26.11.1986
Efri deild: 15. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1155 í B-deild Alþingistíðinda. (991)

181. mál, Kennaraháskóli Íslands

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Á þskj. 191 flyt ég frv. til l. um breytingu á lögum um Kennaraháskóla Íslands. Í núgildandi lögum segir svo í 15. gr.:

„Vísindalegu starfi Rannsóknarstofnunar uppeldismála stjórnar forstjóri kjörinn til skiptis úr hópi fastra kennara í uppeldisskor Kennaraháskóla Íslands og fastra kennara við heimspekideild Háskóla Íslands í sálarfræði, uppeldisfræði og félagsfræði.“

Áður gilti sú fortakslausa regla að starfi Rannsóknarstofnunar uppeldismála stjórnaði forstjóri sem kjörinn væri til skiptis úr hópi fyrrgreindra aðila. Hér er lagt til að reglunni verði að vísu viðhaldið en hún sé ekki undantekningarlaus ef menn vilja svo viðhafa og fyrir því er orðinu „að jafnaði“ skotið þarna inn í lögin. Enn fremur er hér nú talað um fasta kennara í félagsvísindadeild Háskóla Íslands í sálarfræði, uppeldisfræði og félagsfræði og er það í samræmi við þá breytingu sem orðið hefur á deildaskipun Háskóla Íslands frá því að lög nr. 38 frá 1971 voru sett.

Ég bendi á að þetta er flutt að sérstakri beiðni þeirra sem þarna eiga hlut að máli. Sá forstjóri sem gegnt hefur þessum störfum hefur reynst með þeim ágætum að félagsvísindadeildin leggur mjög mikla áherslu á að Sigríði Valgeirsdóttur verði falið að gegna þessu forstjórastarfi áfram.

Þeir aðilar sem hlut eiga að máli eru sammála um þetta og fyrir því er það að ég tel fullkomna ástæðu til að greiða fyrir því að sú skipan geti orðið, enda þótt ég ítreki að reglan er áfram óbreytt en ekki, eins og verið hefur, fortakslaus.

Ég vil svo, virðulegi forseti, leyfa mér að leggja til að þessu máli verði vísað til menntmn. þegar þessari umræðu lýkur.