03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1434 í B-deild Alþingistíðinda. (1021)

99. mál, Mývatnsrannsóknir

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svar hans við fsp. minni og ég vil einnig þakka þeim sem hér hafa talað vegna þessarar fsp. og áréttað mikilvægi þeirra rannsókna sem þarna eiga að fara fram samkvæmt öllum samþykktum. Ég heyri að hæstv. ráðherra hefur beitt sér fyrir því í ríkisstjórn að úr rætist í sambandi við fjármálin. Hann nefndi 6,5 millj. kr. sem verja ætti á næsta ári til þessara rannsókna. En samkvæmt verk- og fjárhagsáætlun sem sérfræðinganefndin hafði gert fyrir komandi ár var talið að um væri að ræða fjárþörf upp á 7,3 millj. kr., þar af 10% ófyrirséð.

Segja má að það vanti ekki mikið upp á að við þessari fjárbeiðni sé orðið ef fram ganga þau áform sem hæstv. ráðherra kynnti hér og ég legg á það megináherslu að fjármagn verði nægjanlegt þannig að ekki standi á því til þess að hægt sé að hafa fyllstu upplýsingar þegar taka þarf frekari ákvarðanir af eða á varðandi kísilnám í Mývatni í þágu kísilgúrvinnslunnar. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. ráðherra hafi kynnt sér viðhorf sérfræðinganefndarinnar og hér sé þá að hennar mati um nægilegt fjármagn að ræða til að hún treysti sér til að halda áfram sínum störfum. En æskilegt væri að það kæmi fram frá hæstv. ráðherra hvort svo sé ekki og ég inni hann eftir því hvort fullt samráð hafi ekki verið haft við þá aðila sem ætlað er að standa að þessum rannsóknum þegar þessi áform voru mótuð. Jafnframt heiti ég á Alþingi að taka undir þau áform um fjárveitingar sem þarna voru kynnt.