20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1065 í B-deild Alþingistíðinda. (921)

160. mál, fræðsla um kynferðismál

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég hef áður tekið til máls um till. mjög svipaða þeirri sem hér er og lýst yfir stuðningi við hana. Ég ætla ekki að fara náið út í þetta mál nú. Það eru, eins og áðan var vakin athygli á hér, ekki margir í þingsal, enda klukkan orðin svo margt. Þetta er sá tími þegar menn eru yfirleitt gersamlega horfnir héðan og aðeins þeir allra samviskusömustu sitja eftir.

Þetta er mál sem mætti vissulega tala mikið um. Það er vitnað í upphafi grg. til þeirra laga sem við samþykktum á Alþingi 1975 um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir og vitnað í þá lagagrein sem máske var megingrunnurinn að því að málamiðlunarsamkomulag tókst um þessa heildarlöggjöf. Við verðum að játa það, sem stóðum að þessari málamiðlun, sumir vildu ganga lengra, það voru ekki allir sammála henni, sumum þótti allt of langt gengið eins og menn þekkja, en við sitjum uppi með að einmitt þessi megingrunnur hefur legið svo hræðilega eftir sem raun ber vitni, fræðsluþátturinn, ráðgjafarþátturinn sem hér er verið að reyna að hnykkja á og ýta á eftir að verði sinnt með sómasamlegum hætti.

Þó er þarna um að ræða ótvíræðan grunn, eins og ég sagði áðan, að þessari viðkvæmu lagasetningu sem enn þá eru um miklar deilur í þjóðfélaginu. Við sem fylgdum þessari málamiðlun og töldum hana æskilega og eðlilega eigum vitanlega í vök að verjast varðandi allt þetta mál sakir þess að þessum þætti er ekki sinnt sem skyldi. Það er vægast sagt, eins og hv. 1. flm. kom inn á, hræðilegt að það þurfi að koma til ótti við óskaplegan sjúkdóm til þess að það sé gert átak í þessum efnum og menn taki við sér af allt öðrum ástæðum til að sinna því sem sett var í lög fyrir rúmum áratug. Vissulega er rétt að hér á ekki að vera um tímabundið átak að ræða heldur þarf að vera samfelld vinna í gangi hjá þeim aðilum sem gleggst geta um þessi mál fjallað og sinnt þeirri fræðslu sem allra best sem hér þarf að vera í gangi og veitt þá ráðgjöf sem er nauðsynleg fyrir það fólk sem þarf á því að halda og við vitum að hefur ekki verið gert, en er brýn þörf á og kannske brýnni nú en nokkru sinni fyrr einmitt vegna þess hræðilega sjúkdóms sem menn skelfast svo mjög yfir, en auðvitað einnig vegna þeirrar löggjafar sem við settum og verðum að standa við.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.