25.11.1986
Sameinað þing: 21. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1141 í B-deild Alþingistíðinda. (977)

183. mál, aðstoð við hitaveitur

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða, af því að ég kem hér næstur í ræðustól á eftir hv. 2. þm. Norðurl. e., að lýsa yfir nokkurri undrun yfir þeim ákúrum sem hann var að veita þingbræðrum sínum fyrir að flytja inn á vettvang Alþingis mikið alvöru- og nauðsynjamál. Ég sé út af fyrir sig ekki að það geti spillt fyrir framkvæmdarvaldinu þó að þessi mál séu rædd hér á Alþingi. Hver veit nema það gæti kannske reynt á þingið um einhverjar þær aðgerðir sem nefnd sú, sem hæstv. iðnrh. mun hafa skipað, skilar áliti um og hugsanlegar aðgerðir sem hæstv. ráðh. þyrfti tilstyrk til hér frá þinginu? Mér finnst þetta því vera langt frá því að vera eðlilegt innlegg inn í þessa umræðu frá hv. 2. þm. Norðurl. e.

Varðandi það mál sem hér er rætt vil ég lýsa yfir stuðningi við efni þessarar till. og þann málflutning sem að baki liggur. Mér þykir vænt um að það skuli koma tillögur af þessu tagi og að við, sem höfum verið að berjast fyrir því að fá jafnaðan og lækkaðan húshitunarkostnað hjá landsmönnum á undanförnum árum, skulum hafa fengið bandamenn hér sem taka undir þá stefnu að það verði að ríkja ákveðin lágmarkssanngirni og jöfnuður í sambandi við þennan grundvallarþátt í tilkostnaði fólks og uppihaldi þar sem er húshitunarkostnaðurinn. Ég er því mjög ánægður með að þetta mál skuli koma hér til umræðu á vettvangi Alþingis.

Ég vil, herra forseti, málsins vegna rifja aðeins upp nokkur atriði frá fyrri tíð sem snerta þetta mál, þó ekki sögulegar ástæður fyrir því að hitaveiturnar eru nú staddar í þeim vanda sem um er að ræða, hitaveitur sem hér hafa verið nefndar og fleiri sem ekki hafa verið nefndar. Það eru að verulegu leyti, má segja, utanaðkomandi áföll sem þar hafa komið til. Snúist hafa við bjartsýnar forsendur sem lagðar voru til grundvallar þegar viðkomandi aðilar og sveitarfélög réðust í þessar framkvæmdir. Þarna blasir mikill vandi við stórum byggðarlögum og smáum sem þau alls ekki eru fær um að leysa af eigin rammleik, þar sem sjálfsagt er og eðlilegt að samfélagið komi til og veiti aðstoð til þess að lágmarkssanngirni sé gætt varðandi þennan undirstöðuþátt. Það sæti illa á mér annað en taka fullum hálsi undir þetta efni þar sem ég hef þurft að standa uppi bæði í ríkisstjórn og hér í þessum stóli gagnvart Alþingi að óska eftir stuðningi við slíkar jöfnunaraðgerðir einmitt varðandi húshitunarkostnaðinn en raunar einnig varðandi fleiri liði í orkukostnaði hjá landsmönnum.

Ég vil rifja það upp að á þinginu 1983-1984 og aftur á þinginu 1984-1985 flutti ég ásamt öðrum þm. Alþb. till. til þál. um lækkun húshitunarkostnaðar og átak í orkusparnaði. Þetta var smákver sem var lagt hérna fram ítarlega rökstutt og með nokkrum fskj. sem varðaði meðferð mála á fyrri stigum og reiknað út hver væri staðan varðandi landið í heild. Efnislega var þarna gert ráð fyrir því varðandi húshitunarkostnaðinn að hann yrði færður í tveimur áföngum niður að þeim mörkum að sex vikna tekjur samkvæmt dagvinnutekjutryggingu Verkamannafélagsins Dagsbrúnar nægðu til upphitunar meðalhúsnæðis, 400m3 íbúðar. Þessu marki yrði náð í tveimur áföngum. Í öðru lagi var þarna gerð tillaga um stórátak til orkusparnaðar með tilteknum hætti og fyrir opinbera forgöngu og með hvatningu og stuðningi í gegnum lánakerfi. Í þriðja lagi var lögð áhersla á að ljúka skiptum frá olíu yfir í innlenda orkugjafa og að lokum var efnislega þarna gert ráð fyrir að endurmeta kröfur um frágang nýbygginga til að draga úr orkunotkun.

Þessi till. náði ekki fram að ganga. Þetta réttlætismál sofnaði í nefnd, líklega í allshn. þingsins sem ég held að hafi fengið þessa till. í tvígang til meðferðar og jákvæðar umsagnir frá mörgum aðilum, þolendum þess ójafnaðar sem þarna ríkir og ríkti á þeim tíma. Það var að vísu nokkuð annars eðlis og byrðarnar lagðar á með eitthvað öðrum hætti á þeim tíma en ójöfnuðurinn var og er ríkur í þessum efnum.

Satt að segja gáfumst við upp á því, flm. þessa máls, að fara að sýna það í þriðja sinn á þinginu í fyrra þó að vissulega hefði verið full ástæða til þess að láta á það reyna og það í ljósi þeirrar þróunar sem nú er í gangi varðandi hitaveiturnar ekki síður, því þær voru sannarlega inni í þessu dæmi og inni í þessum tillöguflutningi. Það voru gerðar ákveðnar ráðstafanir í tíð fyrri ríkisstjórnar, þegar ég fór með þessi mál sem iðnrh., til þess að greiða fyrir varðandi fjárhagsvanda hitaveitna sem þá áttu í erfiðleikum og það var sérstakur vinnuhópur sem þá starfaði og skilaði áliti 24. febr. 1983. Gerðar voru ákveðnar ráðstafanir, m.a. breytingar á lögum til að minnka áhættu við borun eftir heitu vatni og draga úr tilkostnaði. Einnig varðandi breytingu á reglugerð um framlag til varmaveitna samkvæmt lögum, tilvitnuðum, um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar. Þarna var því gripið á ákveðnum þáttum til þess að lina vanda þeirra hitaveitna sem áttu þá í mestum örðugleikum og ákveðnu fjármagni varið til stuðnings þessum veitum. Síðan hafa málin breyst til verri vegar fyrir aðrar veitur, líka þessar sem þarna áttu í hlut á þessum tíma, og tillögur okkar Alþýðubandalagsmanna gerðu ráð fyrir því að eitt yrði látið yfir alla landsmenn ganga, hvort sem þeir byggju við upphitun frá hitaveitum eða rafhitun, þannig að ákveðinni lágmarksjöfnun yrði náð. Ég legg áherslu á að þessi stefna verði upp tekin í sambandi við þetta mál og hæstv. iðnrh. líti á þessar tillögur okkar Alþýðubandalagsmanna nú þegar hann fær þennan vanda færðan upp í fangið sem eðlilegt er, að leitað er liðsinnis af hans hálfu.

Ég minni á það, herra forseti, áður en ég lýk máli mínu að núverandi ríkisstjórn ætlaði sér mikinn hlut í þessum málum og hart var deilt á fyrrverandi ríkisstjórn af því að hún hafði ekki gert nóg. Hæstv. forseta er það betur kunnugt en kannske flestum öðrum hvernig þau mál stóðu. Ég hygg að hann hafi verið afar óánægður með það hvernig gengið var frá þessu máli vorið 1984 eftir að hann hafði lagt á sig mikla vinnu í stjórnskipaðri nefnd til þess að fjalla um þessi mál.

Ég hef hér fyrir framan mig, á bls. 10 í þskj. 52 frá 107. löggjafarþingi, sameiginlegt nál. beggja iðnaðarnefnda þingsins, undirritað af virðulegum núv. forseta Sþ., þar sem hann leggur fram ákveðnar tillögur til iðnrh. Þetta er í formi erindis til iðnrh. um að tekið verði á þessu máli með öðrum hætti en ríkisstjórnin þá hafði lagt til, en hún hafði loksins í apríl flutt stjfrv. sem breytti ekki nokkrum sköpuðum hlut. Iðnaðarnefndir beggja deilda þingsins skiluðu erindi til hæstv. þáv. iðnrh., Sverris Hermannssonar, þar sem m.a. var lögð áhersla á í fyrsta lagi að ganga tryggilega frá því að allt orkujöfnunargjald fari til jöfnunar hitunarkostnaðar. Við vitum það auðvitað öll að þessi lög á sínum tíma kváðu því miður ekki á um að gjaldið færi óskipt til jöfnunar hitunarkostnaðar og þurfti ég að minna fyrrverandi stjórnarandstæðinga á það ákvæði. Þetta var ekki orkuskattur eins og ég hafði barist fyrir heldur flöt hækkun á söluskatti án viðeigandi mörkunar á nýtingu tekjustofnsins sem skyldi renna í ríkissjóð og meðferðin eftir því. Í þessu erindi frá iðnaðarnefndunum var líka kveðið á um ákveðið lágmarkshlutfall til jöfnunar hitunarkostnaðar og sérstaklega að aðstoð við hitaveitur með sérvanda sé betur tryggð. Það er einmitt það mál sem við erum hér að ræða. Þarna kom því vilji þingsins í hittiðfyrra skýrt fram í gegnum iðnaðarnefndir þar sem ég held að talsmenn allra flokka hafi átt hlut að þessu erindi.

Eins og till. okkar var - og það skulu vera mín lokaorð hér að þessu sinni - eins og till. okkar var sniðin hefði framgangur hennar þýtt möguleika á að lækka gjaldskrá Hitaveitu Akureyrar um 50% miðað við þessa reglu sem þarna var upp dregin og rafhitunin þar sem mest hallaði á gæti lækkað frá því sem þá var, ekki svo mikið en verulega, því þá þegar var gjaldskrá Hitaveitu Akureyrar orðin mjög há og Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar komin í hópinn. Hérna er skrá yfir þær hitaveitur sem þá áttu í erfiðleikum. Þær eru fleiri en hér eru nefndar og til að spara hæstv. iðnrh. leitina skal ég afhenda honum hér á eftir þetta þskj. sem gæti orðið nefnd hans til uppbyggingar og til að auðvelda henni störfin.