20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (884)

26. mál, útboð opinberra rekstrarverkefna

Flm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Enn á ný hafa nokkrir hv. þm. tekið til máls um þessa litlu þáltill. sem er til umræðu og kann ég þeim að sjálfsögðu bestu þakkir fyrir. Fyrst hv. síðasta ræðumanni sem benti réttilega á það sem var eitt af aðalatriðunum í minni ræðu. Það er þær reglur, söluskattsreglur, sem í gildi eru en þær koma bókstaflega í veg fyrir það að menn hagræði hjá sér og ýta undir það að menn svindli. Það var eitt af því sem ég benti rækilega á í minni upphafsræðu og ræddi ég þar um þau dæmi sem upp hafa komið, m.a. hjá Eimskipafélagi Íslands og hjá einu kvikmyndahúsanna hér í borg og varða greiðslu á söluskatti, þ.e. reglur um greiðslu á söluskatti, þannig að ég tek undir þessi sjónarmið með hv. síðasta ræðumanni.

Þeir hv. þm. Austurl. sem hér töluðu ræddu reyndar um aðra þáltill. en þá sem hérna er til umræðu en það var af gefnu tilefni. Ég get að mörgu leyti tekið undir þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. 2. þm. Austurl. Það hefði verið betra, og það tók ég fram í minni ræðu, að þessum aðilum hefði verið gefinn viss aðlögunartími. En við skulum hafa það í huga að þarna er verið að ræða um verklegar framkvæmdir en ekki um þjónustuverkefni eins og ég er að tala um í þáltill. þeirri sem hér liggur til umræðu.

Við skulum hins vegar setja dæmið þannig upp að vörubílstjórarnir væru allir ríkisstarfsmenn í dag. Þá mætti segja að mín tillaga gengi út á það að bjóða síka starfsemi út þannig að vörubílstjórar geti tekið að sér verkin því að ég er að tala um athugun á þeim verkefnum sem nú eru unnin af ríkinu.

Ég kann hins vegar vel að meta það að hv. þm. Austurl., þeir sem hér hafa talað, skuli bera hag vörubílstjóra og smáatvinnurekenda fyrir brjósti, það kann ég vel að meta, og ég veit að þeir á Neskaupstað hafa haft skilning á atvinnurekstri. Ég var á Reyðarfirði fyrir skömmu. Þar kom ég inn á bílaverkstæði sem tekur við viðgerðum hjá Vegagerð ríkisins þegar Vegagerð ríkisins getur ekki sjálf annað öllu. Þarna er sem sagt einkaþjónusta notuð aðeins þegar hinir sjá ekki fyrir sér. Ég spyr: Væri ekki hugsanlegt að þessir einkaaðilar eða einhverjir aðrir, heimamenn, gætu tekið að sér þjónustu í auknum mæli? Auðvitað er hægt að hugsa sér það og það er út á slíkt sem mín tillaga gengur, að kanna hvort ríkið getur komið fleiri verkefnum yfir á einstaklinga. Þarna þekkir hv. 2. þm. Austurl. vel til og þess vegna nefni ég Reyðarfjörð sem sérstakt dæmi því að þangað kom ég fyrir ekki mörgum vikum síðan.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson kom aftur í ræðustól og ræddi áfram á þeim nótum sem hann hafði áður rætt. Ég hef því miður ekki tíma til þess að eiga orðastað við hann um þau atriði en verð að benda á að þau verkefni sem þar eru boðin út eru samstarfsverkefni íslenskra og erlendra aðila og ég minni á að það hefur gerst áður að erlendir aðilar hafa fengið að bjóða út á Íslandi eins og t.d. í öllum virkjunarframkvæmdum. (HG: Hvenær hafa . . .) Ég ætla ekki að svara þessari spurningu en ég get rifjað upp fyrir hv. þm., sem er fyrrv. iðnrh., að það er nú kannske kominn tími til að ganga í þetta mál, einkum og sér í lagi þegar íslenska ríkið er búið að demba nokkrum hundruðum milljóna í virkjunarrannsóknir fyrir austan.

Varðandi flugreksturinn vil ég aðeins segja þetta. (Forseti: Ég vil aðeins vekja athygli hv. ræðumanns á því að það verður naumast sagt lengur að um stutta athugasemd sé að ræða.) Ég skal viðurkenna það, herra forseti, að það verður varla sagt að hún sé örstutt en hún er nú tiltölulega stutt, held ég, miðað við þær ræður sem hafa verið fluttar hingað til og ég vona að herra forseti gefi mér leyfi til þess svo sem eins og í hálfa mínútu í viðbót að fá aðeins að svara hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni.

Það sem ég vildi sagt hafa er þetta: Það er engin lausn frá sjónarhóli mínum né þáltill. sem ég er að flytja að ríkið taki að sér flugreksturinn. Það liggur hins vegar á borðinu og það veit ég að þegar slík þjónusta er boðin út eins og einkaleyfi til flugrekstrar, skv. lögunum, getur ríkið hvenær sem er gert að skilyrði hvernig þjónusta á að vera fyrir hendi. Það er eins auðvelt eins og við erum hér saman í þessum þingsal báðir tveir. Það hefur ekki verið gert en það er hægt á grundvelli gildandi laga því það hef ég kannað sjálfur.

Herra forseti. Mér þykir leitt að hafa þurft að láta reyna svona mikið á þolinmæðina en vona að mér fyrirgefist það einkum og sér í lagi vegna þess að ég er ekki tíður gestur í þessum ræðustól.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað