03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1428 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

87. mál, orkusala erlendis

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Raforka frá Íslandi gæti hugsanlega komið til álita og keppt við raforku frá nýjum kjarnorku- eða kolastöðvum. Framleiðslukostnaður frá nýjum kjarnorkustöðvum áætlast um 1,45 kr. á kwst., sem eru 39 mill, en frá kolastöðvum um 1,60 kr. sem eru 43 mill. Við þetta orkuverð þarf raforkan frá Íslandi að keppa.

Athugun Landsvirkjunar miðast við flutning á 500 mw um einn sæstreng. Fyrstu niðurstöður gáfu til kynna að raforkuverð frá endastöð sæstrengs í Skotlandi gæti verið samkeppnisfært við áðurnefnd orkuverð frá kjarnorku- og kolastöðvum. Því var ákveðið að halda þessum athugunum áfram á vegum fyrirtækisins án þess þó að kosta of miklu til. Verði lagður 500 mw sæstrengur á milli landanna getur orkuflutningurinn numið um 3500–4000 gwst. á ári. Til samanburðar má geta þess að framleiðslugeta núverandi raforkukerfis hér á landi er rúmlega 4000 gwst. á ári. Hagkvæmt vatnsafl til raforkuvinnslu á Íslandi er talið svara til um 30 000 gwst. á ári og úr jarðvarma má ná 20 000 gwst. á ári eða samtals 50 000 gwst.

Til að anna flutningi og sölu á 500 mw um sæstreng til Skotlands mætti hugsa sér að byggja allar þær virkjanir sem nú eru verkhannaðar, en þær eru Fljótsdalsvirkjun, þar sem aflið er 252 mw, stækkun Búrfells, 100 mw, Sultartangavirkjun, 110 mw, Vatnsfellsvirkjun, 100 mw, og Villinganesvirkjun með 30 mw afl. Kostnaður við byggingu virkjana með alls um 500 mw aflgetu og lagningu sæstrengs frá Íslandi til Skotlands um Færeyjar áætlast alls um 1400 milljónir bandaríkjadala eða um 52 milljarðar kr. á núverandi verðlagi.

Hér er því um mjög kostnaðarsamar framkvæmdir að ræða sem krefjast flókinna samninga og er þess ekki að vænta að framkvæmdum við sæstreng milli Íslands og Skotlands og hlutaðeigandi virkjanir geti verið lokið fyrr en í fyrsta lagi fimm til tíu árum eftir að endanleg ákvörðun er tekin í framhaldi af tímafrekum samningum og nauðsynlegri fjáröflun á lánsfjármörkuðum erlendis.

Nýlega hefur breska fyrirtækið North Venture óskað eftir viðræðum við íslenska aðila um raforkuútflutning til Skotlands. Fulltrúar frá félaginu eru væntanlegir til landsins um helgina til að afla sér gagna og í framhaldi af því munu viðræður fara fram um málið við fulltrúa Landsvirkjunar. Það er síðan ætlunin að ég hitti þessa fulltrúa næstkomandi miðvikudag. Það er full ástæða til þess að ræða málið við fyrirtækið þótt varla sé við því að búast að niðurstaða fáist í því máli á næstunni. Umræður í erlendum fjölmiðlum eru af hinu góða og geta vakið athygli á orkulindum landsins og möguleikum til að nýta þær til gjaldeyrisöflunar.

Umræður um útflutning á orku héðan geta einnig opnað augu almennings fyrir öðrum leiðum en raforkuframleiðslu í kjarnorkuverum, en við hljótum að hafa áhyggjur af frekari uppbyggingu þeirra vegna mengunarhættu sem af þeim stafar eins og glögglega kemur fram í afstöðu íslenskra stjórnvalda og annarra gegn endurvinnslustöðinni í Dounreay.

Það væri vissulega skemmtilegt að geta rifjað það upp, herra forseti, að það eru margir áratugir síðan fyrst komu fram hugmyndir um lagningu sækapals með svipuðum hætti. Það var Frímann Arngrímsson sem það gerði. Það mál var einmitt rifjað upp af hæstv. forsrh. í tilefni fullveldisafmælisins 1. desember sl.

Það er ljóst að meginniðurstaðan er sú að íslensk raforka tekur varla land í Bretlandi fyrr en undir aldamót jafnvel þótt ráðagerðum í þá átt gangi allt í haginn.

Vegna síðari fsp. er það að segja að það verður áfram unnið að athugun á útflutningi á raforku.