20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1038 í B-deild Alþingistíðinda. (895)

Ákvörðun um fullvirðisrétt

Þórður Skúlason:

Herra forseti. Það er svo sannarlega tímanna tákn að þegar þetta brýna hagsmunamál bænda og alls dreifbýlisins fæst loks tekið upp hér á hinu háa Alþingi skuli teknar til þess heilar 30 mínútur. Einn skitinn hálftími af tíma þingsins er til aflögu til að ræða þetta stóra mál. Þó stóðu fundir í neðri deild aðeins í sjö mínútur í gær þannig að nægur tími er auðvitað til. Það er ekki hægt að bera öðru við. Það er hins vegar jafngreinilegt að það eru einhverjir sem vilja forðast að ræða málið og hafa ekki góðan málstað að verja. Maður getur svo sem rétt ímyndað sér hverjir það eru. Ég vil þó ítreka ósk um að hæstv. landbrh. beiti sér fyrir því að þetta mál verði tekið upp hér í þinginu og það með öðrum hætti.

Ég gæti auðveldlega sagt hér frá og rakið mjög skelfileg dæmi frá mínu héraði um hvernig staðið er að kaupum fullvirðisréttar og ekki síst hvernig staðið er að úthlutun framleiðsluréttar um þessar mundir. Bændur, sem notið hafa sérfræðilegrar aðstoðar við fjárhagslega úttekt búa sinna fyrir örfáum árum og staðið að uppbyggingu samkvæmt því, fá í mörgum tilfellum ekki nema lítinn hluta þess framleiðsluréttar er þeir þyrftu til að standa undir þeirri fjárfestingu er þeir hafa lagt út í samkvæmt sérfræðilegri ráðgjöf. Þessir menn eru með þessum skelfilegu aðgerðum nú gerðir eignarlausir og jarðirnar og byggingarnar einskis virði. Leyfi sveitarstjórnar ætti raunar að þurfa til sölu framleiðsluréttar líkt og sölu fiskkvóta. Í þessu sambandi vil ég vekja sérstaka athygli á því að víða á Norðurlandi vestra og í Strandasýslu er fjöldi smárra búa sem enga skerðingu þola og margar sveitir orðnar svo strjálbýlar að ef einn eða tveir bæir fara úr byggð brestur byggðin. Hún þolir ekki svona áföll.

En þessi aðferð snertir fleiri en sveitirnar. Hún kemur líka niður á ýmsum þéttbýlisstöðum víða um land. Ég nefni t.d. staði eins og Hvammstanga, Blönduós og Sauðárkrók. Þessir staðir allir byggja afkomu sína að verulegu leyti á þjónustu við sveitirnar. Þessi skipulagslausa niðurskurðarstefna bitnar líka á þessum stöðum. Það er núna t.d. verið að tala um að leggja niður mjólkurbú á Sauðárkróki, Blönduósi eða Hvammstanga. Það skeður á sama tíma og það er verið að byggja mjólkurstöð í Reykjavík sem kostar tæpan milljarð. Þessi stefna bitnar allt öðruvísi á þessum litlu þéttbýlisstöðum úti á landi en á borginni. Hún hefur í raun og veru engin önnur áhrif hér en þau að hingað flytur fleira fólk á mölina. Þá vil ég í þessu sambandi líka minna á að ullar- og skinnaiðnaðurinn, sem framleiðir úr hráefnum landbúnaðarins, hefur verið vaxtarbroddurinn í íslenskum iðnaði að undanförnu, ekki stóriðjan. Auðvitað þarf að tryggja þessum iðnaði hráefni.

Þessari aðför að bændum og landsbyggðinni verða bændur að hrinda af höndum sér. Það þarf lengri frest og lengri aðlögunartíma. Sú leið kostar peninga, ég geri mér grein fyrir því, en til lengri tíma litið verður hún ódýrari og farsælli fyrir þjóðarheildina en eyðibýlastefna hæstv. landbrh.