03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1423 í B-deild Alþingistíðinda. (1005)

Skrifleg svör við fyrirspurnum

Menntamálaráðherra (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Aðeins til nánari skýringar á því hvers vegna dregist hefur að svara fyrstu fsp. sem er á dagskrá þessa fundar og reyndar skriflegri fsp. um sama efni frá hv. 2. þm. Austurl. Þetta hefur dregist allmjög og er ástæðan sú að það er spurt um stöðugildi í þessu efni sem þýðir að þetta mál hefur verið sent út til allra fræðsluskrifstofa landsins sem þurfa að meta stöðugildin. Ráðuneytið hefur að sjálfsögðu upplýsingar um hversu marga einstaklinga hér er um að ræða, en fræðsluskrifstofurnar verða að meta stöðugildin. Þetta eru fræðsluskrifstofur í öllum kjördæmum landsins og það einfaldlega tekur þennan tíma fyrir þær að vinna þessi svör og senda þau inn til ráðuneytisins. En ég hef rekið á eftir þessu og vonast til að það dragist ekki lengi úr þessu að svör berist hingað.