24.11.1986
Neðri deild: 14. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1099 í B-deild Alþingistíðinda. (933)

177. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Flm. (Jón Magnússon):

Herra forseti. Ég var farinn að örvænta um að fá tækifæri til að mæla fyrir því frv. á þskj. 187 sem við Bessí Jóhannsdóttir flytjum, svohljóðandi:

„1. gr.: E-liður 1. mgr. 30. gr. laganna, sbr. lög nr. 25/1986, falli brott," þ.e. lög um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sbr. lög nr. 25 1986, og „2. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Þar sem um er að ræða stuttan tíma ætla ég ekki að rekja frá orði til orðs hvað hér er verið að leggja til, en það sem í stuttu máli má segja er að það er verið að leggja til að heimild til handa landbrh. til að leggja allt að 200% gjald á tollverð innfluttra kartaflna eða vara unninna úr þeim verði fellt niður. Þ.e. þessi heimild verði afnumin.

Á s.l. vori urðu miklar umræður um þessa lagasetningu á Alþingi. Helstu rök sem komu fram fyrir þeirri lagasetningu í grg. og framsögu landbrh. voru þau að í ýmsum tilvikum væru þær vörur sem hér um ræðir og fluttar væru inn niðurgreiddar verulega af stjórnvöldum útflutningslandanna og í öðru lagi að þegar innlend framleiðsla væri enn á markaði, en innflutningur þyrfti samt að verða, raskaði innflutningur á lægra verði mjög samkeppnisaðstöðu innlendu framleiðslunnar og skerti möguleika hennar til að tryggja nægjanlegt vöruframboð til frambúðar. Þessar aðstæður hefðu m.a. gert innlendum fyrirtækjum, sem vinna úr kartöflum, erfitt fyrir í samkeppni við niðurgreidda erlenda framleiðslu. Þá var því jafnframt lýst af forsrh. að frv. væri eingöngu flutt til að heimild fengist til að vernda innlenda framleiðslu á kartöflum þegar um óeðlilega verðfellingu væri að ræða erlendis.

Ég hafði ætlað mér í þessari framsögu að rekja nokkuð þau ummæli sem hæstv. landbrh. og hæstv. forsrh. höfðu uppi á þingi, bæði í Ed. og Nd., þegar þessi lagasetning var til umræðu á s.l. vori, en þar sem tíminn er knappur vil ég aðeins geta nokkurra atriða. Yfirlýsingar hæstv. landbrh. og forsrh. voru þess eðlis að í fyrsta lagi skyldi ekki lagt á umrætt jöfnunargjald nema meðan svo stæði á að innlend framleiðsla væri til sölu jafnframt erlendri. Það gerði það að verkum samkvæmt yfirlýsingum nokkurra þm., m.a. Ragnars Arnalds, að þeir lýstu yfir stuðningi við umrætt frv. Jafnframt var því lýst yfir að það þyrftu að koma til sérstakar aðstæður, þ.e. verðfellingar erlendis, þ.e. að um væri að ræða niðurgreiðslur. Nokkrir þm. hafa komið með fyrirspurn þar sem þeir beina því til hæstv. landbrh. að svara því hvort um verðfellingu á innfluttum kartöflum hafi verið að ræða s.l. sumar.

Vegna þessara ummæla ráðherranna er óhjákvæmilegt annað en að gera í stuttu máli grein fyrir því hvað gerðist, hvernig jöfnunargjaldið var lagt á og hvenær það var lagt á. Það var þann 25. júní s.l. sem landbrh. lagði jöfnunargjald á innfluttar kartöflur og vörur unnar úr þeim. Á þeim tíma voru til um tíu daga birgðir af óunnum innlendum kartöflum frá því á árinu áður.

Þann 9. júlí skrifaði ég grein í Morgunblaðið þar sem ég spurði ráðherra spurninga varðandi álagningu jöfnunargjaldsins og hvort það yrði fellt niður, en þá voru birgðir innlendra kartaflna ekki lengur fyrir hendi.

Jöfnunargjaldið stóð síðan áfram þannig að það er ljóst að sú yfirlýsing hæstv. landbrh. að álagning gjaldsins kæmi eingöngu til meðan um væri að ræða sölu á innlendum kartöflum jafnframt innfluttum gilti hreinlega ekki. Jöfnunargjaldið var lagt á engu að síður.

Verslunarráð Íslands mótmælti jöfnunargjaldinu og benti á að það væri ekki til komið vegna verðfellingar á óunnum kartöflum. Það væru staðlausir stafir. Enn hefur ekki verið sýnt fram á að um það hafi verið að ræða.

Þá vil ég jafnframt geta þess að Neytendasamtökin mótmæltu sérstaklega verðhækkun á kartöflum sem átti sér stað í kjölfar þess að jöfnunargjaldið var lagt á. Bent var á að hækkun á kartöflum næmi um 100% umfram matvöruvísitölu. Í viðtali við formann samtakanna, Jóhannes Gunnarsson, segir hann, það birtist í Þjóðviljanum 15. ágúst 1986, með leyfi forseta:

„Það er mitt mat að skrifa megi hækkað kartöfluverð til neytenda fyrst og fremst á reikning kartöfluframleiðenda sem hafa nýtt sér þetta tækifæri, þ.e. álagningu jöfnunargjaldsins.“

Í Tímanum miðvikudaginn 13. ágúst kemur fram að kartöfluverð hækkaði um 221% á einu ári. Í því ágæta blaði, Tímanum, 13. ágúst 1986, með leyfi forseta, er talað um hvorki meira né minna en kartöfluokur og bent á að hækkun á kartöflunum hafi í raun hækkað framfærsluvísitöluna um 0,31% . Í sama blaði þann 26. ágúst er síðan getið um það, með leyfi forseta, að danskir kartöflubændur fengju ekki nema 1/6 fyrir sína framleiðslu miðað við það sem íslenskir bændur fengju fyrir sína, þ.e. 6,84 kr. fyrir kílóið meðan íslenskir kartöflubændur fengju í kringum 33 kr.

Loks vil ég geta, með leyfi forseta, ummæla Ólafs Sveinssonar fjármálastjóra Ágætis sem sagði um álagningu jöfnunargjaldsins: „Þessi skattheimta er að mínu mati algerlega tilgangslaus. Jöfnunargjaldið er eingöngu skattheimta á neytendur án þess að hún komi framleiðendum á nokkurn hátt til góða.“

Ég vek athygli á þessum ummælum sérstaklega vegna þess að ég hygg að það sé komið óyggjandi í ljós að jöfnunargjaldið og álagning þess hefur leitt af sér verðhækkun til neytenda. Það hefur ekki staðist ein einasta röksemd af þeim sem ráðherrar, sem tjáðu sig um málið, landbrh. og forsrh., höfðu fram að færa þegar málið var til umræðu. Það er ekki hægt að segja annað með fullri virðingu fyrir þessum ágætu ráðherrum en að þeir hafi beitt blekkingum, sennilega annar vísvitandi, til að reyna að knýja þetta frv. fram.

Síðan kemur annað. Það er að með reglugerð nr. 451 frá 30. okt. 1986 er gerð breyting á þessu ákveðna jöfnunargjaldi. Þar segir í 1. gr.:

„Undanþegið gjaldskyldu samkvæmt reglugerð þessari eru kartöflur og vörur unnar úr þeim, enda séu þær fluttar inn sem hráefni til innlendrar iðnaðarframleiðslu og fyrirsvarsmaður viðkomandi fyrirtækis lýsi því yfir á aðflutningsskýrslu við tollafgreiðslu hverju sinni að varan sé eingöngu flutt inn til að nota við framleiðslu fyrirtækisins.“

Ég sé ekki betur en að þessi reglugerð þýði að um verði að ræða aukin innkaup á ferskum kartöflum frá útlöndum sem hráefni fyrir innlendar kartöfluverksmiðjur á kostnað bænda sem gjaldið átti þó upphaflega að vera til verndar. Í öðru lagi að innkaup á kartöfludufti frá útlöndum, sem pakkað væri í minni umbúðir innanlands, yrði eftir tilkomu þessarar reglugerðar líka til tjóns fyrir þá sem sagt var í upphafi að gjaldið ætti að vera til að vernda. Í þriðja lagi má benda á að ýmsir stærri notendur kartaflna, svo sem t.d. stærri veitingahús, geta með þessari reglugerð beint viðskiptum sínum til erlendra heildsala og fengið eftirgefið jöfnunargjaldið með yfirlýsingu um notkun til framleiðslu í eigin fyrirtæki. Ég bendi á þetta í lokin til að sýna fram á hversu hættulegt er að heimila ráðherra geðþóttaákvörðun um álagningu skatta sem þessara. Þarna er um að ræða mjög mikilvæga neysluvöru sem svo til óteygin eftirspurn er eftir. Það er ljóst að eftir að jöfnunargjaldið var lagt á hefur það leitt til verulegra verðhækkana til neytenda. Það er lagt á algjörlega án þess að nokkurt tilefni gefist vegna verðfellingar erlendis.

Ég held því fram að í raun hafi verið við það miðað að leggja þetta jöfnunargjald á til að halda lífi í tveimur kartöfluverksmiðjum. Það getur út af fyrir sig verið góðra gjalda vert, en þegar það liggur fyrir að afleiðingar álagningar jöfnunargjaldsins þýða í raun að það kostar um 200 millj., er útgjaldaaukning fyrir atvinnureksturinn í landinu og þá um leið neytendur, í kringum 200 millj. á einu ári, þá er hreinlega spurningin hvort ekki sé einfaldara að leggja þessar verksmiðjur niður og borga þeim laun sem við það vilja starfa því að mér sýnist að það mundi jafnvel vera ódýrara fyrir þjóðarbúið en að halda áfram framleiðslu sem þessari.

Um leið og ég segi þetta geri ég mér fyllilega grein fyrir því að lítil þjóð með lítinn markað verður að halda uppi ákveðinni verndarstefnu til þess hreinlega að ákveðinn iðnaður leggist ekki niður. En það verður að gæta hófs í öllu og það verða allir, framleiðendur sem aðrir, að njóta eðlilegs aðhalds. Þarna keyrir út yfir allan þjófabálk. Af þeim ástæðum sem ég hef nú lýst leyfi ég mér að flytja umrætt frv. ásamt hv. 10. þm. Reykv.

Ég fer fram á, þar sem þetta jöfnunargjald er í raun lagt á til að stuðla að rekstri tveggja iðnfyrirtækja, að máli þessu verði vísað til hv. iðnn.