03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1433 í B-deild Alþingistíðinda. (1019)

99. mál, Mývatnsrannsóknir

Málmfríður Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil aðeins árétta mikilvægi þess að rannsóknir þær sem um er rætt á lífríki Mývatns fari fram og að fjárskortur sé ekki látinn hamla því. Það hefur enginn vísindamaður treyst sér til að spá um það hver áhrif kísilgúrnámið úr Mývatni kunni að hafa á það margvíslega dýralíf sem þar þrífst, svo sem fuglalíf sem ekki á sinn líka í heiminum, þó að það hafi nokkuð látið á sjá og breyst á síðari árum. Silungsveiði hefur frá fyrstu tíð verið atvinnugrein í Mývatnssveit og fyrrum byggðu margir bændur þar afkomu sína að verulegu leyti á þeim veiðum og enn má kalla að þær séu stoðbúgrein í þessu sveitarfélagi.

Síðan kísilgúrverksmiðjan var reist hafa allmargir íbúar sveitarinnar haft þar vinnu en enginn veit hve lengi er hægt að ganga í þessa námu. Því eru rannsóknir nauðsynlegar bæði frá atvinnulegu og líffræðilegu sjónarmiði. Mývatnssveit er harðbýl til búskapar og bændur þar hafa sætt skerðingu við þá búháttabreytingu sem yfir gengur nú. Ég vil því enn undirstrika hve mikilvægt það er íbúum þessa fagra byggðarlags að rannsóknir þessar á því hvað má taka úr vatninu án þess að raska jafnvægi lífríkisins fari fram og kísilnám og veiðiskapur haldist í hendur án þess að skaði hljótist af. Þessar títt nefndu rannsóknir eru alger nauðsyn, svo að framtíðaráætlanir um búsetu í Mývatnssveit verði á þeim byggðar.