20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í B-deild Alþingistíðinda. (891)

Ákvörðun um fullvirðisrétt

Árni Johnsen:

Herra forseti. Í yfirlýsingu stjórnar landssamtaka sauðfjárbænda er áréttað að á árunum 1984-85 hafi farið fram á vegum búnaðarsambandanna fjárhagsleg könnun á stöðu bænda sem áttu í greiðsluerfiðleikum. Meðal skilyrða sem þeim bændum voru sett sem fengu lánafyrirgreiðslu var að þeir hefðu óskerta framleiðslu næstu tíu árin. Síðan gerist það að með einu bréfi frá Framleiðsluráði er grundvelli kippt undan áframhaldandi búskap margra viðkomandi bænda og þar er kominn mergurinn málsins. Í flestum tilvikum er um að ræða frumbýlinga með góðar byggingar og mikla fjárfestingu. Benda má á að einstöku byggðarlög standa verulega höllum fæti með tilliti til búsetu og við núverandi fullvirðisrétt á þeim svæðum má gera ráð fyrir að byggð fari í eyði. Ef gert er ráð fyrir sömu stefnu varðandi sauðfjárframleiðslu í landinu má ætla að það verði að gera þær kröfur til stjórnvalda að það verði að taka á því og menn verði að gera upp við sig hvar eigi að framleiða það sem hægt er að framleiða í stað þess að láta það viðgangast, eins og er að mínu mati í stöðunni í dag, að drepa alla bændur jafnt. Það er verið að sneiða jafnt og þétt af mönnum í stað þess að takast á við vandann og ef það er óumflýjanlegt að skerða á þann hátt sem gert er verður að taka á því í staðinn fyrir að fljóta sofandi að feigðarósi eins og raun ber vitni.

Ég hef í ræðum á Alþingi bent á að með sókn í markaðsmálum, skipulagningu á nútímalegan hátt sé hægt að snúa vörn í sókn. En það tekur tíma. Það er einnig að mínu mati vandamál í þessu með samtök bænda, sem hafa fjallað um þessi mál í heild, að það hefur verið allt of mikil stífla í pípunum hjá þeim við að fjalla um þau. Það mætti benda á mörg dæmi þess að menn hafa fengið rétt til framkvæmda og bygginga, byggja upp en síðan er framleiðslurétturinn skertur svo að í fjölda tilvika sitja menn uppi með byggingar og fjárfestingu sem eru snara um háls þeirra sem sjálfstæðra bænda. Þess vegna er komið að því að það verður að stokka upp þessi spil kalt og ákveðið. Það verður að losa bændur úr þeirri óvissu sem þeir búa við og hafa gert um langt árabil. Þetta er ekki nokkurra ára bil. Það er uppsafnaður vandi til langs tíma sú þróun sem hefur átt sér stað.