20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1031 í B-deild Alþingistíðinda. (887)

Ákvörðun um fullvirðisrétt

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Vegna fyrirspurna hv. 5. þm. Vestf., sem voru margar, vil ég reyna að koma örfáum atriðum að.

Samningar fyrir verðlagsárið 1987-88 lágu fyrir fyrst í lok september. Vinna var mikil við setningu reglugerðar um skiptingu á fullvirðisrétti og ráðh. bar lögum skv. að leita til ýmissa aðila um reglugerðina áður en hún var gefin út síðast í október. En byggt var við setningu þessarar reglugerðar á tillögum Stéttarsambands bænda sem og búvörulögunum sem kveða á um að búmarkssvæði skuli að öðru jöfnu falla saman við starfssvæði búnaðarsambanda en hins vegar hefur verið skipt í fleiri svæði. Þá er óskað eftir tillögum frá viðkomandi búnaðarsamböndum um það hvort þau vilja breyta því en byggt hefur verið á tillögum frá Stéttarsambandinu.

Um skiptingu á afurðamagni milli svæða var byggt á tillögu frá aðalfundi Stéttarsambands bænda á s.l. sumri þar sem miðað skyldi við framleiðslu síðustu tveggja ára, þ.e. það árið sem betra var. Öll búmarkssvæði hlutu sína sömu skerðingu, 4,5%, af innleggi haustið 1984-1985 miðað við betra árið. Benda má á að á s.l. 5-7 árum hefur þróun sauðfjárhalds mjög orðið í samræmi við landnýtingarsjónarmið. Þannig hefur sauðfé á Ströndum aðeins fækkað um 3% frá árinu 1977-78 til 1984-85, í Gullbringu- og Kjósarsýslu um 35%, í Skagafirði um 19% og um 28% í Árnessýslu. Ekki var talið fært að ganga lengra í mismunun um sinn, þannig hljóðaði tillaga Stéttarsambandsins, en ráðuneytið telur hins vegar alveg nauðsynlegt að taka fullt tillit til þessa atriðis við næstu skiptingu fullvirðisréttar, þ.e. fyrir verðlagsárið 1988-89. 3%-hlutinn sem ætlaður er búnaðarsamböndunum er þegar tryggður þannig að við það verður staðið.

Ég vil undirstrika það að þessi úthlutun á fullvirðisrétti er lágmarksúthlutun, lágmarkstrygging réttara sagt, sem hverjum bónda er ábyrgst og reynslan á síðan eftir að skera úr því hvort eitthvað þarf að skerða framleiðslu.

Samkvæmt upplýsingum framkvæmdastjóra Framleiðsluráðs, Gunnars Guðbjartssonar, er talið að nú í haust muni verða innan við 100 tonn af kindakjöti umfram verðábyrgð sem þurfi að koma til skerðingar hjá bændum. Það er ljóst að þarna er ekki um mikið magn að ræða þegar því er dreift yfir landið allt. Reglugerðin gerir ráð fyrir því að skerðingin verði þannig að því sem afgangs er verði jafnað út milli einstakra bænda þannig að það komi upp í hlut þeirra sem fyrir mestri skerðingu verða, þannig að þarna verði um eins mikinn jöfnuð að ræða og nokkur kostur er. Og það er sama sjónarmiðið sem gildir í þeirri reglugerð sem nú hefur verið gefin út. Grundvallarsjónarmiðið í samningunum í haust fyrir verðlagsárið 1987-88 og útgáfu reglugerðarinnar er að þeir bændur sem halda áfram búskap þurfi ekki að draga saman frá þessu verðlagsári. Það tel ég ákaflega mikilvægt. Því ætti uppgjörið nú í haust að benda til þess að það muni ekki heldur verða mikil verðskerðing á kjöti hjá bændum við framleiðslu næsta hausts þar sem nú í haust var óvanalega jafngott árferði um allt land.

Um það hvort markmið Framleiðnisjóðs næst um fækkun samkvæmt hans ábyrgð liggur það ekki ljóst fyrir, líkur benda þó til þess. Það eru um 50 000 fjár hjá bændum þar sem riðuveiki er og nokkur hluti þeirra gengur að þessu tilboði sem þarna er gert. Það mun vera sennilega u.þ.b. þriðjungur þeirra sem sem nú taka við tilboði Framleiðnisjóðs. Aðrir eru svo þeir sem hafa erfiða búrekstraraðstöðu eða eru á leiðinni í að breyta um búskaparhætti o.s.frv.

Meiri hlutinn af samningum við Framleiðnisjóð mun sennilega vera leiga, á að giska 2/3, en enn þá er verið að vinna að þessu og það liggur ekki ljóst fyrir enn þá. Ég tel að þessar upplýsingar bendi til þess að bændur þurfi ekki að örvænta mjög vegna framleiðslu haustsins í haust og þá ekki heldur næsta haust. Þá vil ég taka það fram að lokum að það er verið að gera úttekt á þeim bændum sem verst fara út úr úthlutuninni nú, þ.e. þeim sem hafa verið að byrja búskap síðustu árin og hafa því verið með mjög lítið innlegg. Ég vonast til þess að það liggi fyrir nú allra næstu daga hversu margir þeir eru og þá verður litið á það mál sérstaklega.