20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1044 í B-deild Alþingistíðinda. (903)

Ákvörðun um fullvirðisrétt

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég held að margt af því sem hér hefur verið sagt í þessari umræðu sýni að menn horfi heldur skammt. Það sem um er að ræða er að hér voru árið 1985 samþykkt lög á Alþingi sem ákváðu þann ramma sem landbúnaðurinn skal búa við. Það var ekki möguleiki á að ganga lengra þar en raun varð á og samningar hafa síðan verið gerðir á grundvelli þessara laga, m.a. tvívegis um kindakjöt. Fyrsta árið sem lögin voru í gildi fór það þannig að bændur þurftu ekki að verða fyrir neinni skerðingu á sinni framleiðslu á kindakjöti. Það var hægt innan marka laganna og samningsins að greiða það að fullu.Ég vitnaði hér áðan í orð framkvæmdastjóra Framleiðsluráðs, þar sem hann telur að það muni verða um 100 tonn að hámarki sem verður umfram samninginn nú á þessu verðlagsári og sambærilegt ætti að verða fyrir þá bændur sem halda áfram framleiðslu á næsta verðlagsári á grundvelli þess samnings sem gerður var í haust og reglugerðin var gefin út í samræmi við hann.

Mér finnst dálítið furðulegt það sem hv. 2. þm. Norðurl. v. segir að hér sé um svo gífurlega blóðtöku að ræða. Ég get ekki skilið það. Og ég get ekki skilið það heldur sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði að bændur þyrftu allir að leggjast á bæn og biðja um hallæri. Það var góðæri, það er óhætt að segja það, það var góðæri á þessu ári og þrátt fyrir það er þetta niðurstaðan, eins og ég gat um, að líkur eru til að það verði tiltölulega mjög lítið sem er umfram verðábyrgðina. Mér sýnist varla hægt að vænta þess að við fáum svo jafngott árferði um allt land aftur eins og var á þessu ári. Það er út frá því sem ég taldi að hér væri verið að mála hlutina of dökkum litum.

Svo virðist líka sem menn hafi lesið þessa reglugerð takmarkað þegar þeir segja að hún taki ekkert mið af búmarki. Úthlutunin eða verðskerðingin til einstaklinganna byggist algerlega á búmarki manna. Hins vegar er það svo að jafnframt er tekið mið af betraársframleiðslu síðustu tvö árin. Og hjá yfirgnæfandi meiri hluta bænda er það svo að þeir fá úthlutað meiri fullvirðisrétti en framleiðslan var lakari árið þannig að þarna er ekki eins mikill munur og árferðissveifla getur haft í för með sér. En slíkt er alltaf mismunandi milli einstaklinga og milli svæða hvernig árferðið er. Ég vil undirstrika það að hér er um lágmarksréttindi að ræða, lágmarkstryggingu sem reynslan hefur síðan sýnt að nokkur viðbót verði við og því er þess að vænta að þarna verði hægt að ná því nokkurn veginn að um takmarkaða eða mjög litla skerðingu verði að ræða.

Ég vil taka undir það að Alþingi styðji bændur sem allra best og vonandi kemur það fram í afgreiðslu hér á Alþingi, þessu Alþingi sem nú situr, í sambandi við málefni landbúnaðarins, að þar verði honum veittur öflugur stuðningur.