20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1042 í B-deild Alþingistíðinda. (899)

Ákvörðun um fullvirðisrétt

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það er náttúrlega ekki hægt að ræða þessi mál þegar ræðutíminn er tvær mínútur, en ég minni suma hv. þm. á hvernig hefur verið staðið að þessum málum. Árið 1979 var breytt lögum um jarðræktarframkvæmdir og dregið úr styrkveitingu til þeirra og átti að nota það fjármagn sem þannig fékkst til að byggja upp eitthvað annað. Hverjir skyldu hafa verið ráðherrar á þeim tíma þarna á eftir og hvernig var staðið að þessum málum? Landbrh. var hv. þm. Pálmi Jónsson. Fjmrh. á þeim tíma var Ragnar Arnalds. Það var staðið við þetta fyrsta árið og það mun standa upp á ríkissjóð um á annað hundrað milljónir. Það átti að nota þetta fé til að byggja upp eitthvað vegna þess að það blasti þá við að það yrði að draga úr hinni hefðbundnu landbúnaðarframleiðslu. Ég held að menn ættu að muna eftir þessu og taka mið af því og gæta sín dálítið á að ráðast á þann ráðherra sem nú er vegna þess að þeir hafa alls ekki hreinan skjöld í þessu máli.

En það er ágætt að heyra hljóð í sumum af þessum mönnum nú. Það er mikill vandi í landbúnaði. Ég vona að það sé ekki bara í þessari umræðu að menn hafi vilja á því að rétta hlut þeirra sem verst eru settir. Það mun reyna á það. Það er mikill vandi. Það er alveg rétt, sem hér hefur komið fram, að sumar byggðirnar eru að hrynja ef ekki verður brugðið við. Ég treysti núv. hæstv. landbrh. að gera það sem í hans valdi stendur. En hann getur ekki mikið nema það sé stuðningur þingsins við þessi mál. Við skulum láta reyna á það.