25.11.1986
Sameinað þing: 21. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1146 í B-deild Alþingistíðinda. (980)

183. mál, aðstoð við hitaveitur

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég bað um orðið öðru sinni í þessari umræðu undir fróðlegum fyrirlestri hæstv. iðnrh. um orkumál á veraldarvísu. Hæstv. ráðh. kemur vel nestaður sunnan frá Cannes og hefur kynnt sér stöðuna vítt um lönd. Það er sannarlega gott. Mér fannst athyglisverður skilningur sem kom fram í máli ráðherrans og ályktunarorð sem svo að við þyrftum ekkert að iðrast að hafa gengið nokkuð djarflega fram í nýtingu á okkar innlendu orku, hagnýtingu okkar orkugjafa sem við eigum hér. Bæði á það við um vatnsaflið og jarðvarmann. Við þurfum ekki að sjá eftir því. Hitt er annað mál að auðvitað þurfa menn að ganga fram af gát alltaf þegar verið er að ráðstafa fjármagni og skyggnast til allra átta, en stundum nægir það ekki til því það verða veðrabrigði sem menn hafa ekki áttað sig á fyrir fram.

Hæstv. ráðh. tók hér undir, fannst mér, þá meginstefnu, sem fram kemur í umræðum um þessa þáltill., að hér sé um samfélagslegt vandamál að ræða þar sem þjóðfélagið eigi að koma inn með spor í átt til jöfnunar og leysa úr þeim gífurlega vanda sem viðkomandi orkufyrirtæki eiga við að stríða. Ég vildi af þessu tilefni bæta við fyrirspurn til hæstv. ráðh. sem snertir þessi mál, húshitunarkostnaðinn, alveg sérstaklega en einnig fleira sem varðar innlenda orkugjafa. Ég lagði áherslu á að það yrði litið á þetta í heild sinni og er þar ekki neitt að drepa á dreif að tekið sé á málefnum hitaveitnanna. En þannig er að mikill hluti fólks úti um land á ekki annarra kosta völ en að nýta raforku til upphitunar húsa og allir nota raforku til heimilisnota. Þar hefur verið reynt á liðinni tíð að ná fram ákveðinni lágmarksjöfnun, þó engan veginn fullnægjandi. Nú hins vegar óttumst við, sem skyggnumst í fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar og sjáum að þar lækkar verulega framlag til niðurgreiðslu á rafhitun, að þar verði breyting á í sambandi við húshitunartaxtana hjá Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða og kannske varðandi aðra taxta þessara orkufyrirtækja þannig að það sé hætta á að þau verði knúin til að hækka gjaldskrár sínar það mikið að bilið vaxi á milli þess sem þorri landsmanna býr við. Þá er ég m.a. með í huga Rafmagnsveitu Reykjavíkur og hins vegar þorra fólks á landsbyggðinni sem skiptir við þessi fyrirtæki. Ég spyr hæstv. ráðh. við þessa umræðu hvert horfi í þessum efnum. Eru líkur til þess að til þess komi, eru einhverjar líkur á því að Rafmagnsveitur ríkisins verði látnar hækka gjaldskrár sínar verulega um næstu áramót? Í því sambandi hefur jafnvel verið nefnd hækkunarþörf út frá fjárhagsdæmi Rafmagnsveitnanna upp á 35% varðandi húshitunarrafmagnið. Ég inni hæstv. ráðh. eftir þessu og vænti að virðulegur forseti leyfi að þetta mál sé tekið upp í þessu samhengi við umræðuna því hér er um stórt hagsmunamál að ræða og vanda sem betra er að Alþingi líti framan í fyrr en seinna ef eitthvað slíkt er á leiðinni í tengslum við fjárlagafrv. og það dæmi sem þar liggur fyrir svo og áhyggjur þeirra sem ráða fyrir Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða.