25.11.1986
Sameinað þing: 21. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í B-deild Alþingistíðinda. (961)

106. mál, innflutningur búfjár

Flm. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 109 um endurskoðun laga um innflutning búfjár, en flm. ásamt mér er hv. þm. Davíð Aðalsteinsson. Till. er á þá leið:

„Alþingi ályktar að fela landbrh. að skipa nú þegar nefnd er hafi það hlutverk að endurskoða lög um innflutning búfjár, nr. 74/1962. Endurskoðun laganna taki mið af þeim breytingum sem orðið hafa á tækni við flutning erfðaefnis búfjár og athuguð verði sérstaklega sú grein laganna sem varðar tegundir nautgripa sem innflutningur er heimill á.

Nefndin ljúki störfum fyrir 1. mars 1987.“ Tillaga samhljóða þessari var flutt á síðasta þingi og hlaut þá ekki afgreiðslu.

Þessi tillöguflutningur felur í sér tvö meginatriði sem endurskoðun laganna á að stefna að. Það er í fyrsta lagi að nútímatækni sé notuð til að ná skjótum árangri í ræktun nautgripa og í öðru lagi að leyfilegt verði að flytja inn fleiri nautgripakyn en Galloway-nautgripi, en það er það eina kyn sem leyfilegur er innflutningur á nú.

Það má spyrja hverjar séu ástæður fyrir þessum tillöguflutningi. Það er þá fyrst til að taka að það er skoðun flm., og byggjum við þar á viðtölum við bændur sem stunda nautgriparækt og sérfróða menn á þessu sviði, að þessi leið tryggi skjótari árangur í nautgriparæktinni og fleiri kyn tryggi hagkvæmari búskap og vöru sem fellur fremur í geð neytenda en það nautakjöt sem nú er boðið upp á. Nautakjöt af fleiri nautgripakynum falli betur að þörfum markaðarins en kjöt af Galloway-stofni.

Það skal undirstrikað að með þessum tillöguflutningi um endurskoðun laga um innflutning búfjár er alls ekki ætlast til þess að horfið sé frá öryggiskröfum um sóttvarnir né að því kerfi, sem byggt hefur verið upp, sé kastað fyrir róða. Hér er aðeins verið að fylgja kalli tímans hvað varðar tækni og hvað varðar gæði þeirrar vöru sem verið er að framleiða. Ef notuð eru frjóvguð egg eða fósturvísar í stað sæðisflutninga tryggir það skjótan árangur og hreinan grip við fyrsta burð og varan getur verið komin á borð neytandans um sjö mánuðum þar á eftir. Ræktun með gömlu aðferðinni tekur um tíu ár og vert er að benda á að heimildarlögin um innflutning búfjár eru frá 1962. Sæðisflutningur krefst fjölda gripa og er afar kostnaðarsamur einmitt vegna þess langa tíma sem hann tekur.

Ég vil einnig nefna örfá rök fyrir því að leyfa innflutning fleiri tegunda en Galloway-nautgripa hér á landi. Reynslan hefur sýnt að Galloway-blendingar út af íslenskum kúm ná ekki nægilegum sláturþunga fullvaxnir og er því hvert kíló af kjöti ákaflega dýrt í framleiðslu. Önnur nautgripakyn hafa stærri vöðva, og það er einmitt slíkt kjöt sem veitingahúsamarkaðurinn þarfnast, en á hann er mikið selt af nautakjöti sem framleitt er hérlendis og meiri hlutinn.

Þau rök hafa heyrst fyrir ræktun Galloway-nautgripa hér á landi að við þurfum sérstaklega harðger kyn hérlendis eins og Galloway er. Nautgriparækt með útigangi verður ekki stunduð hérlendis og það ætti ekki að verða markmið.

Það kunna ýmsir að segja sem svo að tíminn til þessa tillöguflutnings nú sé einkennilega valinn þar sem við mikinn offramleiðsluvanda er nú að etja í nautakjöti. Ég get ekki tekið undir það, þó að vandi steðji að um sinn í þessari grein, að það eigi að halda að sér höndum og halda þessari framleiðslugrein í spennitreyju einhæfni og gefa bændum ekki möguleika á að framleiða vöru sem hentar markaðnum. Það verður í þessari grein sem öðrum að líta til framtíðar og skapa almenn skilyrði til þess að nautakjötsframleiðsla geti orðið gildandi sem ein grein landbúnaðarframleiðslunnar þó að nú steðji að erfiðleikar þar eins og í öðrum greinum hennar. Vandamál dagsins í dag mega ekki koma í veg fyrir eðlilega þróun í þessum efnum. Mér er kunnugt um að vöðvabygging íslensku nautgripanna hefur komið í veg fyrir að kjöt hafi gengið eins vel á veitingahúsamarkaði og vænst var.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þessa till. að sinni, en óska eftir því að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til atvmn.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.