20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1040 í B-deild Alþingistíðinda. (897)

Ákvörðun um fullvirðisrétt

Siggeir Björnsson:

Herra forseti. Ég vissi ekki um að þetta mál yrði rætt hér fyrr en ég gekk inn í þennan sal í dag. Það er sjálfsagt sannast mála að það er ekki margra góðra kosta völ í landbúnaðarmálum nú til að mæta afleiðingum af þeirri offramleiðslu á landbúnaðarafurðum sem raunar er alls ekki séríslenskt vandamál heldur vandamál landbúnaðar um alla Evrópu.

Með vaxandi tækni hefur framleiðslugetan margfaldast. Ráðstafanir Framleiðnisjóðs eða tilboð um kaup á fullvirðisrétti er of seint fram komið. Þetta tilboð hefði átt að koma fram a.m.k. í aprílmánuði s.l. áður en bændur gerðu ráðstafanir til kaupa á rekstrarvörum fyrir sumarið, áburði o.fl. Hey munu nú vera almennt mikil og góð í landinu og eru því lítt seljanleg. Má því segja að þetta tilboð Framleiðnisjóðs sé ekki án frádráttar.

Ég óttast að þessar ráðstafanir geti leitt til skipulagslausrar grisjunar í byggð landsins. Mikil grisjun byggðar getur leitt til þess að of miklir erfiðleikar geta orðið fyrir þá, sem eftir vilja vera og eftir þurfa að vera, á ýmsum sviðum félagslegra verkefna, svo sem heilbrigðismála, skólamála, almennrar menningarstarfsemi og félagsmála sem nauðsynlegt er að halda uppi í hverju sveitarfélagi ef við viljum halda uppi eða stefna að velferðarríki í þessu þjóðfélagi.

Skipulagsleysið á þessum málum virðist vera svo mikið að á sama tíma og talað er um nauðsyn þess að fækka bændum eru dæmi þess að verið er að byggja upp á jörðum, m.a. ríkisjörðum sem hafa verið í eyði sama sem eða alveg í mörg ár þó að búseta hafi verið þar kannske að nafni til. Einhliða stjórnun á framleiðslu sauðfjárafurða eða fullvirðisrétti þeirra leiðir til þess að allur samdráttur í sölu kjötafurða bitnar á framleiðendum sauðfjárafurða þegar til lengdar lætur. Það þarf því að koma á stjórnun í allri kjötframleiðslu í landinu ef stjórnun á að vera á annað borð.

Einn liður í þessum skipulagslausu ráðstöfunum til að minnka framleiðsluna hefði ég talið að ætti að vera að efla Lífeyrissjóð bænda. Með þessum ráðstöfunum verða jarðirnar jafnvel óseljanlegar eða lítt seljanlegar. Það hefði því þurft samhliða þessu og í framhaldi af því að efla Lífeyrissjóð bænda og gera mönnum þannig kleift að geta hætt með reisn sínu lífsstarfi, en árangurinn af því liggur að mestu leyti í umbótum á jörðum þeirra.

Það er því brýnt hagsmunamál að efla Lífeyrissjóð bænda og mín skoðun er sú að til þess þurfi fé úr ríkissjóði. Ég sé heldur ekki annað en að Framleiðnisjóður hefði eins getað lagt fé til þeirra verkefna.