20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1042 í B-deild Alþingistíðinda. (900)

Ákvörðun um fullvirðisrétt

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ræður manna bera þess glöggt vitni að þeir hafa skamman tíma. Það er rétt svo að menn geta sagt: Þetta er gagnrýni vert. Það var ekki ég, ekki ég. Mér finnst vera búið að byggja allt of mikið af fjósum. Ég lagði það ekki til o.s.frv.

Sannleikurinn er sá að við eigum sammerkt í því alþm. að við höfum lítt hafst að þó að látlaus ósanngjarn áróður hafi dunið á bændastéttinni árum saman í öllum mögulegum fjölmiðlum. En þeim áróðri hefur lítt verið svarað. Ég held að það væri ágætt að við gæfum okkur góðan tíma til að íhuga þessi mál. Ég hygg að allir flokkar hafi á sinni stefnuskrá að byggja landið allt. En fylgir hugur máli? Við þurfum að taka tíma til að ræða þessi alvörumál nú þegar þessir sérstöku óvissu- og erfiðleikatímar ganga yfir landið. Viljum við byggja landið allt eða ekki? Við slíkar umræður, þar sem menn hefðu svolítinn tíma, væri kannske hægt að rýna í hvað mönnum býr raunverulega í brjósti.