24.11.1986
Neðri deild: 14. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1078 í B-deild Alþingistíðinda. (928)

158. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir felur í sér vissar breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt. Ekki eru þær breytingar róttækar heldur tilraun og tillaga um að skila aftur örlitlum hluta af þeirri auknu skattabyrði sem ríkisstjórnin ákvað á s.l. ári.

Ég ætla mér í þessari ræðu minni, herra forseti, að fara yfir nokkur atriði. Í fyrsta lagi um skattbyrði einstaklinga og hvernig hún hefur þróast. Í öðru lagi það sem hefur gerst í skattamálum í tíð núverandi ríkisstjórnar. Og í þriðja lagi það sem þarf að gerast í skattamálum að mati okkar Alþýðubandalagsmanna.

Ég vík þá fyrst að skattbyrði einstaklinga og hvernig hún hefur þróast. Ég geri ráð fyrir að ríkisstjórnin hafi fengið í hendur eða fjmrh. yfirlit frá Þjóðhagsstofnun, dags. 21. nóv. 1986, sem ber yfirskriftina „Minnisblað um heildarskattbyrði ríkissjóðs 1982-1987.“ Hæstv. fjmrh. nefndi þetta minnisblað ekki í sinni ræðu og þess vegna óhjákvæmilegt að bæta nokkuð úr með því að fara yfir það.

Samkvæmt þessu minnisblaði liggur fyrir að heildarskattbyrði einstaklinga á vegum ríkis og sveitarfélaga var 12,2% af tekjum á árinu 1983. Þetta hlutfall hækkaði nokkuð á árinu 1984, fyrsta heila árinu sem Sjálfstfl. fór með fjmrn. Hlutfallið lækkaði á árinu 1985, en snarhækkar aftur á árinu 1986. Á árinu 1986 lítur dæmið þannig út, miðað við árið 1985, að skattbyrði einstaklinga til ríkisins hækkar úr 3,9% af tekjum upp í 4,9% af tekjum eða um 25,6% milli áranna 1985-1986. Ef sveitarfélögin eru tekin með á árinu 1986 þyngist heildarbyrði einstaklinga af tekjum ársins til ríkis og sveitarfélaga úr 10,4% í 11,8% eða um 13,5% sem er þynging skattbyrði milli áranna 1985 og 1986 þegar lögð er saman sú skattbyrði sem um er að ræða annars vegar á vegum ríkis og hins vegar á vegum sveitarfélaga.

Nú er það boðað og lýst yfir af ríkisstjórninni að það sé verið að lækka skatta. Hvað er til í þessu? Milli áranna 1985 og 1986 þyngdist skattbyrði einstaklinga úr 3,9% í 4,9% af tekjum til ríkisins eða á verðlagi þessa frv., sem við erum að ræða, um 1000 millj. kr., þyngdist um 1 milljarð kr. Núna ætlar ríkisstjórnin að skila aftur af þessari auknu skattbyrði heilum 300 millj. kr. Eftir stendur að meðaltalsskattbyrðin á árinu 1987 til ríkisins verður 4,6% af tekjum einstaklinga á næsta ári eða 0,7% hærri en á árinu 1985 sem nemur um 700 millj. kr. Þetta er nú öll rausnin, þetta er nú allt afrekið við að lækka skattbyrði einstaklinganna í landinu sem mun hafa verið stefnumál Sjálfstfl. fyrir síðustu kosningar, a.m.k. 2. þm. Reykn. og jafnvel fleiri. Niðurstaðan er sú að skattbyrðin milli áranna 1985 og 1986 þyngist og milli áranna 1985 og 1987 þyngist hún líka.

Í tengslum við síðustu kjarasamninga var tekin um það ákvörðun að lækka nokkuð skatta á þessu ári um 150 millj. kr. Sú skattalækkun, sem þá var ákveðin með lögum samhljóða samþykktum hér á hv. Alþingi, er öll tekin aftur.

Ég held í sjálfu sér, herra forseti, að þetta sé alveg nóg til að sýna að í rauninni er hér ekki um að ræða að það sé verið að létta skattabyrði í landinu frá því sem var á árinu 1985. Hér er um að ræða að það er verið að skila aftur þriðjungnum af þeirri hækkun sem varð á skattabyrðinni hlutfallslega milli áranna 1985 og 1986.

Frv. tekur því ekki á neinum vanda. Þetta er frv. til l. um óbreytt kerfi í þessum efnum, lagar í rauninni ekki neitt, og er yfirlýsing um uppgjöf ríkisstjórnarinnar við róttækar kerfisbreytingar í skattamálum. Sjálfstfl. gekk fram fyrir síðustu kosningar undir þeim kjörorðum að hann ætlaði sér að breyta skattakerfinu í grundvallaratriðum. Sjálfstfl. hefur svikið það fyrirheit eins og ýmis önnur og það er alveg ljóst að breytingarnar verða í rauninni hverfandi úr því sem komið er vegna þess að samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar verður að kjósa á næsta ári hvort sem Sjálfstfl. er það ljúft eða leitt.

Hvað hefur verið að gerast í skattamálum á þeim árum frá því að Sjálfstfl. tók við ríkisfjármálunum? Ég ætla að nefna hér nokkur dæmi, herra forseti.

1. Sjálfstfl. felldi niður skatt á ferðamannagjaldeyri sem var 75 millj. kr. á árinu 1983, væri miðað við aðra þróun tekna ríkisins yfir 200 millj. á þessu ári. Hér er um að ræða lækkun á tekjum ríkisins um samtals milli 800 og 900 millj. kr. á kjörtímabilinu. Þetta var það brýnasta sem Sjálfstfl. og Framsfl. fundu í skattamálum því þetta var ákveðið á fyrstu dögum ríkisstjórnarinnar, að fella niður skatt af ferðamannagjaldeyri sem hafði það svo aftur í för með sér að niðurskurður á ýmsum sjóðum eins og Framkvæmdasjóði fatlaðra hefur verið hrikalegur á þessum tíma.

Í öðru lagi hefur það gerst að skattprósenta af verslunar- og skrifstofuhúsnæði hefur lækkað úr 1,4% í 1,1%.

Í þriðja lagi var eignarskattsprósentu breytt í mars 1984 en hún var svo aftur hækkuð með sérstökum lögum um eignarskattsauka á síðasta ári til þess að afla tekna til Þjóðarbókhlöðu sem eru svo með þeim hætti á næsta ári að þær fara ekki nema að hluta til í Þjóðarbókhlöðuna og verða að hluta til geymdar á milli ára.

Í fjórða lagi lækkaði ríkisstjórnin tekjuskatt fyrirtækja úr 65% í 51% en tekjuskatturinn var áður alltaf miðaður við hæsta jaðarskatt einstaklinga.

Í fimmta lagi ákvað ríkisstjórnin að draga frá tekjum vegna fjárfestingar eða til þess að kaupa hlutabréf.

Í sjötta lagi var dregið úr skattskyldu innlánsstofnana sem lækkaði skattgreiðslur banka til ríkissjóðs um u.þ.b. 500 millj. kr., á verðlagi ársins 1986, fyrir árin 1984-1986.

Í sjöunda lagi ákvað ríkisstjórnin að lækka tekjuskatt 31. des. 1984 um 600 millj. kr. en á móti kom hækkun áfengis og tóbaks umfram verðlagsforsendur og 1/2% söluskattur sem gaf samtals um 600 millj. kr. þannig að þarna var ekki um að ræða raunverulega skattalækkun.

Í áttunda lagi hefur svo ríkisstjórnin stöðugt hækkað söluskattinn. Fyrst úr 23,5% frá árinu 1980 í 24% í ársbyrjun 1985 og síðan aftur í 25% í tengslum við tekjuöflun til húsnæðismála, en sú upphæð sem þar átti að ná, 700-800 millj. kr., fer nú öll í ríkissjóð.

Hér er um að ræða afrekin. Það er listi yfir afrek Sjálfstfl. í skattamálum á þessu kjörtímabili og það er ástæða til þess að óska Sjálfstfl. til hamingju með þennan glæsilega árangur foringja sinna í skattamálum.

Í rauninni hefur það verið svo á þessu kjörtímabili að einu áhugamál Sjálfstfl. í sambandi við skattamál hafa verið þau að minnka skattbyrði á fyrirtæki og opna fyrir skattafrádrætti vegna fjárfestingar og hlutabréfakaupa. Þá hefur hann fellt niður og dregið úr skattskyldu innlánsstofnana og banka í þjóðfélaginu og hann hefur fellt niður skatt, eins og skatt á ferðamannagjaldeyri, rétt eins og það væri forgangsverkefni í skattamálum. Þetta er það sem hefur verið að gerast. En hvað er það sem þarf að gerast í skattamálum? Ég held að höfuðverkefnið í íslenskum skattamálum núna eigi að vera að grisja verulega frádráttafrumskóg fyrirtækja og einstaklinga og hækka að verulegu marki almenn skattfrelsismörk.

Ég ætla aðeins að víkja að frádráttarheimildum fyrirtækja. Fyrirtæki hafa í dag heimild til þess að færa niður 5% útistandandi viðskiptaskulda til frádráttar frá tekjum um áramót. Þau hafa í dag heimild til að færa niður matsverð vörubirgða um áramót um 10%. Þau hafa í dag heimild til að draga frá 10% af tekjum vegna arðgreiðslna til hluthafa. Þau hafa í dag rýmri heimildir til fyrningar heldur en áður var - það er eitt af afrekum núverandi ríkisstjórnar að fyrningartíma véla og tækja var breytt verulega fyrirtækjunum í hag. Fyrirtækin hafa heimild til að draga frá allt að 40% í fjárfestingarsjóð og þau hafa áfram heimild til þess að draga frá allt að 20% í varasjóð.

Fyrsta verkefnið sem ætti að ganga í í sambandi við tekju- og eignarskattslögin væri að draga úr þessum frádráttum og afnema suma þeirra algerlega. Að því er varðar tekjuskatt einstaklinga er einnig um það að ræða að þeir eru í sumum tilvikum með frádráttarheimildir sem eru notaðar til þess að stuðla að launamismunun í fyrirtækjunum. Hér á ég sérstaklega við ökutækjastyrkina sem eru orðnir mjög útbreiddir og þýða í tekjutap fyrir ríkissjóð mjög stórar upphæðir á ári nú orðið. Ég hef ekki við hendina þessar tölur en hér er um að ræða mjög stórar tölur sem sjálfsagt teljast í tugum milljóna króna í beint tekjutap fyrir ríkið. Fyrsta verkefnið á að vera að ráðast á þennan frumskóg, frádráttafrumskóg fyrirtækjanna fyrst og fremst, og í beinu framhaldi af því að frádráttafrumskógur einstaklinganna verði athugaður og grisjaður eitthvað líka, á að taka ákvörðun um að hækka tekjuskattfrelsismörk einstaklinganna og láta fyrirtækin, sem bera mjög lága skatta hér á landi, láta þau bera það tap sem ríkissjóður verður fyrir vegna hækkaðra tekjuskattfrelsismarka einstaklinga.

En fleira, herra forseti, verður að koma til í þessu efni. Ég held að einn stærsti vandi skattakerfisins hér á landi sé sá að það verkar flókið, óskiljanlegt og óskýrt fyrir einstaklinga. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að kanna mjög rækilega, og ég mun flytja um það sjálfstæða tillögu við meðferð þessa máls, að einstaklingar geti heimilað skattyfirvöldum og skattstofum að ganga frá framtölum sínum að talsverðu leyti ef menn kjósa að hafa það svo. Skattstofur eiga aðgang að upplýsingum frá opinberum stofnunum, geta átt aðgang að upplýsingum frá bönkum og sparisjóðum og slíkum aðilum. Í Danmörku hefur þetta kerfi verið tekið upp frá og með næstu áramótum sem þýðir það að framtölum einstaklinga, hinum flóknu, smásmugulegum framtölum einstaklinga mun fækka um a.m.k. helming vegna þess að ríkið hefur hvort eð er aðgang að þessum upplýsingum annars staðar frá ef framteljendur kjósa að hafa það svo. Ég held að þetta sé í rauninni gífurlega stórt atriði til þess að gera skattakerfið aðgengilegra fyrir einstaklingana í landinu en það er nú.

Annað atriði sem ég vil hér nefna, og hef í hyggju að flytja um sérstaka tillögu, er um upplýsingaskyldu banka, sparisjóða, verðbréfamiðlara, fasteignasala og annarra skyldra aðila til skattyfirvalda, og að þessir aðilar, ótilkvaddir, sendi skattstjórum eða umboðsmönnum þeirra skýrslur um greiðslur fyrir fjármuni hvort sem um er að ræða vaxtatekjur eða vaxtagjöld, verðbætur á skuldir og innstæður, dráttarvexti, innheimtukostnað, afföll eða annars konar greiðslur fyrir fjármuni sem þessir aðilar lána eða taka á móti eða þá þjónustugjöld þessara stofnana.

Þessi upplýsingaskylda banka og annarra innlánsstofnana væri um leið forsenda fyrir því að unnt væri að skattleggja fjármagnstekjur í landinu. Þar höfum við Alþýðubandalagsmenn rætt um að miða við að fjármagnstekjur umfram tiltekin raunvaxtamörk verði skattskyldar og skattlagðar. Við teljum óeðlilegt, meðan svo er háttað að launamenn verða að tíunda hverja einustu krónu sem þeir fá í kaup, að fjármagnið geti skilað tekjum án þess að það þurfi að borga af þeim skatt. Forsenda þess aftur að leggja skatt á fjármagnstekjur er sú að kveðið verði á um framtalsskyldu þessara stofnana, innlánsstofnana, gagnvart skattyfirvöldum, þannig að þau viti hvað einstaklingar fá eða greiða eftir atvikum í fjármagnstekjur.

Í ályktun miðstjórnarfundar Alþb., sem var haldinn fyrir nokkru, má segja að fram hafi komið í skattamálum sex áhersluatriði:

Frádráttarheimildum fyrirtækja og einstaklinga í rekstri verði fækkað.

Skattfrelsismörk einstaklinga verði hækkuð mjög verulega.

Komið verði á stighækkandi stóreignarskatti. Tekið verði upp staðgreiðslukerfi skatta. Skatteftirlit verði hert, viðurlög við skattsvikum verði látin bíta í raun og settur upp skattadómstóll. Og í síðasta lagi að einstaklingar með rekstur, sem verða uppvísir að skattsvikum, missi rekstrarleyfi.

Hér hef ég, herra forseti, farið yfir nokkur almenn atriði varðandi breytingar á skattakerfinu sem ég tel óhjákvæmilegt að halda til haga um leið og þetta mál er til umræðu hér.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu að sinni, herra forseti, en bendi á eitt atriði að lokum. Alþýðusamband Íslands hefur gert samþykktir í skattamálum sem voru til meðferðar á fundum verkalýðssamtakanna núna um helgina. Þar eru uppi tillögur um verulega einföldun á skattakerfinu, m.a. um það að sameina útsvar, tekjuskatt og fleiri opinber gjöld í einn álagningarþátt. Ég held að það væri miklu skynsamlega fyrir hv. Alþingi nú að fá þessar tillögur inn á borð þingnefnda og þingsins til þess að fara yfir þær og meta þær, fremur en að vera að eyða tíma næstu daga í að ganga frá þessu frv. eins og það er vegna þess að þó að það skili aftur broti af því sem ríkisstjórnin oftók í sköttum á s.l. ári, þá felst ekki í þessu frv. sú róttæka kerfisbreyting sem þarf að eiga sér stað í skattamálum hér á landi og á að hafa það að markmiði að stuðla að jöfnuði, að stuðla að réttlæti og því að skattakerfið sé einfalt, hagkvæmt og ódýrt fyrir þjóðina og sé traust undirstaða undir samneyslu og félagslega þjónustu.

Ég mun því fyrir mitt leyti í þeirri nefnd sem fjallar um málið, fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar, óska eftir því að fulltrúar Alþýðusambands Íslands, sem hafa fjallað um skattamál undanfarna daga, verði kallaðir á fund nefndarinnar og beðnir að gera grein fyrir tillögum sínum, og það verði athugað hvort unnt er í nefndinni og hér í þinginu yfirleitt að ná víðtækri samstöðu um róttækari breytingar, raunverulegar breytingar á skattakerfinu í staðinn fyrir það frv. sem hér liggur fyrir sem nær allt, allt of skammt.