20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1027 í B-deild Alþingistíðinda. (883)

26. mál, útboð opinberra rekstrarverkefna

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau sjónarmið að það þarf að gæta hófs í því að ætla ekki að allt verði hagkvæmara þó að útboðunum sé beitt. Þarna kemur eitt og annað inn í. Það þarf að standa að vegaviðhaldi á þessum svæðum og fari svo að öll tæki sópist burtu af svæðunum getur niðurstaðan orðið sú að ákaflega lítið og ódýrt verk, hefðu tækin verið til staðar, breytist í kostnaðarsama framkvæmd vegna þess að tækin þarf að sækja mjög langa leið.

Annað hefur ekki síður vakið athygli þeirra sem úti á landi eru og fylgjast með þessu en það er sú staðreynd að stærstu verktakafyrirtæki landsins fengu að flytja inn vélar ótollafgreiddar. Þessar vélar áttu að vera notaðar á virkjanasvæðunum og það átti að skrifa niður vinnutímafjöldann. Það átti að byggja tollafgreiðsluna á því hver vinnutímafjöldi vélanna yrði og síðan var hugsunin sú að það gæti farið svo að það yrði að flytja vélarnar beinustu leið út aftur eftir framkvæmdir.

Þetta hefur leitt til þess að í útboðum á Íslandi hafa annars vegar verið til staðar stór fyrirtæki sem ekki þurftu að leggja fram fjármuni fyrir tolli og hins vegar smáaðilar sem urðu að greiða tollinn við móttöku vélanna. Þetta hefur skapað verulegt ósamræmi og ég er þeirrar skoðunar að það sé alveg vonlaust að standa þannig að því, eins og verið hefur, að stórfyrirtækin fái að flytja inn vélarnar tollfrjálst til virkjananna og geti svo valsað með þær vélar inn í önnur verk. Það verður að vera réttlæti í þessu og það réttlæti er ekki til staðar ef grunnurinn er rangt byggður.

Ég vil líka geta þess hér að svo vill til að okkar söluskattskerfi er þannig útbúið að það er ekki söluskattur af vörubílum, vinnu, en aftur á móti söluskattur af þungavinnuvélum. Það er náttúrlega vitlausara en svo að nokkru tali taki ef á að standa þannig að þessum málum að verktaki geti fært verulegan hluta af verkinu yfir á vörubíla, segja að það hafi verið unnið af vörubílum, og borga engan söluskatt, á sama tíma og ef þetta hefði verið unnið af smærri aðilum hefði það náttúrlega legið alveg ljóst fyrir að sá sem var að vinna verkið notaði til þess þungavinnuvél, t.d. jarðýtu. Ég tel að við höfum stigið sum spor mjög góð í því að taka upp útboð, ég er sannfærður um það. Við höfum lengt vinnutímann yfir árið í framkvæmdum og gert ýmsa góða hluti en við þurfum að gá verulega vel að okkur og gæta þess að fá enga oftrú á þessu, horfa á þetta með gagnrýni og reyna að ná skynsamlegri niðurstöðu í því hvað við setjum í útboð og hvað við teljum eðlilegt að sé framkvæmt með öðrum hætti.