25.11.1986
Sameinað þing: 21. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1150 í B-deild Alþingistíðinda. (985)

171. mál, vindorkuver og hraunhiti til húshitunar

Iðnaðarráðherra (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Á þskj. 181 flytur hv. þm. Árni Johnsen till. til þál. um vindorkuver í Vestmannaeyjum og frekari nýtingu á hraunhita til húshitunar.

Ég sé ekkert sem mælir gegn því, ég styð það frekar en hitt að nefnd sé skipuð og hvort hún er þriggja manna eða þá fimm manna t.d. skiptir ekki öllu máli. Sökum þess hve Ísland býr yfir ríkulegum orkulindum vatnsafls og jarðhita hafa Íslendingar ekki lagt sömu áherslu og aðrar þjóðir á að þróa aðferðir til að nýta vindorku landsins sem öllum er þó ljóst að er fyrir hendi í ríkum mæli.

Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar með nýtingu vindorku á stöðum þar sem ekki er auðveldur aðgangur að ódýrri orku. Helsta tilraunin var sú sem gerð var í Grímsey af Raunvísindastofnun Háskólans undir forustu Arnar Helgasonar, þess sama sem getið er um í þskj. 181 og flm. vitnaði í. Í þessari tilraun fékkst engin niðurstaða varðandi hagkvæmni þess að nýta vindorku á slíkum stöðum þrátt fyrir að vindorka er ekki síður aðgengileg í Grímsey en í Vestmannaeyjum. Leikur nokkur vafi á hvort þessi tilraun hafi fært okkur nærri lausn á húshitunarvanda eyjarinnar.

Þá má einnig geta þess að vindorka er ekki talin nothæf af sérfræðingum nema með fullu varaafli. Af þessu má vera ljóst að beislun vindorku getur verið nokkuð kostnaðarsöm. Stálsmiðjan mun á næstunni standa fyrir tilraun til nýtingar á vindorku og fær til þess lán hjá Iðnlánasjóði. Við verðum ekki með frekari aðgerðir uns einhver niðurstaða hefur fengist um hagkvæmni á nýtingu vindorku.

Þessu til viðbótar, hæstv. forseti, vil ég segja að sjálf þáltill. stangast svolítið á við það sem segir í grg., en þar segir m.a. að hiti fari nú stöðugt þverrandi á virkjunarsvæðinu og sé allt útlit fyrir að Fjarhitaveita Vestmannaeyja verði að grípa til annarra ráða áður en langt um líður. Síðan er talið upp að þessi ráð séu annaðhvort fólgin í því að nota raforku, olíu eða vindorkuvirkjanir.

Það verður rætt við Vestmanneyinga í sambandi við lausn á fjárhagsvanda hitaveitna eins og ég gat um í umræðum um það mál sem var á dagskrá á undan þessu. Ég gat líka um að vandamál Hitaveitu Vestmannaeyja væri ekki eingöngu fjárhagsleg heldur líka tæknileg. Ég reikna með að sú nefnd ræði það mál að hluta. Ég tek þó undir þessa þáltill. því að ég álít að hér þurfi að vera annaðhvort þriggja manna nefnd, eins og segir í þáltill. hv. flm., eða fimm manna nefnd, en hann var að tala um að þriggja manna nefnd væri kannske of lítil. En það þarf að vera nefnd vísindamanna sérstaklega sem komi með nýjar hugmyndir og kanni að sjálfsögðu frekar, eins og till. segir til um, frekari nýtingu jarðhita í Eldfellshrauni, m.a. með athugunum á sprungumyndunum í eldstöðvunum.

Ég er sammála þessari þáltill. og legg til að hún verði samþykkt og vona að við finnum lausn á orkuvandamálum Vestmannaeyja. En ég vil aðeins geta þess að lokum að tveir vísindamenn, tveir ungir verkfræðingar, hafa sótt um aðstoð iðnrn. til að fá styrk úr norrænum sjóðum til að kanna möguleika á því að nýta þá tækni sem nú er þekkt til að flytja raforku á milli landa, þ.e. sjóleiðina. Það eru komnir nýir kaplar sem flytja betur en áður þekktu kaplarnir raforku á milli landa um langan veg. Þeir hafa hug á að kanna frekar en þegar hefur verið gert möguleikana á að flytja orkuna til Færeyja og þaðan til Skotlands og áfram til Skandinavíu og kannske til Evrópu þegar þar að kemur.

Þetta er í gangi og þeir vitna til sams konar mannvirkja sem hafa þegar verið reist annars staðar og telja vegalengdina álíka eins og til Færeyja. Reynsla þaðan gæti orðið okkur að einhverjum notum. Þá er spursmál: Er þá ekki hagkvæmara eða kannske öruggara og betra að athuga í leiðinni hvort tæknin er komin á það stig að hagkvæmast sé að flytja frá landi orkuna til Vestmannaeyja með þessum nýju köplum.

Hæstv. forseti. Ég legg til að till. verði samþykkt.