03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1437 í B-deild Alþingistíðinda. (1025)

134. mál, heildarendurskoðun erfðalaga

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. heiðarlegt og afdráttarlaust svar eins og frá honum var að vænta. Hins vegar hlýt ég að harma það að ekki standi fyrir dyrum að endurskoða erfðalög, nr. 8 1962, eins og oftlega var talað um þegar mál það sem ég hér áður lýsti var í meðferð þingsins og tóku undir það velflestir bæði embættismenn og þm. sem um það mál fjölluðu.

Nú verð ég að játa að ég er ekki jafnkunnug þeim lögum sem hæstv. ráðherra minntist á, lögum um réttindi og skyldur hjóna, en ekki er mér grunlaust um að þessi endurskoðun, sem hann minntist á, sé e.t.v. fram komin vegna tillagna sem hæstv. núv. félmrh. margflutti hér í þinginu um réttindi við slit óvígðrar sambúðar án þess að ég sé alveg viss um að það sé tilefni til stofnunar þessarar nefndar, en mér er ekki alveg grunlaust um að verið sé að reyna að samræma réttindi maka við sambúðarslit, einnig þeirra sem búið hafa í óvígðri sambúð. En þetta kann að vera ágiskun, ég er ekki alveg nógu viss, en grunur minn er sá.

Ég vil hins vegar biðja hæstv. dómsmrh. að lesa vandlega þá umræðu sem fram fór við flutning þess frv. sem ég áður minntist á, um breytingu á réttindum þess maka sem lengur lifir, því að ég held að hér sé á ferðinni mikið nauðsynjamál. Ég hef marglýst því áður að ég tel með öllu ótækt að börn eftirlifandi maka og stjúpbörn hafi meiri ráð yfir eignum foreldris síns heldur en foreldrið sjálft sem eignanna hefur aflað og með öllu óþarft fyrirkomulag í okkar þjóðfélagi þar sem fólk er almennt búið undir að bjarga sér sjálft. Þess vegna vildi ég fara fram á það við hæstv. dómsmrh. að lesa þá umræðu sem þar fór fram, og ég er næstum viss um að starfsmenn hans í dómsmrn. þekkja þessa umræðu alla vel, og biðja hann að gangast fyrir því að fram fari heildarendurskoðun á erfðalögum.