25.11.1986
Sameinað þing: 21. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í B-deild Alþingistíðinda. (972)

183. mál, aðstoð við hitaveitur

Valdimar Indriðason:

Með þessari þáltill. er hreyft máli sem er orðið svo brýnt að finna lausn á að ekki verður lengur undan því vikist. Dýrustu hitaveitur landsins eru orðnar þannig settar að eigendur þeirra og neytendur fá ekki lengur undir risið. Eins og fram kemur í grg. með till. er þrefaldur munur á hitunarkostnaði milli dýrustu og ódýrustu hitaveitna á landinu. Þessi munur er þegar farinn að setja sitt mark á búsetuþróun og þess vegna er við óviðunandi ástand að ræða. Undirstrikað skal að íbúar þeirra svæða þar sem hitaveitugjöldin eru nú hæst hafa á liðnum árum greitt verulegt fé í verðjöfnunargjald af rafmagni sem hefur svo verið notað til að greiða niður raforku sem notuð hefur verið til upphitunar annars staðar á landinu og er upphitun með þessari niðurgreiddu raforku nú miklu ódýrari en hjá dýrari hitaveitunum eins og sjá má í töflu nr. 2 með grg.

Ég er ekki að sjá ofsjónum yfir því að fólk geti kynt hús sín með rafmagni á viðráðanlegu verði, en full rök eru fyrir því að notendur hitaveitna greiði ekki hærra gjald fyrir upphitun á sínu húsnæði.

Þegar olíuverð fór að stíga verulega á miðjum áttunda áratugnum fóru mörg sveitarfélög að kanna möguleika á nýtingu jarðhita. Arðsemisútreikningar sýndu að flestar hitaveituframkvæmdir voru hagkvæmar ef á annað borð var hægt að nálgast heitt vatn. Enginn efaðist um hagkvæmni slíkra framkvæmda miðað við þáverandi verð á olíu sem flestir spáðu að færi hækkandi og af opinberum aðilum var hvatt til slíkra framkvæmda.

Við þessar aðstæður var t.d. farið út í framkvæmdir við Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og sú veita tók til starfa haustið 1981 í Borgarnesi og snemma árs 1982 á Akranesi. Þar þurfti ekki mikla leit eftir heitu vatni með dýrum borunum. Orkugjafinn var Deildartunguhver í Reykholtsdal, vatnsmesti hver í heimi að sagt er. Hann skilar á annað hundrað sekúndulítrum af 100 stiga heitu vatni upp á yfirborðið svo lengi sem hægt er að rekja söguheimildir þar um.

Vart er hægt að hugsa sér betri eða öruggari virkjunarstað. Eini gallinn við þessa virkjun var sá að vegalengdin frá hvernum að stærsta markaðssvæðinu, Akranesi, er mikil eða um 64 km. En útreikningar sýndu að þrátt fyrir þessa miklu vegalengd ætti veitan að geta staðið sig við þær aðstæður sem þá voru þekktar og miðað var við. Tæknilega hefur þetta allt staðist og veitan reynst mjög vel í þau ár sem hún hefur starfað.

En fljótlega komu blikur á loft varðandi fjármálin. Fyrirtækið var nær eingöngu fjármagnað með erlendum lánum. Gengisfellingar voru ekki óþekktar og svimandi verðbólga fylgdi svo í kjölfarið. Þetta þarf ekki að rekja hér eða tíunda. Það þekkja allir.

Niðurstaðan af þessu er sú að þessi hitaveita skuldar nú rúmlega 1400 millj. þrátt fyrir hæstu gjaldskrá. Er skuld á hvern íbúa, eins og kom fram hjá flm., 210 þús. kr. Þarna eru stórar tölur.

Ég gat þess áðan að hitaveitan væri nær eingöngu byggð fyrir erlent lánsfé og gengisþróun og vextir af slíkum lánum verið eins og ég hef áður lýst. Þá er ekki óeðlilegt að bent sé á hvernig staðan væri hjá þessari veitu hefði hún verið með innlent lánsfé til sinnar uppbyggingar bundið lánskjaravísitölu og vöxtum 4-5%. Þá má segja að skuldir hennar í dag væru 550 millj. kr. lægri. Þá væri ekki vandi hjá þessari hitaveitu. Þannig sjáum við hvað af erlendri lántöku getur hlotist og þeim aðgerðum sem því fylgja. Ég bendi á þetta hér vegna þess að við erum oft mjög bláeyg í þessum efnum.

Freistandi væri að ræða hér einnig nokkuð um verðjöfnunargjaldið sem var innheimt og ráðstöfun þess og það 975 millj. kr. orkujöfnunargjald sem nú er gert ráð fyrir að innheimta á árinu 1987 samkvæmt framlögðum fjárlögum. Af þeirri upphæð á að verja 153 millj. til niðurgreiðslu á rafhitun, ekkert til hitaveitna. Áætla má að notendur á hitaveitusvæði Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar greiði í þennan pakka 31 millj. á næsta ári.

Ég fer ekki út í þetta nánar því flm. gerði það ágætlega hér áðan og það væri tvítalning á sömu atriðum.

Ég hef hér mest rætt um Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar vegna þess að þar fylgdist ég með uppbyggingu og undirbúningi sem bæjarfulltrúi á Akranesi, en vandi margra annarra hitaveitna er mikill eins og kemur fram í þeirri þáltill, sem hér er til umræðu. Forráðamenn þessara veitna ásamt sveitarstjórnarmönnum frá þeim svæðum þar sem vandi veitnanna er hvað mestur voru á ferð hér í síðustu viku og áttu viðræður við ráðherra um þessi vandamál. Hæstv. iðnrh. skipaði nefnd í málið þegar fyrir helgi eftir að hafa fengið tilnefningar frá hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. Nefnd þessari var sett það mark að vinna hratt og ég fagna því og þakka hæstv. ráðh. fyrir þá tilskipun. Hún á að skila áliti á hálfum mánuði. Þessi viðbrögð vil ég þakka ráðherranum. Ég ætla ekki að koma hér með tillögur eða ábendingar í þessum efnum, ég bíð eftir að sjá hvað frá nefndinni kemur, en legg áherslu á að þegar nefndin hefur skilað sínu starfi verði lagst á eitt við það að finna lausn á þessum málum því að þau þola enga bið.