25.11.1986
Sameinað þing: 21. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í B-deild Alþingistíðinda. (965)

132. mál, könnun á búrekstraraðstöðu

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég virði það við hæstv. landbrh. að taka þátt í þessari umræðu og ég þakka honum fyrir góð orð um þessa till. og skildi mál hans þannig að hann mælti með stuðningi við hana hér á hv. Alþingi. Ég treysti því þess vegna að hæstv. ráðh. hafi áhrif eftir því sem hann getur á sína flokksmenn og stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar til þess að till. verði samþykkt sem fyrst hér á þinginu. Það skiptir afar miklu máli, eins og ég vék að, að þessi könnun fari fram.

Ég tel líka að það sé skýlaus skylda þingsins að sjá til þess að kostnaður við slíka úttekt greiðist úr ríkissjóði þannig að hann þurfi ekki að falla á einstök búnaðarsambönd eða bændur sem slíka. Það teldi ég ótækt. Það er þegar búið að leggja mikið á samtök bænda og búnaðarfélögin með beinum hætti í sambandi við þær stjórnunaraðgerðir sem hæstv. ráðh. hefur staðið fyrir og það er mikið álag á þá starfsmenn sem eru að vinna að athugun og útfærslu á þessum málum, og hefur verið, eins og hæstv. ráðh. mun vera ekki síður kunnugt um en mér. Því skiptir það mjög miklu máli að það liggi fyrir hið allra fyrsta stefna um að ráðist verði í þessa könnun um land allt þannig að niðurstaðan gæti legið fyrir. Næsta vor þyrfti hún að vera til staðar eða a.m.k. á næsta sumri þannig að menn geti horft á dæmið á grundvelli samræmdrar könnunar af þessu tagi.

Mér er alveg ljóst að þetta er verulegt verk, en reynslan af Norðurlandi á að geta auðveldað starfið í öðrum landshlutum. Það þarf eflaust að bæta við mannafla til að vinna að þessari könnun. Ég býst ekki við að það séu aðilar tiltækir til að vinna þetta verk nema þeir verði sérstaklega til kvaddir og fái auk þess leiðsögn til þess að vinna þetta verk undir forustu réttra aðila sem reynslu hafa. í grg. með till. er þar vísað á búnaðarsamböndin og ráðunauta, sem eðlilegt er að hjálpi til við þetta verk og aðstoði við bæði mótun þess og úrvinnslu, þannig að ég vona að þetta geti farið vel úr hendi.

Ég ætla ekki að fara mikið út í umræður frekar við hæstv. ráðh. í sambandi við hans stefnu. Hún hefur ekki aðeins verið gagnrýnd af mér hér á Alþingi heldur kannske með enn sterkari orðum af flokksmönnum hæstv. ráðh. og öðrum stjórnarþingmönnum sem hafa hver eftir annan komið upp í ræðustól og farið mjög hörðum orðum um stefnu ríkisstjórnarinnar í landbúnaðarmálunum. Það þarf því í rauninni ekki af hálfu okkar stjórnarandstæðinga að skerpa svo mjög róminn í sambandi við gagnrýni á þau óheillatök sem hæstv. ríkisstjórn hefur tekið þessi mál.

Það er hins vegar freistandi, herra forseti, áður en ég lýk máli mínu, að minna á og víkja að í stuttu máli smákafla úr fskj. sem er grein Gunnars Guðbjartssonar sem hann kallar „Örlagatímar“. Hann dregur þar upp mynd af þeirri stefnu sem felst í framleiðsluráðslögunum í upphafi sinnar greinar og segir í framhaldi af því, með leyfi hæstv. forseta:

„Í þessum nýjungum í meðferð verðlagsmála felast breytingar sem geta ráðið örlögum íslenskrar byggðaþróunar og örlögum íslensks landbúnaðar í framtíðinni. Hin nýju ákvæði um verðmiðlun geta ráðið örlögum fámennra og fátækra byggðarlaga. Þar kann þó að valda miklu hvernig með valdið verður farið.

Frjáls heildsöluverðsákvörðun og frjáls verslunarálagning eins og nú hefur verið upp tekin í verslun með kartöflur hefur þegar leitt til a.m.k. tvöfalds kostnaðar í verslun með þá vöru. Hækkað verð á vörunni þrengir markaðinn og minna selst og þá geta færri menn lifað af því að framleiða þá vöru. Verðlagsyfirvöld og neytendur virðast ekki láta sig þetta varða. Svipuð þróun hefur orðið í kjötsölu síðan smásöluálagning stykkjaðs kjöts var gefin frjáls.“

Síðan víkur hann enn frekar að stefnunni og útfærslu þessara mála. Hann segir í sambandi við Framleiðnisjóðinn og þær tekjur sem til hans skyldu renna, sem hann taldi út af fyrir sig jákvæða stefnu, þetta:

„Ráðstöfun þessa fjár á að fara eftir ákvörðun landbúnaðarráðherra (reglugerð). Ákvæðin um ráðstöfun fjárins eru mjög losaraleg og því nokkur hætta á að ekki sé sú stefnumörkun fyrir hendi að tilgangur með þessari lagagrein náist nægilega fljótt svo að ný framleiðsla verði til framfærslu fólks í sveitum jafnótt og draga skal úr framleiðslu kjöts og mjólkur svo sem til er ætlast.“

Þarna kemur Gunnar einmitt að stóru máli, sem ég vék að, handahófinu í sambandi við nýjar búgreinar og þar með í rauninni erfiðleikunum á að nýta þetta fjármagn sem lögin gera ráð fyrir að Framleiðnisjóður hafi yfir að ráða.

Aðeins undir lokin, herra forseti, vildi ég nefna niðurlagið í grein Gunnars Guðbjartssonar þar sem hann segir:

„Stjórnleysi í framleiðslu á nautakjöti, svínakjöti og fuglakjöti getur riðið sauðfjárframleiðslunni að fullu. Ekki verður búandi til lengdar við það að allt kjöt sé selt á útsölu.“ Ég skýt því hér inn að það var það sem hæstv. ráðh. var að víkja að að hefði tekist svo vel í sumar að koma nær ársgömlu kjöti ofan í frystikistur landsmanna og kannske var það enn þá eldra, ég veit það ekki. „Slíkt verður dauðadómur á alla kjötframleiðslu í landinu“, heldur Gunnar áfram. „Stjórnvöld verða að átta sig á þessu fljótlega. Verði það ekki gjört mun umrædd löggjöf valda íslensku þjóðfélagi skapadómi sem aldrei verður bættur. Ekki er heldur búandi við stjórnleysi í eggjaframleiðslu svo sem nú er.

Með slíku stjórnleysi er fjármunum þjóðarinnar sóað í stórum stíl í óarðbæra fjárfestingu sem engum nýtist. Sé þetta gert til að þjóna trúarlegum sjónarmiðum samkeppnismanna, þá er verið að hætta fjöreggi þjóðarinnar í annarlegum leik líkt og tröllskessurnar gerðu forðum og frá er sagt í þjóðsögum.

Hvort hin nýju framleiðslulög skapa þjóðinni örlagadóm eða valda straumhvörfum til góðs ræðst af því hvort stjórnvöld hafa kjark til að hafna stjórnlausri markaðshyggju samkeppnismanna og taka upp skipulag félagshyggju í staðinn og viðhalda raunhæfri byggðastefnu.

Næstu tvö til þrjú ár munu skera úr um þetta efni. Af þeim úrskurði munu örlög íslenskra byggða og íslensks landbúnaðar ráðast.“

Þetta var tilvitnun í mál framkvæmdastjóra Framleiðsluráðs landbúnaðarins, manns sem lengi hefur staðið á vaktinni í þjónustu bændastéttarinnar og talar af mikilli reynslu.

Ég vænti, herra forseti, að sú nefnd sem ég legg til að fái þessa þáltill. til meðferðar, könnun á búrekstraraðstöðu, taki fljótt og vel á þessu máli, en það er atvmn. sem ég legg til að fái tillöguna.