25.11.1986
Sameinað þing: 21. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í B-deild Alþingistíðinda. (973)

183. mál, aðstoð við hitaveitur

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Það er tímabært að ræða á hv. Alþingi fjárhagsvanda nokkurra hitaveitna. Þeir erfiðleikar, sem þar blasa við, verða ekki leystir nema á samfélagslegum grundvelli. Það er réttlætismál að svo verði gert.

Þegar leysa þarf úr erfiðleikum eða koma af einhverju stóru verkefni er oft minnt á að erfiðleikarnir séu yfirstíganlegri og verkefnið auðunnara ef sameiginlega sé að hlutunum staðið. Nokkuð oft er okkur sagt, jafnvel þó að flestir telji sig vita það með nokkurri vissu, að í okkar landi búi aðeins ein þjóð. Stundum er talað um eina stóra fjölskyldu, þessar 240 þús. hræður. Þegar erfiðleikar steðja að fyrirtækjum eins og Flugleiðum hf. og Arnarflugi hf. telja landsfeðurnir sjálfsagt að þjóðin taki þátt í þeirra erfiðleikum, standi sameiginlega að baki þeim. Þegar fyrirtæki eins og Íslenska járnblendifélagið hf. er talið hafa heldur lítið eigið fjármagn í rekstrinum er sjálfsagt að kippa því í lag með smápeningafúlgu frá þjóðinni í einu. Ekki eru allir sammála um þessa hluti, en ofan á verður samt að það sé nauðsynlegt og undan því verði ekki komist að þessar 240 þús. hræður takist sameiginlega á við erfiðleika sem upp koma.

Þjóðin okkar er sem betur fer alltaf að takast á við stór uppbyggingarverkefni. Fyrir fáum árum vorum við að byggja orkuver, förum hægar í það nú um stundir. Það var talið sjálfsagt að til slíkra framkvæmda væru lánsmöguleikar þjóðarinnar erlendis nýttir og þessi verkefni væru jafnvel látin hafa þar forgang. Síðustu ár hefur mest borið á því að stór verkefni væru á vettvangi verslunar í landinu. Hinn nýi miðbær í Reykjavík ber þess vitni. Sagt er að hluti þeirrar fjárfestingar sem þar fer fram sé fjármagnaður af erlendum lánum. Þau eru víst án ríkisábyrgðar, jafnvel tekin á frjálsum peningamarkaði. Samt eru þau tekin út á sameiginlegan gjaldeyrissjóð þjóðarinnar og koma til greiðslu úr honum. Það verður sem sagt ekkert efast um að við erum ein þjóð súrruð saman í sameiginlegum ábyrgðum.

Samvinnan og samtryggingin hefur reyndar komið fram með öðrum hætti. Við höfum greitt sama verð fyrir olíuvörur um allt land. Rafmagnið var verðjafnað fram á yfirstandandi ár. Þeim sem þurftu að hita hús sín með olíu var greiddur olíustyrkur á meðan kyndiolía var á háu verði. Sameiginlega höfum við byggt hafnir, raforkuver, háskóla, vegi og hitaveitur. Hitaveita Reykjavíkur var og er eitt af þeim fyrirtækjum sem þjóðin er hvað hreyknust af að hafa byggt og starfrækt.

Eins og sameiginlegu verkefnin hafa verið breytileg hefur aðstaðan frá ári til árs breyst bæði vegna ytri aðstæðna og mismunandi getu heima fyrir. Afstaða stjórnvalda á hverjum tíma hefur einnig verið sitt og hvað, mismunandi samfélagssinnuð. Með olíuverðshækkunum á áttunda áratugnum og með háu verði á olíu fram á yfirstandandi ár urðu ytri aðstæður þess valdandi að þjóðin lenti í erfiðleikum vegna mjög aukinna gjaldeyrisútgjalda vegna olíuhækkananna sem um leið kölluðu á stórframkvæmdir til að nýta orku sem til var í landinu. Viðmiðunarverð ónýttrar orku, jarðhita og fallvatna við aðra orkugjafa varð hagstæðara og hagkvæmni þess að virkja þessar auðlindir þjóðarinnar var miklu meiri en áður. Ráðist var í stórvirkjanir, Sigöldu, Kröflu, Hrauneyjafoss. Það var þó ekki nóg að framleiða rafmagn. Hvar sem von var um heitt vatn í jörð var reynt að gera sér grein fyrir því hvort það væri ekki virkjanlegt fyrir hitaveitu fyrir næsta nágrenni. Tilætlun stjórnvalda og fjölmiðla var mjög mikil í þá átt að virkja ætti alla mögulega kosti til að losna við dýran erlendan orkugjafa, olíuna.

Allsherjarumræður um nýtingu innlendra orkugjafa áttu sér stað. Talað var um þjóðarátak til að spara gjaldeyri með því að virkja jarðhita og leggja hitaveitur. Forustumenn þéttbýlissveitarfélaga, þar sem einhverjar líkur voru fyrir að virkjanlegur jarðhiti væri til staðar til þess að nýta fyrir hitaveitu, voru undir mjög miklum þrýstingi bæði frá íbúum og stjórnvöldum um að hefjast handa í þessum efnum.

Kostnaðaráætlanir miðað við ríkjandi verðlag á orku sýndu að víða voru til staðar mjög hagstæðir virkjunarkostir. Ein af stórframkvæmdum þessara ára var Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar. Niðurstöður áætlana um þessa hitaveitu voru þær að um væri að ræða hagkvæman virkjunarkost. Hitaveitan var tengd, eins og hér kom fram í ræðu hv. 3. þm. Vesturl., við hús í Borgarnesi, á Hvanneyri og á Akranesi á árunum 1981 og 1982. Engin teljandi óhöpp hafa orðið í rekstri veitunnar og flest gengið á þann veg sem ráð var fyrir gert. Einn er þó sá þáttur sem ekki hefur farið eftir áætlunum, en það er fjármagnskostnaðurinn. Meginhluti lána hitaveitunnar er í bandarískum dollurum. Gengi dollarans hækkaði mjög mikið fram á árið 1985 og vextir af þessum lánum hafa verið mjög háir. Hækkun lána hitaveitunnar í krónutölu vegna gengisáhrifa, umfram það sem þau hefðu orðið ef þau hefðu verið í íslenskum gjaldmiðli með 5% vöxtum og verðtryggð með lánskjaravísitölu, er yfir 500 millj. kr. Það segir það að ef Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar hefði notið innlendra lánskjara en ekki þurft að takast á við fjármagnssveiflur á erlendum fjármagnsmarkaði væru skuldirnar um 900 millj. í stað 1400 millj. eða rúmum þriðjungi minni en þær eru í dag.

Að mínu mati er það fráleitt að fyrirtæki sem þjónar eingöngu innlendum markaði og er um leið almennt þjónustufyrirtæki skuli hafa verið látið taka á sig slík skakkaföll umfram verðlagsþróun í landinu. Ekkert er eðlilegra en að slíkum áföllum sé mætt með aðgerðum sem þjóðin stendur sameiginlega að.

Eins og ég nefndi hér áður eru skuldir Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar nú rúmar 1400 millj. og mun skuld á hvern íbúa tengdan hitaveitunni vera um 210 þús. kr. eins og fram hefur komið hér í umræðunni. Fjárhagslegir erfiðleikar eru því mjög miklir og það stefnir sjálfsagt í enn meiri erfiðleika, ef hægt er að hafa það orð um þá fjárhagsstöðu sem fram undan er, ef ekkert verður að gert til að leiðrétta fjárhagsstöðu hitaveitunnar.

Herra forseti. Ég nefndi í upphafi að á síðustu árum hefðum við reist stór raforkuver, Sigöldu, Kröflu, Hrauneyjafoss, og á síðustu árum voru einnig lagðar flutningslínur frá þessum virkjunum og landið hringtengt. Til þessara framkvæmda voru líka tekin erlend lán eins og til hitaveitnanna. Sum af þessum fyrirtækjum hafa líka lent í erfiðleikum, en málefnum þeirra virðist nú vera borgið. Hver er munur á fjármögnun og fyrirgreiðslu til þessara tveggja þátta í innlendri orkuframleiðslu og er sá munur réttlætanlegur? Aðalmunurinn er sá að orkuframleiðslan og uppbygging raforkuveranna er á hendi eins fyrirtækis, Landsvirkjunar, sem er félagslegt fyrirtæki. Eldri framkvæmdir þessa fyrirtækis standa að rekstri þeirra nýrri. Hluti beinnar fjárfestingar hefur verið greiddur af almannafé, t.d. með yfirtöku Kröflu og að einhverju leyti í sambandi við flutningslínur.

En hvernig er með hitaveiturnar sem nefndar eru í þessari þáltill. og allar aðrar hitaveitur, þ.e. hinn orkuþáttinn, virkjun jarðvarma til húshitunar? Þar er hvert fyrirtæki óháð öðru. Þar byggir ekki hver annan upp. Ríkið hefur ekki enn gert ráðstafanir til að standa að uppbyggingu þessa orkuþáttar og um sameiningu hitaveitna verður aldrei að ræða líkt og með Landsvirkjun, enda eðli orkunýtingarinnar frábrugðið.

En ríkið hefur ekki staðið í stykkinu gagnvart uppbyggingu hitaveitnanna á sama hátt og gert hefur verið í raforkugeiranum. M.a. vegna þess er fjárhagsstaða þeirra hitaveitna sem rætt er um hér svo sem raun ber vitni um. Úr því verður að bæta. Þegar hitaveiturnar tóku yfir húshitunarþáttinn frá olíukyndingu leystu hitaveiturnar ríkið frá greiðslu olíustyrks. Það væri fróðlegt að fá um það upplýsingar hvað hér gæti verið um háa fjárhæð að ræða. Trúlega er hér um verulega fjármuni að ræða.

Til að jafna aðstöðu fólks vegna húshitunar hefur raforka verið niðurgreidd úr ríkissjóði og er ekki nema allt gott um það að segja. En hvers eiga íbúar þeirra byggða að gjalda sem gegndu kalli stjórnvalda og fóru út í það að nýta hinn innlenda orkugjafa, jarðvarmann, og fá ekki stuðning ríkisins til að jafna stöðu til jafns við þá sem nota rafmagn?

Ýmislegt fleira mætti benda á þar sem hitaveiturnar hafa ekki notið sanngjarnrar fyrirgreiðslu. Í grg. okkar flm. þessarar þáltill., sem hér er til umræðu, um aðstoð við hitaveitur segir, með leyfi forseta: „Það er skoðun flm. þessarar þáltill. að ríkisvaldið verði að koma inn í þetta mál með beinum og óbeinum hætti til aðstoðar verst settu hitaveitunum t.d. með því:

1. Að skuldbreyta lánum þeirra til að jafna greiðslum á lengri tíma og skipta strax út óhagkvæmustu lánunum.

2. Að tryggja að vaxtakjör skuldbreytingarlána verði þau hagstæðustu sem völ er á á hverjum tíma.

3. Að lækka raforkuverð til þeirra í algert lágmark.

4. Að fella niður söluskatt af raforku til dælingar og endurgreiða söluskatt af fjárfestingarvörum þeirra.

5. Að nota hluta af þeim skatti sem sérstaklega var lagður á með lögum nr. 12/1980 til jöfnunar á hitakostnaði fólks (1,5% hækkun söluskatts) til aðstoðar verst settu hitaveitunum með beinum eða óbeinum hætti, t.d. með yfirtöku hluta af lánum þeirra.“

Sjálfsagt koma til greina aðrar leiðir en hér eru nefndar til að koma rekstri þessara hitaveitna í gott lag. Með tillöguflutningnum er verið að knýja á um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þessu máli og leggja áherslu á aðgerðir áður en núverandi þingi verður slitið. Því fyrr sem ákvörðun verður tekin um slíkar aðgerðir því betra. Allur frestur í þessu máli eykur vandann og lausn verður erfiðari viðfangs.