03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1424 í B-deild Alþingistíðinda. (1007)

79. mál, heimsóknir herskipa og kjarnavopn

Utanríkisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda hefur það komið greinilega fram í ræðum mínum að hér skuli ekki vera kjarnorkuvopn, hvorki á friðar- né ófriðartímum. Ég vek einnig athygli á því að fyrrv. utanrrh., sérstaklega Geir Hallgrímsson, lýsti hinu sama yfir gagnvart skipum og fór þar ekkert á milli mála.

Því miður hygg ég að ég fái ekki tryggt að undantekningarlaust verði þessum yfirlýsingum fylgt. Ég vek athygli á því að jafnvel herveldi eins og Svíum gengur afar illa að tryggja að kafbátar, e.t.v. með kjarnorkuvopn, fari ekki inn fyrir skerjagarðinn í Svíþjóð. Hvað þá um það hafdýpi sem er hér í kring, ég segi því miður, þannig að ég get ekki með nokkru móti lofað því að þetta verði undantekningarlaust virt. Hins vegar hef ég gengið úr skugga um það að okkar bandalagsríki innan Atlantshafsbandalagsins a.m.k. vita mjög vel um þessa ákvörðun okkar og það hefur hvað eftir annað komið fram að þau vilja virða þessa ákvörðun. Þannig hefur t.d. við flotaæfingar bandalagsins þess ætíð verið gætt að herskip þeirra fari ekki inn fyrir 12 sjómílur og hafa ríkin þannig sýnt í verki vilja til að virða þessa ákvörðun okkar.

Ég hef því miður ekki ítarlegra svar við þessari fsp. en vil bara leggja á það áherslu að ég hef og mun gæta þess að þessi ákvörðun íslenskra stjórnvalda sé öllum kunn og við ætlumst til þess að hún verði virt. En hvernig undantekningarlaust megi tryggja að svo verði, þá hef ég því miður ekki þau tæki í höndum að ég geti lofað því.