25.11.1986
Sameinað þing: 21. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1116 í B-deild Alþingistíðinda. (963)

132. mál, könnun á búrekstraraðstöðu

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál., sem er á þskj. 138, um könnun á búrekstraraðstöðu. Tillgr. er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fara fram á fyrri hluta þessa árs 1987 samræmda könnun á búrekstraraðstöðu einstakra jarða og byggðarlaga um land allt.

Markmiðið með slíkri búrekstrarkönnun verði að safna upplýsingum um framleiðsluaðstöðu á einstökum jörðum, svo og um áform ábúenda og hugmyndir sveitafólks varðandi nýsköpun í atvinnulífi og breytingar á búháttum í dreifbýli í náinni framtíð.

Könnunin verði m.a. við það miðuð að unnt sé að nota þær upplýsingar sem safnast við mótun svæðaskipulags í landbúnaði þar sem tekið er tillit til aðlögunar hefðbundins búskapar að landgæðum og markaði, nýtingar arðbærra hlunninda og uppbyggingar nýrra búgreina. Jafnframt ætti könnunin að leiða í ljós stöðu einstakra byggðarlaga og verða leiðbeinandi um aðgerðir til að viðhalda byggðinni.

Við framkvæmd búrekstrarkönnunarinnar verði leitað aðstoðar búnaðarsambanda og héraðsráðunauta og hagnýttar niðurstöður úr könnun sem gerð var á árinu 1986 á Norðurlandi að frumkvæði Ræktunarfélags Norðurlands.

Landbrh. kynni Alþingi meginniðurstöður þessarar könnunar eigi síðar en haustið 1987 svo að unnt sé að móta aðgerðir með hliðsjón af henni á næsta þingi.

Kostnaður vegna könnunarinnar greiðist úr ríkissjóði.“

Þetta er sjálf tillgr., en með henni fylgir grg. þar sem vikið er að þeirri mjög svo alvarlegu stöðu sem ríkir í landbúnaði, í hefðbundnum búgreinum alveg sérstaklega, og hvernig þar hefur allt verið látið reka á reiðanum, svo og að stjórnvöld hafa látið undir höfuð leggjast að taka á þessum málum stjórnunarlega þannig að viðhlítandi sé. Í rauninni hafa erfiðleikarnir þvert á móti vaxið vegna aðgerða stjórnvalda og eiga þær aðgerðir sem gripið hefur verið til í framhaldi af setningu framleiðsluráðslaganna 1985 ríkan þátt í þeirri stöðu sem bændastéttin nú stendur frammi fyrir.

Með grg., sem fylgir þessari þáltill., er fskj. Það er grein eftir Gunnar Guðbjartsson, framkvæmdastjóra Framleiðsluráðs landbúnaðarins, grein sem hann ritar í Árbók landbúnaðarins 1985, en hún kom út á þessu ári. Grein sína nefnir Gunnar Guðbjartsson „Örlagatímar“ og dregur þar fram mat sitt á stöðunni í landbúnaðinum í framhaldi af setningu búvörulaganna 1985 og dregur þar ekkert undan. Hann er þar skorinorður eins og oftast áður.

Ég ætla, herra forseti, að rökstyðja nokkrum orðum frekar nauðsyn þess að ráðist verði í þá könnun á búrekstraraðstöðu sem ég mæli hér fyrir. Það er alveg nauðsynlegt, ef menn ætla að taka á vanda hinna hefðbundnu greina og skipuleggja uppbyggingu nýrra búgreina og ýta þar með undir þá nýsköpun sem þarf að verða í sveitum landsins, að menn hafi skýra vitneskju um hvert er ástandið, hver er staðan, til hvers stendur vilji heimafólksins. Það kann að hljóma einkennilega að ekki skuli liggja fyrir skýrar og skilmerkilegar upplýsingar um hvernig háttar til á einstökum jörðum í landinu varðandi framleiðslu, framleiðsluaðstæður og möguleika til búháttabreytinga, svo og ýmsar félagslegar aðstæður á einstökum jörðum sem snerta möguleikana á ættliðaskiptum í sveitunum, að yngri menn taki við af eldri svo að dæmi séu nefnd. En ástandið er svona.

Fyrir utan Norðurland, þar sem gert var átak að frumkvæði heimamanna á þessu ári, skortir á skilmerkilegar upplýsingar um stöðuna í sveitum. Úr þessu verður að bæta ef menn ætla að taka málin öðrum tökum en nú er gert. Það verður að fást viðspyrna til þess að taka þar öðruvísi á málum því að núverandi stefna í landbúnaði gagnvart hefðbundnum greinum og handahófi varðandi nýjar búgreinar er feigðarflan. Eitt aðalumræðuefni á fundum þar sem bændur koma saman er það voveiflega ástand sem við blasir víða í sveitum og hættan á hruni heilla byggðarlaga í kjölfar ákvarðana stjórnvalda í framhaldi af setningu búvörulaganna 1985.

Bændur hafa áreiðanlega fullan hug á að knýja fram breytingu á þessari stefnu, en til þess að svo verði þurfa stjórnvöld að taka undir með jákvæðum hætti í stað þess að reyra þar allt í viðjar og láta reiknistokkinn um að reikna bændur niður og út á gaddinn marga hverja eins og gerst hefur með stjórnunaraðgerðum núverandi ríkisstjórnar og þeim reglugerðum sem hæstv. landbrh. hefur sett og þar sem niðurstöðurnar hafa verið að berast bændum nú, sauðfjárbændum síðast, á grundvelli reglugerðar sem rætt var um utan dagskrár í síðustu viku varðandi framleiðslu sauðfjárafurða á komandi verðlagsári 1987-1988. Það er knýjandi að fyrir liggi töluleg gögn og skýrar upplýsingar um hugmyndir fólksins á einstökum jörðum í landinu og í einstökum byggðarlögum þannig að unnt verði að taka vitrænt og skipulega á þeim vanda sem vissulega blasir við í landbúnaðinum.

Það hefur verið safnað upplýsingum um ýmsa þætti á liðnum árum, eins og vikið er að í grg, með þessari þáltill., en það blasir við að lítið hefur verið gert með þessa upplýsingaöflun. Henni hefur ekki verið haldið til haga eða úr henni unnið í því formi að það megi koma að gagni við þá stefnubreytingu sem þarf að verða í stjórnun landbúnaðarmálanna. Það hefur verið safnað ýmsum upplýsingum, m.a. á vegum Búnaðarfélagsins, Framleiðsluráðs og Fasteignamats ríkisins, en þessar upplýsingar hafa ekki verið hagnýttar og þær hafa ekki verið sniðnar að þörfinni á að taka öðruvísi á landbúnaðarmálunum en stjórnvöld hafa staðið fyrir á undanförnum árum og viljinn til þess að bæta úr þessu hefur verið lítill sem enginn.

Ég vænti þess að hv. Alþingi geti tekið undir þessa þáltill. Menn geta varla haft á móti því að aflað verði upplýsinga um þau atriði sem hér er lagt til og ég held að menn hljóti að átta sig á að það er knýjandi að það verði enginn dráttur á þessu starfi því að sú ríkisstjórn sem tekur við að kosningum loknum þarf að hafa aðstöðu til þess að taka á málefnum sveitanna og sveitafólksins með allt öðrum hætti en gerst hefur í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það er beinlínis spurningin um líf eða dauða í heilu byggðarlögunum á landinu og hjá fjölda bænda sem nú standa frammi fyrir lítt ef ekki óleysanlegu dæmi margir hverjir.

Sá niðurskurður á verðábyrgð og sá takmarkaði fullvirðisréttur sem bændum hefur verið úthlutað að undanförnu veldur því að fjölmargir sjá ekki fram úr sínu fjárhagsdæmi, sjá ekki fram úr erfiðleikunum. Vinnubrögðin í þessum efnum voru rædd í síðustu viku hér á Alþingi. Þar tjáðu sig margir þm. um málið og flestir gagnrýndu harðlega þau vinnubrögð sem hér hafa verið viðhöfð. Það er heldur ekki hægt annað en gagnrýna þetta. Hvernig má það vera að bændum séu sendir slíkir skömmtunarseðlar eftir að sláturtíð er lokið, eftir að þeir hafa tekið ákvarðanir um ásetning komandi árs og þann samdrátt sem nemur í vissum tilvikum hundruðum ærgildisafurða?

Ég veit að á Austurlandi, þar sem sauðfjárrækt er víða undirstaðan undir búskap í heilum sveitum, standa menn nú nánast ráðþrota frammi fyrir því dæmi sem þarna liggur fyrir og spyrja: Á þetta yfir okkur að ganga? Ég held að það sé þarft og hollt fyrir stjórnvöld að fá inn á sitt borð skilmerkilegar upplýsingar um aðstöðuna á einstökum jörðum, í einstökum sveitum þegar saman er lagt og átta sig á með hvaða hætti öðrum er unnt að bregðast við en þeirri sveltistefnu sem stjórnvöld hafa staðið fyrir á undanförnum árum.

Stefna Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og ráðstöfun á fjármagni hans að undanförnu með kaupum og leigu á fullvirðisrétti, algerlega skipulagslaust, er svo kafli út af fyrir sig sem fellur inn í þá mynd sem við blasir í sveitum, þar sem það er algerlega lagt í vald viðkomandi bónda hvað hann gerir án tillits til nágrannanna, án tillits til stöðu sveitarfélagsins. Menn óttast að byggðin verði enn grisjuð og það verði ekki þær jarðir sem kannske væri réttlætanlegt að taka úr búskap, þar sem menn hætta búrekstri eða leigja sinn rétt eða selja sinn rétt, heldur kannske ágætar bújarðir sem þannig eru teknar úr ábúð.

Herra forseti. Ég vildi aðeins víkja í sambandi við þessa till. að þeim þætti sem snýr að sölumálum afurðanna, alveg sérstaklega sauðfjárafurðanna. Landssamtök sauðfjárbænda hafa undanfarið sent stjórnvöldum erindi í þeim efnum og sent frá sér ályktanir þar sem harðlega er gagnrýnt hvernig staðið hefur verið af stjórnvalda hálfu og af hálfu söluaðila, þá fyrst og fremst búvörudeildar Sambands ísl. samvinnufélaga, að sölumálum á dilkakjöti. Undir þá gagnrýni og ábendingar hefur verið tekið af Framleiðsluráði landbúnaðarins, m.a. í bréfi sem hæstv. landbrh. var ritað af framleiðsluráðinu 7. nóv. s.l. þar sem dregin var upp sú erfiða staða varðandi birgðahald á dilkakjöti sem við blasir og sem fram undan virðist vera að óbreyttu.

Ég minni á þetta vegna þess að það ætti að vera sjálfsagt kappsmál stjórnvalda að reyna að lina þann hnút sem verið er að reyra að bændastéttinni með því að standa fyrir og styðja við myndarlegt söluátak og láta virkilega á það reyna hvort ekki er unnt að koma a.m.k. hluta af þessum miklu birgðum, sem hafa verið að safnast upp og munu væntanlega safnast upp á næstunni, út fyrir skárra verð en fengist hefur. Þetta er spurningin um líf og dauða fyrir fjölmarga bændur. Þarna hefur ekki verið haldið á málum eins og eðlilegt væri. Það kemur m.a. fram í erindum frá búvörudeild Sambandsins að hún telur sig hvorki hafa heimild né heldur skyldur til að leggja fé og vinnu í að leita markaða. Þetta kemur fram í tilvitnun í bréfi sem Landssamtök sauðfjárbænda hafa sent til búvörudeildar Sambandsins og er alveg kafli út af fyrir sig.

Ég nefni það einnig í þessu samhengi að í erindi frá 19. nóv., sem stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda sendir frá sér, er vikið að því að ekkert raunhæft hefur komið fram frá hendi ráðherra eða þingmanna til að bregðast við þeim erfiðleikum sem samdráttur á okkar bestu mörkuðum hefur skapað annað en það að draga saman framleiðsluna án þess að huga nokkuð að því hvaða afleiðingar það hefði fyrir bændur og byggðir landsins. Í þessu erindi segir einnig, með leyfi forseta:

„Með skipulagslausu undanhaldi og samdrætti í sauðfjárframleiðslu er hætta á stórfelldri byggðaröskun. Það verður því að gera þá kröfu til stjórnvalda að þau geri það upp við sig hvar á að stunda sauðfjárrækt og hvar eigi að leggja hana af.“

Það þýðir ekki að ætla að kasta þessu til bændastéttarinnar eins og að málum hefur verið staðið. Auðvitað hljóta samtök bænda að vera reiðubúin til að taka á málum ef stjórnvöld sýna lit á að koma til móts við erfiðleikana með eðlilegum hætti.

Vandinn tengist hefðbundnum greinum og hann er magnaður upp í hefðbundnu greinunum vegna þeirrar afstöðu m.a. að hluti af kjötframleiðslunni í landinu er stjórnlaus, er hömlulaus. Þar er ekkert þak sett á, það eru bara sauðfjárafurðirnar þar sem hömlur eru settar, á meðan nautakjöt, alifuglakjöt og svínakjöt er án teljandi stjórnunar, nema menn vilji telja fóðurbætisskatt hluta af því kerfi en það er a.m.k. ekki tekið á því með neitt hliðstæðum hætti og gert er í sambandi við dilkakjötið eins og kunnugt er.

Varðandi nýju búgreinarnar ríkir skipulagsleysið eitt og óheft hjá hæstv. landbrh. Hann svaraði því hér í fyrravor, þegar hann reiddi fram magra skýrslu sem svar við fsp. af hálfu okkar þm. Alþb., að þar væru engar áætlanir til staðar, þar væri ekkert skipulag. Að vísu væri von á einhverju frá Byggðastofnun og fleiri aðilum. En ekkert slíkt hefur sést. Því er hér mikil alvara á ferðum og sú tillaga um könnun á búrekstraraðstöðu sem ég mæli fyrir og vænti að fái jákvæðar undirtektir er ákveðinn lykill að því að það verði unnt að taka þessi mál allt öðrum tökum en gert hefur verið af núverandi stjórnvöldum