16.10.1986
Sameinað þing: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

Stefnuræða forsætisráðherra

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þá hefur forsætisráðherra enn á ný flutt þingi og þjóð stefnuræðu sína og eins og svo oft áður höfum við hlýtt á boðskap talnameistaranna um ástand og horfur í þjóðarbúskapnum og hinar ýmsu efnahagsstærðir, listilega útreiknaðar eftir lögmálum reiknistokksins. Og eins og áður verður ekki betur séð en að það hafi gleymst í öllum útreikningunum að efnahagsstærðir, hverju nafni sem þær nefnast, byggja á fólki, á mannlegum stærðum, og að efnahagsstefna sem ekki tekur tillit til þeirrar staðreyndar getur aldrei orðið réttlát þótt hún geti skilað álitlegum tölum og litið vel út á blaði.

Tillitsleysi við mannlegar stærðir þjóðarbúskaparins vefst ekki fyrir forsætisráðherra. Hann fer geyst í ræðu sinni, lofar árangur ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og hrósar happi yfir að hafa haldið „niðurrifsöflunum utangarðs“ eins og hann orðar það svo fagurlega. Hann talar eins og engum nema honum og ríkisstjórninni hafi dottið í hug að ná þyrfti verðbólgunni niður. Hann gleymir því að oftast eru fleiri en ein leið að sama marki og að sú leið sem hann og ríkisstjórn hans fóru er ekki sú eina sem skilað gat árangri.

Í stjórnarmyndunarviðræðum fyrir rúmum þremur árum lögðu Kvennalistakonur fram ítarlegar tillögur um hvernig ná mætti niður þeirri óðaverðbólgu sem þá geisaði. Þessar tillögur héldu hlífiskildi yfir þeim sem minnst bera úr býtum í þjóðfélaginu. Þær gerðu ráð fyrir að þeir sem vel væru stæðir og hefðu breið og sterk bök bæru byrðarnar af niðurtalningu verðbólgunnar. Og þær gerðu ráð fyrir að ríkið legði sitt af mörkum með því að láta af rándýrum og óarðbærum fjárfestingum, svo sem í orkuverum sem enginn hefur not fyrir. Samkvæmt útreikningum talnameistaranna hefði þessi leið skilað sama árangri og sú leið sem ríkisstjórnin kaus að fara. Forsætisráðherra skyldi því ganga varlega um dyr þegar hann hrósar sigri yfir verðbólgunni. Sá sigur var dýru verði keyptur fyrir launafólk þessa lands og það að nauðsynjalausu.

Og í miðju góðærinu er ástandið enn þannig að fjöldi fólks býr við laun sem ekki er hægt að lifa af. Á meðan framfærslukostnaður einstaklings er um 30 þús. kr. á mánuði eru 35 þúsund manns hér á landi sem bera minna en það úr býtum fyrir fulla dagvinnu og geta því ekki lifað af afrakstri hennar. Í þeim hópi eru konur fjölmennar. Ómæld vinna, sem óhjákvæmilega bitnar á heilsufari og fjölskyldum fólks, er enn eina leið fjölmargra til að láta enda ná saman, þ.e. þeirra sem ekki kikna undan byrðinni og leita á náðir opinberra stofnana með afkomu sína.

Slíkt ástand er ekki með nokkru móti verjandi í íslensku velferðarþjóðfélagi og því hefur Kvennalistinn á ný lagt fram á Alþingi frv. til laga um að óheimilt sé að greiða lægri laun hér á landi fyrir fulla dagvinnu en sem nemur 30 þús. kr. á mánuði. Samkvæmt lauslegri áætlun Þjóðhagsstofnunar gæti þetta frumvarp haft í för með sér allt að fjórðungshækkun á dagvinnulaunum þess 35 þúsund manna hóps sem lægst hefur launin hér á landi en hins vegar ekki nema 3-5% hækkun á heildarlaunakostnaði atvinnurekstrar í landinu miðað við heilt ár. Það er því ljóst að einhliða hækkun lægstu launa er hvorki dýr né líkleg til að hleypa verðbólgunni á skrið á nýjan leik.

Og nú skora ég á forsætisráðherra, sem í stefnuræðu sinni nú - rétt eins og í stefnuræðu sinni í fyrra - viðurkennir að lagfæra þurfi kjör þeirra sem lakast eru settir - nú skora ég á hann að beita afli sínu til að fá þetta frv. samþykkt á Alþingi. Þá, en ekki fyrr, er hægt að benda á að hinar mannlegu stærðir efnahagsmálanna eigi sér verðugan stað í þeirri efnahagsstefnu sem rekin er hér á landi.

En það er fleira sem vantar í stefnuræðu forsætisráðherra en hinn mannlega þátt efnahagsmálanna. Á málefni kvenna og barna er þar ekki minnst einu orði. Nú eru liðin tæp fjögur ár síðan Kvennalistinn leit dagsins ljós og enn spyrja menn: Hvers vegna Kvennalisti? Og það finnst Kvennalistakonum reyndar ágætt vegna þess að stjórnmálahreyfingar eiga aldrei að vera til sjálfra sín vegna. Þær verða sífellt að líta í eigin barm, á þjóðfélagið sem þær eru hluti af og meta það í sífellu upp á nýtt hvort þær eigi rétt á sér, hvort þær hafi hlutverki að gegna. Aðeins með því móti geta þær verið lifandi aflgjafi betra mannlífs í landinu, en til þess eru stjórnmálahreyfingar og ekki til neins annars.

Kvennalistakonur hafa að undanförnu horft í kringum sig og spurt sjálfar sig þessara spurninga: Höfum við hlutverki að gegna? Er okkar þörf? Og minnugar þess sem rak okkur af stað í upphafi, lítandi yfir það sem hefur gerst í málefnum lands og þjóðar í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar, höfum við svarað þessum spurningum, og svarið er já. Og það eru ekki aðeins við sjálfar sem svörum á þennan veg, heldur sýna skoðanakannanir að kjósendur eru sama sinnis.

Og hvað er það sem rak okkur af stað og rekur okkur nú áfram? Jú, við lítum í kringum okkur í þjóðfélaginu, þjóðfélagi sem býr við þá ríkisstjórnarstefnu sem hér hefur verið kynnt, og alls staðar sjáum við konur og störf þeirra vanmetin. Við sjáum konur bera mögru bitana heim af hlöðnu borði góðærisins, við sjáum þær vinna myrkranna á milli fullar af samviskubiti yfir að geta ekki sinnt börnum sínum og heimili. Við sjáum störf þeirra vanmetin úti á vinnumarkaðnum. Heimilisstörfin, sem þær hafa sinnt svo lengi sem nokkur man, eru ekki einu sinni til í efnahagsreikningi þjóðarbúsins. Við sjáum skoðanir þeirra lítils metnar, við sjáum að þær njóta ekki sömu virðingar og karlar, ekki sömu réttinda og þeir á borði, þótt svo eigi að heita í orði.

Og við lítum lengra og við sjáum þjóðfélag sem ekki gerir ráð fyrir börnum, sem tímir ekki að eyða nema litlum hluta af arði sínum til uppeldis og umönnunar barna. Við sjáum bruðlið og spillinguna sem viðgengst í skjóli þeirra sem valdið hafa, við sjáum misvitrar ákvarðanir teknar um ráðstöfun almannafjár, við sjáum að víðast situr gróðahyggjan við stjórnvölinn og er harður húsbóndi. Og í eldhúsinu er misjafnt skammtað - feitu bitarnir lenda allir á sömu diskunum. Þannig er umhorfs í íslensku þjóðfélagi nú þegar forsætisráðherra flytur þjóð sinni stefnuræðu sína undir lok kjörtímabils síns.

Og við lítum enn lengra, á heiminn í kringum okkur, og við sjáum stórfellda iðnaðarmengun sem ógnar náttúrunni og lífríki hennar. Við sjáum vígvélarnar gráar fyrir járnum, sprengjurnar sem geta gjöreytt öllu lífi á jarðarkringlunni mörgum sinnum, við sjáum stríð, pestir og hungur sem herjar á mannfólkið. Og við sjáum tvo leiðtoga tala saman í Reykjavík, með fjöregg heimsins í höndunum, án þess að komast að samkomulagi.

Aðgerðarlausar getum við ekki setið hjá. Þessu verðum við að breyta og við vitum að það gerir það enginn fyrir okkur ef við gerum það ekki sjálfar. Þetta rekur okkur konur áfram.

Við vitum það líka að vegna þess að við erum konur höfum við ákveðna sýn á heiminn, sýn sem sprottin er úr veruleika okkar sem kvenna og sem mótar alla afstöðu okkar til manna og málefna. Við vitum að nú ríður á að hin kvenlega sýn á lífið, hið kvenlega verðmætamat, láti til sín taka sem stefnumótandi afl í þjóðfélaginu og sjái til þess að jafnt sé skammtað í eldhúsinu og að allir heimilismenn, konur, karlar og börn, njóti sama réttar, sömu virðingar og sama atlætis. Og við vitum að fyrir þessa kvennasýn er ekkert rúm í þeim stjórnmálaflokkum sem stjórnað er af körlum. Þar er ekki unnið eftir þeim lýðræðis- og valddreifingaraðferðum sem okkur finnst öllu skipta ef stjórnmálahreyfing á ekki að vera hreyfing fárra útvaldra og þar eru okkar hugmyndir, okkar verðmætamat og okkar lífssýn ekki sett á oddinn. Þess vegna mun Kvennalistinn áfram verða til.

Nú ríður á að konur láti til sín taka hvarvetna í þjóðfélaginu og snúi vörn í sókn. Við höfum nýlega fundið það áþreifanlega hér á Alþingi hvernig er að vera fáliðaðar innan um stóra karlaflokka. Það fundum við þegar Sjálfstfl., í krafti aðfengins liðsauka, úthýsti okkur úr nokkrum fastanefndum þingsins sem við höfum fram til þessa starfað í. Þar ræður lögmál hins sterka og það ræður hvert sem litið er í þjóðfélaginu. Það hefur þrifist og dafnað í skjóli þessarar ríkisstjórnar, í skjóli þeirrar stefnu sem ekkí man að í landinu búa ekki aðeins karlar á besta aldri, heldur einnig konur og börn, gamlir og ungir, og að menn eru ekki jafnt settir í baráttunni fyrir rétti sínum og gæðum lífsins. Á næstu misserum mun ráðast hvort þetta afl hins sterka mun áfram vera ráðandi í stjórn landsins. Í þeim efnum liggur valdið hjá ykkur, áheyrendur góðir.

Ég þakka þeim sem hlýddu.

1