25.11.1986
Sameinað þing: 21. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1149 í B-deild Alþingistíðinda. (984)

171. mál, vindorkuver og hraunhiti til húshitunar

Flm. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ég flyt till. til þál. um vindorkuver í Vestmannaeyjum og frekari nýtingu hraunhita til húshitunar. Tillgr. er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að skipa þriggja manna nefnd til þess að gera úttekt á möguleikum og hagkvæmni á nýtingu vindorku til húshitunar í Vestmannaeyjum og jafnframt að kanna til hlítar frekari nýtingu jarðhita í Eldfellshrauni, m.a. með athugunum á sprungumyndun í eldstöðvunum.“

Um árabil hefur hraunhitaveitan í Vestmannaeyjum sinnt að mestu húshitun í kaupstaðnum. Fyrirtækið er einsdæmi í heiminum. Hiti fer nú stöðugt þverrandi á virkjunarsvæðinu og er allt útlit fyrir að Fjarhitaveita Vestmannaeyja verði að grípa til annarra ráða áður en langt um líður, rafmagnsnotkunar, olíunotkunar eða vindorkuvirkjunar.

Hér hefur verið rætt í dag um vanda hitaveitna og þar á meðal Hitaveitu Vestmannaeyja. Þessi vandi varðandi Vestmannaeyjar er allsérstæður að því leyti að þarna er um að ræða mannvirki sem hefur verið í notkun um árabil en ekki hefur verið unnt að treysta á og er mjög óljóst hverju fram vindur. Það er hins vegar jafnframt ljóst að það hafa ekki verið gerðar þær kannanir sem æskilegt er á vísindalegum grunni til að ganga úr skugga um hvort eða hvernig hægt er að nýta frekar þá orku sem leynist í hraunmassanum frá eldgosinu 1973. Það er því æskilegt einmitt nú að kanna þessi mál rækilega og það er álitamál, má segja, hvort þarna á að skipa þriggja manna nefnd eða nefnd fleiri sérfræðikunnáttumanna. En allt um það á að vera unnt að ljúka slíkri úttekt á fáum mánuðum á vísindalegum grunni og er í rauninni ekki eftir neinu að bíða því vandinn er staðreynd og nauðsynlegt að grípa til ráða eins fljótt og hægt er.

Örn Helgason dósent hjá Raunvísindastofnun Háskóla Íslands hefur í grg. sagt helstu staðreyndir sem um er að ræða í þróun á notkun vindmylla í heiminum í dag. Þar er um allmiklar framfarir að ræða. Í olíukreppunni beindist athyglin að nýjum leiðum í orkumálum. Þá var hin forna orkulind mannkynsins, vindorkan, tekin til athugunar. Það má segja að Danir hafi gert sér manna fyrst grein fyrir nútímalegum möguleikum á notkun vindorku sem orkugjafa í nútímaþjóðfélagi. Þeir hafa stundað um árabil mjög skipulegar tæknirannsóknir á þessu sviði og vöruþróun. Í dag eru vindorkurannsóknir stundaðar víða í heiminum. Þar eru Danir í fararbroddi, má segja, og við ættum að geta nýtt þá reynslu sem þar hefur unnist.

Það liggja fyrir ítarleg gögn um vindafar á Stórhöfða og þó að þessi gögn séu ekki alls kostar marktæk fyrir vindafar á líklegustu virkjunarstöðum í Vestmannaeyjum má fullyrða að vindorka á eyjunum er langtum meiri en flest erlend vindorkuver búa við. Þá er ljóst að breyta þarf vinnslustöðlum í sambandi við nýtingu á vindorku í Vestmannaeyjum, flestum stöðlum ef ekki öllum, því þar er um að ræða mun meiri vindhraða en miðað er við og nýtist í erlendum vindmyllum sem hafa verið settar upp víða um heim. Það er álit sérfræðinga Raunvísindastofnunar við fyrstu sýn að nýting vindorku til húshitunar í Vestmannaeyjum sé nokkuð álitlegur kostur þótt nauðsynlegt sé að skoða þau mál miklu frekar áður en unnt er að fullyrða neitt um raungildi þessarar sýnar.

Það má jafnframt geta þess að komið hefur vísindamönnum á óvart hve hraunhiti í Surtsey hefur haldist stöðugur í ákveðnum kjarna eyjarinnar, allt að 300 gráðu hiti um 20 ára skeið. Með tilliti til þeirrar reynslu sem þar hefur átt sér stað, m.a. með borunum og rannsóknum á borholum, er ástæða til að kanna til fulls hvort unnt sé að ná hitaorku í nýja hrauninu í Vestmannaeyjum á annan hátt en gert hefur verið hingað til.

Þessi till. miðar að því að þetta verk sé unnið faglega og fljótt. Að lokinni umræðu legg ég til að málinu verði vísað til atvmn.