25.11.1986
Sameinað þing: 21. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1147 í B-deild Alþingistíðinda. (981)

183. mál, aðstoð við hitaveitur

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það var góð hressing að heyra aftur hvernig málflutningur hv. 6. landsk. þm. hefur verið vaxinn. Ég var hálfpartinn búinn að gleyma því, en mér heyrðist á honum áðan að hann væri enn við það gamla heygarðshornið að taka nokkur orð úr samhengi og leggja aðra merkingu í þau en meint var og segir svo að af því að orðin eru tekin úr samhengi séu þau orðrétt, grípur hann fram í. Þetta er nú fínn mórall.

En af hverju var það sem ég sagði að þessi till. væri á misskilningi byggð? Það var vegna þess, eins og fram hefur komið hér, að væntanlega mun sú nefnd, sem ráðherra hefur skipað til að gera sér grein fyrir þessum málum og gera tillögur um þau, hafa skilað áliti áður en þessi till. til þál. kemur aftur til umræðu hér í hinu sameinaða þingi. Ég sagði að hún væri á misskilningi byggð vegna þess að hún væri óþörf, vegna þess að það hefðu þegar farið fram viðræður milli hitaveitnanna og ríkisstjórnarinnar, vegna þess að nefnd hefði þegar verið skipuð til að fjalla um þessi mál og vegna þess að henni hefði verið gefið það tímamark að skila áliti innan hálfs mánaðar. - Er það ekki rétt skilið hæstv. iðnrh.? - Þess vegna sagði ég að þessi tillöguflutningur væri á misskilningi byggður. Hitt væri annað mál ef ríkisstjórnin hefði ekkert aðhafst í málinu. Ég vona að þetta skiljist.

Hitt skiptir minna máli þó hv. þm. hlaupi norður í byggðir til að segja mönnum þar hvaða skoðanir maður hafi á Hitaveitu Akureyrar. Ég hef búið þar og verið þar nógu lengi nú um sinn til þess að mönnum sé kunnug mín afstaða til þess máls.