03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1431 í B-deild Alþingistíðinda. (1017)

99. mál, Mývatnsrannsóknir

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég hef borið fram við hæstv. menntmrh. svohljóðandi fsp. um Mývatnsrannsóknir:

„1. Hver er afstaða ráðherra til óska sérfræðinganefndar um Mývatnsrannsóknir varðandi fjármögnun rannsókna á árunum 1987 og 1988?

2. Hver eru viðbrögð ráðuneytisins við afsögn sérfræðinganefndarinnar?

3. Með hvaða hætti hyggst ráðuneytið fyrir sitt leyti standa að framhaldi Mývatnsrannsókna?"

Ástæða þessarar fsp. eru þrengingar sem þessar rannsóknir eru í fjárhagslega og það hefur komið fram opinberlega að þeir aðilar, sem til þess voru skipaðir af menntmrn. að annast þessar rannsóknir, hafa hætt því starfi og treysta sér ekki að starfa áfram að málinu við óbreyttar aðstæður vegna þess að fé skortir.

Hæstv. ráðherra hefur fengið frá Náttúruverndarráði bréf dags. 3. nóv. 1987 þar sem fram kemur að nefndarmenn gefa ekki kost á sér til starfa við óbreyttar aðstæður. Sá ágreiningur sem var uppi um framlengingu námuleyfisins á sínum tíma stafaði af því að upplýsingar skorti um líkleg áhrif kísilgúrnáms af botni Mývatns á lífríki þess. Það er mat aðila að úr því þurfi að fást skorið með rannsóknum fyrir árið 1991 hvort ráðlegt er að halda efnisnámi áfram á botni Mývatns og þá hvar.

Sú fjárvöntun sem þarna ræðir um er allveruleg. Sótt var um aukafjárveitingu vegna ársins 1987 að upphæð 1,2 millj. kr. og til verk- og fjárhagsáætlunar fyrir árið 1988 áætlar sérfræðinganefnd um Mývatnsrannsóknir sig þurfa 7,3 millj. kr. Þarna er því samtals um að ræða 81/2 millj. kr. umfram það sem fé hefur verið veitt til og tel ég þá með aukafjárveitingarbeiðni vegna yfirstandandi árs. Þetta eru mjög alvarlegir hlutir og þess vegna er þessi fsp. fram borin.

Ég vil nefna það jafnframt að fyrir liggur, herra forseti, að sú upphæð sem samkvæmt námaleyfi kísilgúrvinnslunnar á að renna til þessara rannsókna, ákveðin upphæð af hverju tonni, virðist vera tvítalin í fjárlagafrv. Raunar gerðist það á fjárlögum yfirstandandi árs, en einnig í fjárlagafrv. fyrir næsta ár er þessi upphæð að mér er tjáð tvífærð, annars vegar á rannsóknarstöð við Mývatn og hins vegar sem tekjulind fyrir þessa sérfræðinganefnd. Þetta verður að sjálfsögðu að leiðrétta við fullnaðargerð fjárlaga og taka tillit til þess auk þess sem brýnt er að nægilegt fjármagn fáist til þessara rannsókna eins og að var stefnt þegar þetta verkefni var sett af stað af hálfu menntmrn.