25.11.1986
Sameinað þing: 21. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1153 í B-deild Alþingistíðinda. (989)

161. mál, greiðslufrestur

Sigurður Þórólfsson:

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um viðskipti með greiðslufresti á þskj. 171. Flm. að þessari till. eru Davíð Aðalsteinsson, Stefán Benediktsson, Haraldur Ólafsson, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Valdimar Indriðason, Steingrímur J. Sigfússon og Sigurður Þórólfsson. Tillgr. er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta nú þegar undirbúa löggjöf um viðskipti með greiðslufresti.“

Í grg. með till. segir:

„Núgildandi lög um lausafjárkaup eru síðan 1922. Á undanförnum árum hafa umræður um kaupalögin ekki síst tekið mið af þeim ákvæðum laganna sem fela í sér að aðilar að kaupsamningi geta vikið ákvæðum kaupalaganna til hliðar, sbr. 1. gr. laganna. Eins og nærri má geta hafa orðið miklar breytingar á viðskiptaháttum á þeim tíma sem liðinn er frá setningu laganna, enda hefur oftsinnis verið bent á að þau bæri að endurskoða í ljósi breyttra tíma.

till. til þál. sem hér er flutt gerir ráð fyrir að sett verði sérstök löggjöf um viðskipti með greiðslufresti, m.a. með hliðsjón af notkun víxla, skuldabréfa, greiðslukorta og reikningsviðskipta, en síðast en ekki síst verði slík löggjöf að taka til samninga með eignarréttarfyrirvara. Markmið og tilgangur slíkrar löggjafar yrði tvímælalaust að draga sem skýrastar markalínur um réttarstöðu kaupanda og seljanda hvors gagnvart öðrum sem yrði um leið mikilvægt spor í átt til aukinnar neytendaverndar. Neytendasamtökin hafa sýnt þessu máli mikinn áhuga og margsinnis bent á hversu brýnt væri að setja lög á þessu sviði. Til marks um viðleitni stjórnvalda á undanförnum árum má nefna að á löggjafarþinginu 1978-79 var lagt fram stjfrv. um afborgunarkaup, en frv. náði ekki fram að ganga. Í janúar 1983 lágu fyrir drög að frv. til l. um lánsviðskipti (afborgunarkaup) sem samið var á vegum viðskrn.

Á þessu sviði sem mörgum öðrum hafa Norðurlandaþjóðirnar haft með sér náið samstarf. Löggjöf þessara þjóða, a.m.k. Dana, Svía og Norðmanna, er mjög svipuð um flest atriði sem máli skipta, enda höfðu þær með sér samvinnu um undirbúning þeirra á áttunda áratugnum. Tilgangur þeirrar samvinnu var þó ekki að löggjöfin yrði samhljóða heldur að bera sama bækurnar um það hvar skórinn kreppti. Reyndar hefur miklu víðar um lönd verið sterk tilhneiging til þess að styrkja stöðu neytenda á ýmsum sviðum, en þar höfum við að margra dómi verið eftirbátar, ekki aðeins vegna þess að lagakróka hafi vantað heldur og ekki síður vegna þess að við höfum ekki stuðlað að nógu sterkum neytendasamtökum. Í því efni hefur ýmislegt komið til. Hér á landi hefur það mjög farið eftir fyrirtækjum og starfsmönnum þeirra hverra réttinda neytandinn hefur notið. Dómsmál á þessu sviði eru allt of mörg að áliti flestra sem til þekkja.

Þau frumvörp, sem þegar hafa verið samin um það efni sem þessi till. til þál. varðar, er sjálfsagt að hafa til hliðsjónar við undirbúning þessa máls ásamt nútímaviðhorfum í íslensku viðskiptalífi og því sem nýtilegt er úr löggjöf annarra Norðurlandaþjóða. Undirbúningi þessa máls væri æskilegt að hraða svo að þetta þing, sem nú situr, beri gæfu til þess að samþykkja löggjöf um það efni sem vikið er að í till."

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði till. vísað til atvmn.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.