20.10.1986
Efri deild: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í B-deild Alþingistíðinda. (98)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir, en ég get ekki látið þeim einstaklega óheiðarlega málflutningi hæstv. fjmrh. ómótmælt að Alþýðuflokksmenn hafi staðið gegn frelsi í útvarpsrekstri. Þetta endurtekur hæstv. fjmrh. hvað eftir annað, væntanlega í þeirri von að einhver trúi honum, en þetta er rangt hjá hæstv. ráðh. eins og allir geta séð sem fletta upp í þingtíðindunum. Hins vegar var af okkar hálfu bent á marga ágalla á þeim útvarpslögum sem eru í gildi. Menn geta gengið úr skugga um það með því að ræða við þá sem fást við útvarpsrekstur. Þeir vita vel af þessum ágöllum. Og þessum lögum þarf að breyta og þau þarf að endurskoða.

Hins vegar er mér alveg ljóst að það er afskaplega valt að trúa orðum hæstv. fjmrh., einkanlega þegar hann er að vitna aftur í tímann. Það kom mjög vel í ljós í sjónvarpsumræðunum þegar honum varð það á að vitna í Njáls sögu með þeim hætti sem hann gerði þar.