboðsreglum og auðvelda þeim þátttöku í verkefnum nálægt sinni heimabyggð. Þetta er í raun og veru grundvallaratriði þessarar tillögu. Og ég verð að segja það að ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með það að þessi tillaga skuli ekki hafa fengist samþykkt og að fremstu stuðningsmenn hennar skuli ekki vera úr hópi þeirra sem trúa á blinda útboðsstefnu í öllu, því að heildarúttekt af þessu tagi sem við leggjum þarna til hlýtur að sanna þeirra mál í einu og öllu, ef trúa má þeirra eigin sannfæringu, sem þeir bera á borð æ ofan í æ og hv. 2. þm. Reykv. er nú að bera á borð varðandi önnur verkefni sem hann vill láta bjóða út.

Ég verð því miður - og verð að segja það þrátt fyrir það að hann vitni, eins og í hálfheilagan mann, í hæstv. samgrh., vitni til hans eins og Biblíu og ekki dreg ég úr því að þar fer sannorður maður og réttsýnn - að játa það að við á Austurlandi höfum ekki séð gróðann af þessum útboðum. Við höfum hins vegar séð gjaldþrota fyrirtæki í stórum stíl. Við höfum séð hlaupið frá hálfköruðum verkum í stórum stíl, því miður. Og þá heimaaðila sem hafa verið að reyna í samkeppninni við volduga aðila, sem hafa m.a. getað byggt sig upp á virkjunarframkvæmdum hér syðra og koma svo með sinn tækjakost austur, höfum við séð fara á hausinn í stórum stíl þarna eystra líka, jafnvel heilt ræktunarsamband í eigu bændanna á Austurlandi hefur farið á hausinn af þessum sökum. Og svo eru menn hissa á því þó að við fögnum ekki þessari þróun sem var í raun og veru engin þróun vegna þess að þessu var skellt á

fyrirvaralaust þannig að heimaaðilar höfðu enga möguleika til að laga sig að þessum aðstæðum. Það er nefnilega rétt sem hv. 2. þm. Reykv. sagði. Ef á að gera svona hluti þarf aðlögunartíma. Hann var hreinlega ekki gefinn.

Hér er hins vegar tekist á um grundvallaratriði í þessum málum og ekki skal ég fara frekar út í það hér. Ég tel að það sé nauðsynlegt að við tryggjum það hér að heimaaðilar geti komið sem allra best að verkum, að þeir geti tekið þátt í eðlilegri verktakastarfsemi að sjálfsögðu og þeim verði auðvelduð leiðin til þess. Ég játa það alveg og hef sagt það í hvert skipti sem ég hef talað um þessi mál: Ég hef ekki á móti útboðum í stórum verkefnum þar sem þarf sérhæfð tæki, sérstaka kunnáttu og annað því um líkt, síður en svo. Þar sem ég er alveg öruggur um að hagkvæmni sé að slíkum útboðum hef ég sannarlega ekki á móti þeim. En að bjóða út allt, stórt og smátt, með engan fyrirsjáanlegan gróða, síst með framtíðina í huga, tel ég hins vegar ranga stefnu og hún hefur komið mörgum í mínu kjördæmi svo hrikalega í koll og ég sé það líka að eftir fáein ár muni byggðirnar eystra, heilu byggðarlögin sem hafa búið allvel að þjónustu þessara aðila, bæði vinnuvélaeigenda og vörubifreiðastjóra, standa uppi án þessarar þjónustu og Vegagerð ríkisins, svo að dæmi sé tekið, af því að hún var nefnd hér sérstaklega, mun heldur ekki geta sinnt sínum verkefnum einfaldlega vegna þess að þegar koma viðhaldsverkefni, verkefni sem koma á óvænt, eru þessi tæki ekki til og Vegagerðin á þau ekki til heldur.