20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1030 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

Ákvörðun um fullvirðisrétt

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hinn 27. júní 1985 voru gefin út lög um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Þar var markað stórt spor til meiri stjórnunar á landbúnaðarframleiðslu hér á landi en áður hefur þekkst og nauðsyn að stíga það vegna þess misræmis sem orðið var á milli framleiðslunnar og eðlilegra sölumöguleika á vörunni. Vitað var að það yrði að gefa út reglugerðir sem kæmu á framfæri til bænda vilja stjórnvalda um þessi mál og hæstv. landbrh. lá undir verulegu ámæli fyrir það hve seint reglugerðin um mjólkurframleiðslu kom út. Nú hefur það gerst að reglugerðin um sauðfjárafurðir kemur ekki út fyrr en 29. október en fyrir liggur að ákvörðun um bústofn á þessum vetri, sem ræður framleiðslu haustsins 1987, var að sjálfsögðu ákveðin fyrir sláturtíð. Það verður að teljast mjög undarlega að verki staðið að yfirvöld þessara mála sjái sér ekki fært að gefa út reglugerð fyrr en 29. október og ég vil spyrja ráðherra hvað veldur því að slík vinnubrögð eru viðhöfð.

Það kemur einnig fram að það er búið að skipta landinu upp í mjög mörg búmarkssvæði. Á Vestfjörðum gerist það af þeirri ástæðu að fluttur hefur verið frá Vestfjörðum af einu svæðinu, þ.e. Vestur-Barðastrandarsýslu, verulegur framleiðsluréttur á sama tíma og fjölmiðlar, fyrst dagblaðið Tíminn en síðan sjónvarpið, hamra á því í fréttaflutningi að Strandasýsla hafi komið verst út allra svæða á Íslandi samkvæmt þessari reglugerð. Þar kom m.a. í ljós að það 3% magn sem búnaðarsamböndum er ætlað til útdeilingar var ekki inni þegar frá þessum tölum var gengið við Búnaðarsamband Strandasýslu. Ég vænti nú reyndar breytingar á því en ég vil heyra álit ráðherrans á því, hvert hans mat er á stöðu sauðfjárbúskapar í Strandasýslu eftir útkomu þessarar reglugerðar.

Það fer ekki á milli mála að byggð þar þolir engin stóráföll. Með leyfi forseta vil ég lesa hér samþykkt frá almennum bændafundi í Sævangi sem hljóðar svo:

„Almennur bændafundur haldinn Í Sævangi 16. nóv. 1986 gerir þá kröfu til stjórnvalda að bændur í Strandasýslu fái fullvirðisrétt er svari til meðalframleiðslu áranna 1981-1986 og haldi honum. Bendir fundurinn á að bú í Strandasýslu eru það smá að ef framleiðslan dregst saman frá þessum árum er ljóst að hrun byggðarinnar er óumflýjanlegt.“

Með þeirri ákvörðun að skipta landinu í framleiðslusvæði hlýtur að verða að líta svo á að einhver framtíðarstefna verði mótuð í þessum efnum, hvar eðlilegt sé að halda áfram sauðfjárframleiðslu að fullu og hvar beri að draga verulega úr framleiðslunni. Það er að mínu viti eðlilegt að skoðuð verði nýting á landinu og þar sem afréttir eru ofbeittir sjái menn sóma sinn í að minnka framleiðsluna svo að ekki sé níðst á landinu. Ég vil spyrja hæstv. landbrh.: Kom þetta aldrei inn í umræðuna þegar fullvirðisréttinum var útdeilt?

Haustið 1987 ábyrgist ríkið fullt verð fyrir 11 000 tonn en Framleiðnisjóður fullt verð fyrir 800 tonn. Að vísu ábyrgist ríkið einnig hluta af því magni ef samningar takast um niðurskurð vegna riðu. Sú spurning brennur mjög á bændum í dag hvort gera megi ráð fyrir því að þeirra framleiðsla verði skert ár frá ári eða hvort ætlunin sé að stoppa nú við og skerða ekki fremur en orðið er framleiðslurétt þeirra bænda sem halda áfram sauðfjárbúskap. Það er mjög brýnt að bændur fái að vita þetta. Í mörgum tilfellum blasir það við að það er ekki skynsamlegt að bíða með ákvarðanatöku um að bregða búi ef fyrirsjáanlegt er að framleiðslurétturinn heldur áfram að minnka.

Sú spurning brennur einnig í hugum margra framleiðenda í hverju ábyrgð ríkisins á framleiðslu afurðanna sé fólgin. Er hún fólgin í því að bændur fái fullt verð fyrir afurðirnar og jafnframt í því að það megi gera ráð fyrir því að þegar framleiðsluárið er liðið verði gert upp við sláturleyfishafa þannig að þeir fái fullt verð fyrir þær afurðir og ríkið sé þá eigandi að því sem eftir er, eða má búast við því að sláturleyfishafar sitji uppi með að selja stöðugt eldra og eldra kjöt, þ.e. ef framleiðslan nær ekki jafnvægi gagnvart markaðnum?

Framleiðnisjóði hefur verið markaður tekjustofn til fimm ára og vitað er að stórum hluta af því fjármagni hefur verið ráðstafað nú þegar. Gott væri ef upplýst yrði hve miklu af þessum tekjum hann er búinn að ráðstafa. - Ég er alveg að ljúka máli mínu, herra forseti. (Forseti: Ég vil leyfa mér að vekja athygli hv. frummælanda á því að hann er kominn langt fram yfir sinn tíma. Það eru níu hv. þm. þegar á mælendaskrá og við þurfum að fylgja stranglega þeim reglum sem þingsköp gera ráð fyrir ef þm. eiga að gefa komist eðlilega að og ég veit að hv. frummælandi óskar ekki að hamla því að þm. geti talað hér á eftir.)

Ég leyfi mér einnig að spyrja hæstv. ráðh. að því hvort fyrir liggi upplýsingar um það hve stór hluti þeirra sem selt hafa framleiðslurétt frá jörðum sínum fari út í aðra atvinnustarfsemi án þess að flytja brott af jörðinni. Þetta er spurning um það hvort vænta megi þess að það eigi sér stað atvinnubreyting í sveitum eða hvort kaupin á framleiðsluréttinum séu fyrst og fremst í reynd til þess að auðvelda bændum að hætta búskap en leiði jafnframt til þess að jarðirnar fari í eyði.